Orð í tilefni jóla og nýs árs

Ari Trausti Guðmundsson

Þegar nýtt ár gengur í garð djarfar fyrir lokum heimfaraldursins. Hann hefur leikið flest ef ekki öll lönd ýmist illa eða fremur grátt. Mannfall vegna Covid-sýkingar, mikið álag á heilbrigðiskerfið og alvarleg vandkvæði í efnahagslífinu, lita næstum allt árið 2020. Hér á landi hefur faraldurinn tekið mikið á samfélag og einstaklinga. Má gera ráð fyrir, að þrátt fyrir að ferðaþjónustan, ýmsir aðrir atvinnuvegir og innri stoðir samfélagsins sýni veruleg batamerki, að allnokkur ár þurfi til úrbóta í samfélaginu og til endurgreiðslu fjármuna sem vörðu fólk eins og unnt var, þegar á heildina er litið. Ég tel að bærilega hafi til tekist og stjórnvöld axlað ábyrgðina sína. Lengst af með réttri vástjórnun frá einni viku til annarrar, en þegar leið á með því að leggja línur um framhaldið eftir að veiran hefur beðið ósigur fyrir hugviti og vísindum. Hver bólusetning er sigur í sjálfu sér en um leið áminning um mátt náttúrunnar og nauðsyn þess að lifa og starfa sem sjálfbær hluti hennar án þess að telja sig yfir hana hafin – eða í rétti til að gera sér hana undirgefna. Eitt sinn var það talið hlutverk mannsins.

Stjórnmál lituðu Covid-tímana eins og öll önnur tímabil stórra atburða í sögu okkar. Samstarf þriggja ólíkra flokka hefur leitt til margs konar umbóta og kostað, ef þannig má komast að orði, margar og flóknar málamiðlanir. Það er kjarni samsteypustjórnlistar sem er okkur búin kjörtímabil fram af kjörtímabili. Innviðir hafa styrkst, velferðarkerfið eflst og jafnrétti aukist. Engu að síður þarf enn að bæta kjör nokkurra hópa sem þurfa á sem mestri samfélagsaðstoð að halda. Við þurfum líka að raungera æ betur góða stefnumörkum í málaflokkum eins og orkumálum, orkuskiptum, nýsköpun, ferðaþjónustu, frumatvinnuvegum, menntamálum og heilbrigðismálum – endurskoða og fylgja aðgerðaáætlunum í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Það eru frumskilyrði þess að við náum að búa við sjálfbært hringrásarhagkerfi með þátttöku almennings í lipru lýðræði og með upplýstum ákvörðunum. Sameining sveitarfélaga, bætt úrgangsmeðferð, styrkari fjárstuðningur ríkisins og auðlinda- eða umhverfisstefna sveitarfélaga eru allt teikn um félagslegar og grænar framfarir sem ber að fagna.

Hlutverk sveitarfélaga er ítrekað með stofnun og rekstri hálendisþjóðgarðs. Þar eru þau með meirihluta í þeim umdæmisráðum sem semja verndar- og nýtingaráætlanir fyrr sína landshluta inni á öræfum. Þau geta tryggt hefðbundnar nytjar og ýmsa atvinnustarfsemi, að frjáls en þó skipulögð för verði áfram almenningi og ferðamönnum heimil – og allt þetta fari fram með umhverfisvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Aðrar náttúrunytjar geta farið fram samkvæmt landsáætlunum, landsskipulagi og öðrum lögum og reglum sem samkomulag næst um í samfélaginu og á Alþingi. Friðuð svæði og þjóðgarðar eru ríkar auðlindir sem unnt er að nytja í bland við aðrar auðlindir. Þess vegna er sérhvert skref í þessum efnum samfélaginu mikils virði.

Ég sendi öllum lesendum góðar kveðjur í tilefni desemberhátíðanna og óska þeim og þeirra fólki farsældar á nýju ári.

 

Ari Trausti Guðmundsson

Höfundur er þingmaður VG.