Órans-bleiku páskaplönin

Arnaldur Máni Finnsson

Kannski er langt síðan öll plön voru niðurnegld. Skólafríin hefjast um helgina og páskafríið kærkomið. Kominn tími til að skipta um árstíð. Tíminn líður hratt. Tilfinning fyrir inntaki siðanna hnignar. Í það minnsta þeim sem kaupmenn geta ekki gert að sinni söluvöru. En form þeirra aðlagast; fagurlega skreyttir páskaungar og vorboðar æskunnar gleymast kannski í geymslum en páskaeggjaúrvalið í búðinni eykst ár frá ári. Fígúrurnar og skreytið eltir tíðarandann, táknin og merking þeirra missa vægi og renna úr vitund almennings; ef við gætum ekki að okkur. Af hverju páskaegg? Af hverju páskahéri? Og hver mótmælir ef vinsæll lífstíls-áhrifavaldur tilkynnir að páskaliturinn í ár sé órans-bleikur?

Tímavillur og samsull

Við erum alltaf að reyna að finna þennan stað þar sem við finnum fyrir frið í sálinni, ímynda ég mér, en getum þó um leið mörg hver sagst hafa ágæta ró. Það er helst að flest okkar fullorðnu séum einhuga í að hafa áhyggjur af yngri kynslóðum og hvernig þeim mun reiða af í veröld sem við sjálf eigum fullt í fangi með að ná utanum. Sjálf erum við að verða tímavillt; hálf inní framtíð sem kom of snemma en samt eins og álfar á síðustu öld, í leit að gildum til að brúka fyrir staf. Hvað er til stuðnings þegar engin fær stöðvað tímans þunga nið? Fær maður sér bara tappa í eyrun? Uppfærir maður bara húmorinn?

Æ, það er blessun að geta fastað á lögmál heimsins um leið og maður fastar á að gerast dómari yfir viðhorfum annarra; það er áskorun en nærir mildi, ræktar hógværð, temur sjálfsaga. Að mæta páskum er að skoða sátt heims og manns.

Við áttum okkur eftir því sem fram vindur, á að við erum ekki vélar og uppbygging sjálfsmyndar og lífs getur ekki orðið að ferli í sjálfshjálparbók; við verðum ekki öll steypt í sama mótið. Mælikvarði á heilbrigði getur ekki mótast af metnaði og hégóma. Metingur bíður öfund og ófullnægju heim.

Að sjá með innri augum

Það er lítið mál að fara í gegnum lífið ósáttur. Það kostar bara það að vera sífellt að finna að öðrum og keppast eftir fleiri hlutum, geta sýnt frammá að maður sé meira virði en aðrir. En það villir okkur sýn og fjarlægir okkur því að sjá virðið í náunganum og meta ávexti æðruleysisins. Með innri augum andans getum við séð að það er ekki virði asnans sem undirstrikar merkingu þess viðburðar að Jesús kom til Jerúsalem á Pálmasunnudag, í upphafi dymbilviku. Það er fögnuður þeirra sem horfa með innri augum á möguleikann á því að lögmáli heimsins verði snúið á hvolf. Að asninn sé verðugur. Að andinn sigri efnið og að lífið sigri dauðann. Að hið niðurlægða verði upp reist til tignar.

Eitt af því sem við viljum ekki að tapist í tímans stríða straumi, er að við lærum af og vöxum af reynslu. Að áföll og erfiðleikar séu ekki merkingar sem skilgreina okkur í styrkleikaflokk. Við þurfum að muna að virði okkar er ómetanlegt því að möguleikarnir eru ófyrirséðir. Og þá er einmitt svo mikilvægt að muna hvers vegna það er ekki hægt að reikna allt út; hvers vegna lögmáli heimsins er valt að treysta. Vonin nær út yfir allt lögmál því að vonin er innri veruleiki. Vonin er opið hjarta, vonin er brum á grein.

Hátíð vonar og styrks trúar

Hringrás tímans var og er heilög, hún er fyrirsjáanleg því við höfum áttað okkur á lögmáli tímans, árstíðanna og eiginleika þeirra. Við treystum og þreyjum þess vegna í gegnum eitt tímabil, markað siðum sem helga hringrásina. Fæðingu og fögnuði fylgir dauði og sorg, upprisunni fylgir von og styrkur trúar. Páskaeggið táknar gröfina þar sem undrið hefur átt sér stað.

Hérinn táknar Krist sem sprettur fram úr hýði sínu og heilsar vori. Ef við munum það, þá gildir einu hvort það er órans-bleikt eða gult. Bara að páskaliturinn í ár fangi kjarna lífisins, kraftinn, trúnna og von upprisunnar.

 

Arnaldur Máni Finnsson

Höf. er sóknarprestur á Staðastað

Fleiri aðsendar greinar