Opið bréf til yfirvalda á Akranesi varðandi skólalóðir

Stjórn Foreldrafélags Brekkubæjarskóla

Kæru bæjaryfirvöld, kjörnir fulltrúar og starfsmenn!

Mikið hefur verið rætt um að á Akranesi ríki ábyrg og árangursrík fjármálastjórnun og töluvert lagt í það að kynna fyrir okkur bæjarbúum í hvað krónurnar okkar fara. Í fjárhagsáætlun 2020 er líka útlistun um jákvæða rekstrarniðurstöðu og mun meiri afgang en gert var ráð fyrir.  Þar er enn fremur talað um að „Stóraukið fé [verði] lagt í endurbætur á stofnanalóðum við leik- og grunnskóla“ og að bæjarstjórn samþykki „að ráðstafa um 1505 mkr. vegna ýmissa fjárfestinga og framkvæmda á árinu 2020 en þar af eru um 486 mkr. vegna verkefna sem færast frá árinu 2019.“ Af þessu er ekki hægt að skilja annað en að bæjarfélagið okkar standi vel og að hér búi stofnanir ekki við fjárskort.

Við, foreldrar barna í Brekkubæjarskóla, höfum reyndar ekki enn orðið vör við þessa velmegun á skólalóð barnanna okkar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum þá er gert ráð fyrir heilum 69 milljónum samtals á árunum 2020-2023 til endurbóta á skólalóð skólans.  Nú þegar hafa 10 milljónir verið nýttar í að láta hanna og teikna lóðina. Hvað getum við gert fyrir 59 milljónir í viðbót? Nemendur skólans hafa sýnt mikið langlundargeð undanfarin ár á meðan stór hluti leiksvæðis þeirra hefur legið undir framkvæmdum sem síðan nýtist þeim alls ekki í skólastarfinu.  Fyrst framkvæmdirnar á Vesturgötunni og núna fimleikahúsið. Eina náttúrulega svæðið við skólann hvarf undir fimleikahúsið. Hvað fá börnin okkar í staðinn?

Skólalóð er heldur ekki bara skólalóð

Þegar fjölskyldufólk ferðast um landið okkar og skoðar bæjarfélög á ferðum sínum þá má segja að skólalóðir séu eins konar andlit bæjarins. Maður stoppar gjarnan með börnin á skólalóðum til að leika og tekur eftir þegar vel er staðið að umhverfinu í kringum skólana og segir það mikið til um hvaða skoðun maður myndar sér um bæjarfélagið. Skólalóð í niðurníðslu er ekki til þess að efla ímynd bæjarfélags út á við og gefur ekki þá tilfinningu að bæjarfélagið sé í sókn. Það sem er enn sorglegra er að vanræktar skólalóðir og svæði ætluð börnum efla enn síður ímynd bæjarfélags inn á við og gefur íbúum þess ekki góða von og bjartsýni um að þeir búi í sterku og framsæknu bæjarfélagi. Það hlýtur að vera markmið allra sveitafélaga að vera vel samkeppnishæf og eftirsóknarverð og metnaðarfull skólalóð yrði stórt skref í þá átt.

Hingað á Akranes koma oft stórir hópar barna og fjölskyldufólks til þess að sækja íþróttamót og bæjarhátíðir. Gjarnan nýtast skólabyggingar sem gistipláss fyrir slíka hópa og blasa þá við skólalóðir bæjarins. Skólalóð Grundaskóla þarfnast vissulega endurbóta, en þegar kemur að niðurníðslu, þá er skólalóð Brekkubæjarskóla svolítið eins og niðursetningur sem rétt skrimmtir á mygluðum brauðskorpum. Það dugir skammt að reyna að fela þessa sorglegu staðreynd á bakvið nútímalega fimleikabyggingu. Skólalóð sem býður upp á fjölbreytt útisvæði sem nýtist bæði nemendum og kennurum,  íbúum og ferðafólki hlýtur að vera eitt albesta dæmi um sjálfbæra ferðamennsku og því til mikils að vinna.

Skólalóð er líka ekki bara andlit bæjarins. Skólalóð þjónar líka lýðheilsu bæjarbúa og stuðlar að bættum lífsgæðum þeirra. Vel skipulögð og skjólgóð skólalóð nýtist öllum bæjarbúum frá vöggu til grafar (sbr. Málefnasamningur núverandi meirihluta). Útisvæði með sætum nýtist eldri íbúum sem vilja ganga um fallegt svæði fullt af lífi en geta líka sest niður og hvílt sig. Vel afgirt og skjólgott útisvæði með fjölbreyttum leiktækjum nýtist fjölskyldufólki með börn á öllum aldri. Útisvæði sem nýtir náttúrlegar brekkur, kletta og tré þjónar börnum að leik sumar jafnt sem vetur og í hvaða veðri sem er. Útisvæði sem býður upp á góða og vel hirta íþróttavelli nýtast ungmennum og íþróttafólki á öllum aldri. Vel skipulögð skólalóð stuðlar að lýðheilsusjónarmiðum eins og þau eru sett fram hjá lýðheilsustofu og landlæknisembættinu og ætti að vera forgangsatriði hjá heilsueflandi samfélaginu Akranesi.

Fyrir utan grundvallartilgang skólalóðar og það sem hér hefur verið upptalið þá á eftir að nefna þau gildi og réttindi sem barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna kallar eftir fyrir börn um allan heim. Börn eiga rétt á skólaumhverfi sem virkjar þau og eflir, þroskar og þjálfar. Börn eiga rétt á fjölbreyttu lærdómsumhverfi. Samkvæmt bæjaryfirvöldum er skólastarf hér á Akranesi í fremstu röð og yfirlýst stefna bæjarins er að halda því þannig, en einnig hefur Akranesbær sent frá sér viljayfirlýsingu um að það ætli að verða barnvænt sveitarfélag. Að verða barnvænt sveitarfélag felur einmitt í sér innleiðingu á barnasáttmálanum og að bæjaryfirvöld setji á sig „barnréttindagleraugu“ þegar þau gera áætlanir fyrir framtíð bæjarfélagsins. Ef það er rétt þá hljóta skólalóðirnar hér á Akranesi að vera efstar á forgangslista bæjaryfirvalda.

Það þarf hins vegar ekki skipulagsfræðing til þess að sjá að skólalóð Brekkubæjarskóla hefur verið eins aftarlega á forgangslista yfirvalda og hægt er að komast upp með og það í a.m.k. aldarfjórðung. Margir núverandi foreldrar voru nemendur skólans fyrir 20-30 árum og geta staðfest það að körfurnar á efra svæði skólalóðarinnar eru óbreyttar frá því að þeir bíttuðu með pox í frímínútum og teiknuðu Wu-Tang merkið á skólatöskurnar sínar. Margir eru líka með falleg ör á hnjánum eftir að hafa spilað fótbolta á malbikuðu völlunum. En hey! Það er að minnsta kosti stutt yfir á slysó og kannski fá börnin alveg eins ör í stíl.   Jú, því malbikuðu vellirnir og parísarnir við skólann hafa sko staðið af sér ýmislegt. Sementsverksmiðjan er farin, HB, Skagaver og Hafmeyjugosbrunnurinn eru farin – en malbiksvellirnir við Brekkó standa óbreyttir. Samkvæmt öryggisvísi leiksvæða sem gefinn er út  af umhverfisstofnun þá stenst kannski 20% af útisvæði barnanna okkar skoðun og það finnst okkur með öllu óásættanlegt.  Reglurnar sem eru brotnar við aðbúnað barnanna okkar  t.d. varðandi öryggi og umferð, girðingar o.fl. eru alltof margar. Miklar og góðar leiðbeiningar eru til um það hvernig aðbúnaður á skólalóðum á að vera. Þar gilda öryggissjónarmið og lýðheilsusjónarmið í bland við kennslufræðileg og umhverfisvæn gildi.  Ef skólalóð Brekkubæjarskóla yrði tekin út af fagfólki eins og t.d. hefur verið gert í Reykjavík þá myndi hún fá falleinkunn í öllum flokkum og það þykir okkur afar sorglegt og alls ekki í takt við annars það góða starf sem unnið er í skólanum. Það er í raun ófyrirgefanlegt að bæjarstjórnir síðustu ára hafi látið lóðina nánast afskipta allan þennan tíma en það er líka óásættanlegt að við foreldrar, kjósendur sjálfir, höfum látið bjóða okkur og börnunum upp þetta í allan þennan tíma. Nú brettum við upp ermar og erum til í þessa vinnu með ykkur kæru bæjaryfirvöld!

Í Brekkubæjarskóla hefur samstarf við nemendur og foreldra verið til fyrirmyndar og lýðræðisleg gildi alltaf höfð í forgrunni. Í skólanum er virkt skólaráð sem fundar einu sinni í mánuði og þar sitja tveir fulltrúar foreldra og tveir fulltrúar nemenda og er ávallt kallað eftir þeirra áliti og leitast við að allir fulltrúar í skólaráði tjái sig um málefni skólans. Nemendalýðræði er gríðarlega mikilvægur hluti af innleiðingu barnasáttmálans en þar er Brekkubæjarskóli leiðandi og þeirra starf gefur góðan tón fyrir þá fyrirætlun Akraneskaupstaðar að verða barnvænt sveitafélag.  Í því samhengi má nefna könnun sem var gerð meðal nemenda um það hvernig þeir vilja hafa skólalóðina sína og voru þeirra hugmyndir hafðar til grundvallar í nýrri hönnun á skólalóð, enda voru þær bæði skynsamlegar og lausnamiðaðar og settar fram af miklum þroska og ígrundun þeirra sem þekkja lóðina best.

Fyrir liggur glæsileg og metnaðarfull hugmynd að skólalóð Brekkubæjarskóla. Fyrir liggur að ástand núverandi skólalóðar er óásættanlegt. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum undir höndum eru 69 milljónir samtals áætlaðar í endurbætur á skólalóð og mun verkið skiptast í nokkra verkhluta. Verkhlutarnir verða unnir til skiptis við lóðir grunnskólanna tveggja, þ.e. fyrsti verkhluti Brekkubæjarskóla verður kláraður, svo  fyrsti hluti á lóð Grundaskóla, svo næsti verkhluti við Brekkubæjarskóla og svo Grundaskóli o.s.frv. Líklegt er að verkhlutarnir verði allavega fimm og líklega skarast eingöngu einn verkhluti milli skóla. Miðað við þetta þá ætti síðasta verkhluta við skólalóð Brekkubæjarskóla að ljúka eftir u.þ.b. 10 ár. 10 ár!

Þetta getum við alls ekki sætt okkur við og við viljum ekki heyra að þetta sé bara raunhæf áætlun miðað við aðstæður. Við höfum fengið upplýsingar um það að raunhæft sé að ljúka þessari vinnu á u.þ.b. 12-18 mánuðum ef farið yrði í verkið af fullum krafti. Við krefjumst þess að skólalóð Brekkubæjarskóla verði sett í algjöran forgang hjá bæjaryfirvöldum og farið verði tafarlaust í það að endurskipuleggja þessa framkvæmdaáætlun þannig að ný og endurbætt skólalóð Brekkubæjarskóla verði tilbúin sem allra fyrst.

Útgefin stefna Akranesbæjar (frá 2014) er m.a. að gera bæinn fjölskylduvænan, efla stolt bæjarbúa og gera bæinn aðlaðandi fyrir ferðafólk. Einkunnarorð bæjarins eru „jákvæðni – víðsýni – metnaður.“ Fyrir tveimur árum síðan tók við nýr meirihluti við hér á Akranesi.  Í málefnasamningnum stendur að það eigi að vera „gott að búa á Akranesi frá vöggu til grafar.“ Þar kemur líka fram að meirihlutinn vilji „vinna markvisst að því að skólastarf á Akranesi verði áfram í fremstu röð“ og „auka stuðning og bæta vinnuaðstæður starfsmanna og nemenda í leik- og grunnskólum.“  Fyrir tæpu ári síðan var haldið metnaðarfullt íbúaþing um menntamál þar sem m.a. var málstofa um útikennslu og leitað eftir áliti bæjarbúa um skólamál á svæðinu. Meirihlutinn hefur staðið við hluta af sínum málefnum tengdum skólamálum hér í bæ en nú þarf meira til. Kæru bæjaryfirvöld, þið hafið sýnt vilja ykkar og metnað í orðum en við þurfum að fara að sjá hann í verki. Við foreldrar í Brekkubæjarskóla köllum nú eftir því að bæjaryfirvöld standi við sín metnaðarfullu loforð, sín markmið og sínar skuldbindingar um að vera barnvænt og heilsueflandi samfélag sem starfar eftir lýðræðislegum gildum. Við viljum sjá metnað bæjarfélagsins í skólalóð Brekkubæjarskóla og við viljum að skólalóðir bæjarins fylli okkur íbúana stolti og að þær verði verðugt andlit okkar frábæra bæjarfélags.

Með vinsemd, virðingu og von um gott samstarf,

Stjórn foreldrafélags Brekkubæjarskóla

Fleiri aðsendar greinar