Opið bréf til sveitarstjórnar Dalabyggðar

Kristjón Sigurðsson

Til sveitarstjórnar Dalabyggðar.

Efni: Samskipti við sveitarstjórn um lagnir ljósleiðara í landi Tjaldaness II, framkvæmdaleyfi til skógræktar á Ósi í Saurbæ og fleira.

Hér með tilkynni ég sveitarstjórn að ég hef ákveðið f.h. eigenda að samþykkja lögn ljósleiðara um landareign Tjaldaness II á Tjaldaneshlíð. Ég tek þessa ákvörðun fyrst og fremst vegna hagsmuna minna gömlu og góðu nágranna á Skarðsströnd þar sem ég veit að andstaða mín og þrjóska bitnar annars á þeim en ekki ykkur, rollubændum sem ráðið ferðinni í Dalabyggð um þessar mundir.

Að þessu tilefni finnst mér rétt að fara yfir samskipti mín við ykkur, sveitarsjórn sauðfjárbænda, en annarri eins óstjórn og valdníðslu hef ég aldrei kynnst.

Í júlímánuði 2017 óskaði ég eftir að hefja, í samstarfi við Skógrækt ríkisins, skógrækt á 25 ha landi á jörðinni Ósi í Saurbæ. Sumarið 2018 sótti ég námskeið um verkefnið og landið var tekið út af fulltrúa Skógræktarinnar þann 19. ágúst 2018. Tveimur dögum síðar sendi ég sveitastjóra Dalabyggðar umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á lögbýlum.

Þann 10.08.2018 greiddi ég staðfestingargjald til Dalabyggðar vegna ljósleiðara til Ljósavíkur. Þann 23. okt. 2018 fékk ég í tölvupósti teikningar og blað til samþykktar frá Dalaveitum um lögn ljósleiðara í landi Tjaldaness II. Sama dag hringdi til mín starfsmaður Dalaveitna vegna þessa máls. Ég var staddur erlendis og sagðist ekki samþykkja framkvæmdir fyrr en ég kæmi heim og væri væntanlegur innan viku. Þann 27.10.2018 sendi ég eftirfarandi bréf til starfsmanns Dalaveitna:

„Sæll NN

Ég átt ekki von á því að settar yrðu stórvirkar vinnuvélar um og yfir landareign okkar án þess að samþykki lægi fyrir. Ég sagðist í samtali við þig verða komin heim til landsins í dag sem og varð og þá gæti ég tekið afstöðu til tillögu ykkar, fyrr ekki. Svo renndi ég í Saurbæinn í morgun og sá umgengnina um þá arfavitlausu leið að mínu mati sem þið fóruð. Ég bið þig að stöðva þessar framkvæmdir strax á landi Tjaldaness II og hefja þær ekki aftur fyrr en samþykki okkar liggur skriflega fyrir. Ég mun vafalaust gera frekari athugasemdir við það sem þegar hefur verið framkvæmt á landi Tjaldaness II. Bestu kveðjur KS.“

En framkvæmdir voru ekki stöðvaðar og verkinu lokið án samþykktar okkar, landeigenda.

Í nóvember 2018 fjallaði skipulagsnefnd Dalabyggðar um umsókn mína um skógrækt á Ósi og í framhaldi fékk ég þær fréttir frá nefndarmanni að umsókn mín um skógrækt væri samþykkt. Á vormánuðum 2019 lá fyrir samþykki Skógræktar ríkisins um ræktun skóglendis á Ósi, en nú aðeins 10 ha í stað 25 ha áður og loforð um plöntur um haustið, að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Dalabyggðar. Ráðinn var maður til að girða landið og samningurinn við skógræktina sendur sveitarstjóra til samþykktar þann 29.05.2019. Þá kom í ljós að um misskilning var að ræða varðandi fundinn í nóvember 2018. Þar var samþykkt um framkvæmdir á Ósi á Skógarströnd, EKKI á Ós í Saurbæ. Ég póstlagði þá bréf til oddvita Dalabyggðar þann 15.06.2019 þar sem ég fór yfir stöðu mála frá mínu sjónarhorni og óskaði eftir skriflegu svari sveitastjórnar um framkvæmdaleyfið.

Svarið sendi sveitastjóri í tölvupósti:

„Borist hefur erindi frá eiganda Ós þar sem óskað er eftir svari um hvort skógrækt á jörðinni þurfi framkvæmdaleyfi og hvort sveitarstjórn veit það leyfi.

Þar sem umhverfis- og skipulagsnefnd kom til fundar með byggðarráði var umræða um þennan lið tekin sameiginlega. Vísað er í svæðisskipulag varðandi ákvæði um skógrækt. Byggðarráð telur verkefnið vera framkvæmdaleyfisskylt. Vinnu við þennan þátt skipulags verður flýtt. Samþykkt samhljóða af fulltrúum í byggðarráði í umboði sveitarstjórnar.

Byggðarráð fer með valdheimildir sveitarstjórnar í orlofi hennar. Í afgreiðslunni felst að sú niðurstaða sveitarstjórnar að verkefnið sé framkvæmdaleyfisskylt og að leyfi verði ekki veitt fyrr en niðurstaða vinnu við aðalskipulag varðandi skilgreiningu á landnýtingu liggur fyrir.

Með góðri kveðju.“

Við eftirgrennslan kom fram að sveitastjóri gerði ráð fyrir að afgreiðslu umsóknarinnar yrði lokið á haustmánuðum 2019.

Nú var aftur komin framkvæmdahugur í Dalaveitur og ákveðið að leggja ljósleiðara um Tjaldaneshlíð. Hér mættu í júlí og ágúst 2019, tveir starfsmenn á vegum Dalaveitna til að óska eftir lagnaleyfi á Tjaldaneshlíð og var annar jafnframt einn sveitastjórnarmanna. Ég fór yfir þessi mál með honum, umsókn mína um skógrækt á Ósi og lögn ljósleiðara um Tjaldanes II, og sagðist tilbúinn til að samþykkja lagnaleiðina strax og mín umsókn um skógrækt yrði samþykkt af sveitarstjórn. Ef dráttur yrði á afgreiðslu umsóknar minnar yrði sami dráttur á samþykki mínu um umbeðna lagnaleið um Tjaldaneshlíð. Sveitarstjórnarmaðurinn var samstarfsfús og sagði lítið mál að fá samþykki sveitastjórnar fyrir leyfisveitingu fyrir 10 ha skógrækt á Ósi, enda væru sveitastjórnarmenn sammála um að 10 ha skógrækt væri undanþegin framkvæmdaleyfi.

Sjö mánuðum seinna, þann 6. mars, síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn loksins leyfi fyrir skógrækt á Ósi, – en með fyrirvara, skilyrt:

„Sótt er um skógrækt að Ósi í Saurbæ. Nefndin samþykkir erindið með tilliti til nýrrar flokkunar á landbúnaðarlandi í drögum að endurskoðun á Aðalskipulagi Dalabyggðar, en landið fellur undir flokk II samkvæmt þeirri skilgreiningu. Einnig þarf að liggja fyrir samþykki eigenda aðliggjandi jarða og umsögn Minjastofnunar.“

Þann dag komst ég að því að sveitarstjórnin hefur haft sama háttinn á gagnvart mér og nokkrum fjölda jarðeigenda í Dalabyggð, þ.e. að draga mánuðum saman, og í mínu tilfelli árum saman, að afgreiða umsókn um leyfi fyrir landnýtingu, þar sem hún byggir ekki á búfjárbeit eða öðrum 19. aldar búskaparháttum.

Frá þeim tíma til dagsins í dag hef ég verið af og til í sambandi við Þórð Má skipulagsfulltrúa um skógræktina og Kristján Inga um ljósleiðara að Ljósavík. Einnig hef ég fengið SMS frá Skúla varðandi lagnaleiðina. Í gærdag, 22. maí, hitti ég loks á Kristján Inga á ferð minni í Búðardal, og skrifaði undir samning um ljósleiðaratengingu að Ljósavík. Hann var á hlaupum, en afhenti mér samninginn undirritaðan á ganginum í húsi sveitarstjórnar og spurði hvort ég hefði ekki verið í sambandi við Skúla, sem ekki var, og hvort ekki mætti fara með ljósleiðara um Tjaldaneshlíð. Nú lægi á að leggja strenginn því verktakinn væri að ljúka vinnu á Skarðsströndinni. Ég sagðist ekki vera tilbúinn til að svara því á þessari stund og stað. Mér finnst enda kurteislegra að setjast niður og ræða svona mál, jafnvel hefði ég átt von á afsökunarbeiðni á yfirgangi og tillitsleysi verktaka og stjórnanda Dalaveitna.

Þrátt fyrir ríka áherslu núverandi ríkisstjórnar Íslands á að auka skógrækt sem skilvirka kolefnisjöfnun gegn loftslagsvá, teljið þið sveitastjórnarmenn í Dalabyggð ykkar hlutverk að vinna öllum árum gegn þessháttar starfsemi hér í Dölum, enda hafi þið, að ykkar mati, með góðri aðstoð Minjastofnunar, lögsögu yfir allri landnýtingu sem snýr að skógrækt í Dalabyggð. Og þegar við, sem höfum áhuga á nútímalegri landnýtingu sem m.a. felst í aukinni skógrækt, reynum hver í sínu horni að leita réttar okkar, teflir sveitastjórnin fram lögfræðiáliti gegn hagsmunum okkar.

Í þessu sveitarfélagi, Dalabyggð, þar sem íbúum fækkar stöðugt eins og víðar í sveitum, og sem stendur því greinilega mjög höllum fæti hvað varðar búskap og aðra atvinnumöguleika virðist því miður aðal keppikefli ykkar, ráðamanna héraðsins, að berjast gegn breytingum á 19. aldar búskaparháttum sem við erum tilbúnir til að framkvæma og telja afkomu ykkar helst ógnað af ræktunaráformum okkar skógarbænda.

Hvað gengur ykkur til að setja hömlur á framkvæmdagleði manna eins og Eiríks Magnússonar, Halldórs Jóhannssonar, Sigursteins Hjartarsonar, Jakobs Kristjánssonar og undirritaðs, að ógleymdri Minjavernd í Ólafsdal? Er ykkur rollubændum, sem fáið fjárheldar girðingar um lönd ykkar á kostnað Vegagerðarinnar (og beitið svo lambfénu á vegsvæðið, t.d. í Hvolsdal) kannski illa við girt skógræktarlönd sem ekki notast þá ykkar fé til beitar?

Það eru ekki mörg sveitarfélög á landinu sem skarta jafn mörgum bæjarnöfnum sem vitna um skógi vaxið land og hér í Dalabyggð sem tekur m.a. yfir heilt sveitarfélag, nú sameinað Dalabyggð, Skógarströnd. Þá má að auki nefna Kirkjuskóg, Miðskóg, Skógskot, Stóraskóg, (Þykkvaskóg), Skógsmúla, Lækjarskóg, Hjarðarholt, Vígholtsstaði, Ljárskógar, Glerárskógar, Magnússkógar, Rauðbarðaholt, Skógar, Stórholt og Litlholt og kannski ekki öll talin. Finnst ykkur ekkert til um þessi bæjarnöfn? Samkvæmt ykkar stefnu eru þetta allt rangnefni.

Hvað finnst ykkur um ákvarðanir ríkisvaldsins um þjóðlendur sem margir telja skerðingar á réttindum bænda og landeigenda? Finnst ykkur þær annars eðlis en þær hömlur sem þið beitið okkur um nýtingu okkar landareigna?

Í dag er ekki ljóst hvenær þessari valdníðslu ykkar lýkur, eða hvort henni lýkur en vinnubrögð ykkar í þessum efnum eru ekki til eftirbreytni.

Þar sem ég veit að ákvörðun mín og þrjóska bitnar fyrst og fremst á gömlum og góðum nágrönnum mínum á Skarðströnd, en ekki ykkur rollubændum sem ráðið ferðinni í Dalabyggð um þessar mundir, þá samþykki ég hér með f.h. landeigenda, lögn ljósleiðara um landareign Tjaldaness II á Tjaldaneshlíð.

Ég býst varla við, en vona samt, að í framhaldi þeirrar vinnu hafið þið rænu á að láta smala saman ljósleiðarakeflum sem liggja vítt og breitt með vegum og heimahúsum í Saurbænum og kannski víðar.

Sagt var, að á sínum tíma hafi tveir ungir menn og upprennandi skáld, heimsótt Halldór Kiljan Laxness að Gljúfrasteini. Þegar þeir loksins bjuggust til brottferðar hafi skáldið sagt: ,,Sjáið þið þennan litla birkikvist? Næst þegar þið komið ætla ég að vona að hann verði orðinn að stóru og skuggsælu tré!“

Ég ætla að vona Dalanna vegna að næst, ef þið verðið valin til forystu í héraðinu, að þið verðið þá laus við valdahrokann og hafið tamið ykkur kurteisi og tillitssemi í garð allra sveitunga ykkar og jarðeigenda í Dölum.

 

Ljósavík, 23.05.2020

Kristjón Sigurðsson