Opið bréf til ráðherra Menningarmála

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Á laugardaginn kemur, 13. ágúst, verður Sturluhátíð haldin að Staðarhóli og Tjarnarlundi í Saurbæ Dalabyggð.

Um nokkurt skeið hefur félagsskapur sem kallast Sturlufélagið, unnið að því að koma upp upplýsingaskiltum um sögu Sturlu Þórðarsonar á Staðarhóli. Saga Sturlu Þórðarsonar á sannarlega erindi við nútímafólk, eins og jafnan í gegnum ár hundruðin sem liðin eru frá tíð hans hér í Dölum.

Ég hef í nokkur ár látið hugann reika um hvernig og með hvaða hætti væri hægt að gera almenningi, bæði innlendum og erlendum, auðveldara að kynnast sögu okkar, þar með talið sögu Sturlu og einnig annarri mennigarsögu, vítt og breytt um landið.

Nú er lag, segir á góðum stað og nú á það svo sannarlega við, þegar met fjöldi ferðamanna sækir Ísland heim ár eftir ár og mikið er rætt um að finna nýja áningarstaði fyrir ferðamenn. Eitt af því sem við Dalamenn höfum verið að vinna að er hinn gullni söguhringur og samhliða þeirri vinnu er vel við hæfi að samtvinna Sturlusetur og eða menningarsetur um rit og sagnalist okkar Íslendinga, saman við gullna söguhringinn og þar með geta boðið ferða- og fræðimönnum skemmtilega og fróðlegan menningarsögulegan pakka, í Tjarnarlundi og að Staðarhóli.

En svona verkefni kostar peninga og þeirra þarf að afla. Stjórnmálamenn og ráðherrar, keppast við að tala um mikilvægi frekari uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu og virðast því miður mest huga að lagningu göngustíga og byggja upp almenningssalerni við og í námunda við nátttúruperlur, meðan menningartengd verkefni, sem oft eru dýr, eru frekar látin fá aurana ef einhverjir falla til.

Metnaður okkar Íslendinga í menningartengdri ferðaþjónustu er mikill og því er líka mikilvægt að stjórnvöld, og þeir sem með fjárveitingavaldið fara, hugi vel að því að stuðla að uppbyggingu slíkra verkefna og jafnvel hvetji fjárfesta, með skattalegum hvötum, til að fjárfesta í uppbyggingu á sögu og menningartengdum ferðamannastöðum.

Ágæti ráðherra. Þetta er mitt fyrsta bréf til þín, þar sem ég mun reyna að ná eyrum þínum til að kynna fyrir þér mikilvægi þess að farið verði í stórfelda uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu sem víðast á Íslandi.

Sturlufélagið er lítið félag um stórt mál, menningarsögu okkar Íslendinga og þessi litla hátíð er eitt af þeim skrefum sem félagið stígur nú til að vinna að kynningu á þessu verkefni og sannarlega vonumst við til að sem flestir mæti og njóti dagsins í Dölum.

Við erum sögu- og sagna þjóð. Sýnum það og gerum það vel.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Höf. er áhugamaður um menningarsögu.