
Opið bréf til oddvita framboða til sveitarstjórnarkosninga 2022 í Borgarbyggð
Þorsteinn Máni
Auglýst er eftir stefnu framboða í Borgarbyggð varðandi skipulagsmál í Brákarey
Árið 2014 voru gerðar breytingar á aðalskipulagi Borgarbyggðar fyrir tímabilið 2010-2022 varðandi Brákarey. Breytingar þær fólu meðal annars í sér, að fallið var frá íbúðabyggð í eynni, sem ákveðið hafði verið með breytingu á skipulaginu árið 2009.
Með breytingunni á aðalskipulaginu í Brákarey, sem tók gildi árið 2014, var staðfest að nýta ætti eyna að meginhluta undir iðnaðar- og þjónustustarfsemi. Í greinargerð með skipulaginu segir um nýtingu Brákarbraut 25-27, lóða og mannvirkja, sem sveitarfélagið hefur á annan áratug leigt félagasamtökum og einstaklingum:
„…verður gert ráð fyrir léttum iðnaði, tómstundastarfsemi, verslun og þjónustu við ferðamenn, matvælaframleiðslu, þjónustu við smábátahöfn og frumkvöðlastarfsemi. Gert er ráð fyrir að minnka byggingarmagn á reitnum með niðurrifi ákveðinnar byggingar sökum lélegs ástands.“
Í skipulagslögum segir meðal annars: „Þegar að loknum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið.“
Hyggst framboðið sem þú ert í forystu fyrir leggja til í sveitarstjórn, að gildandi aðalskipulagi fyrir Brákarey verði breytt, og ef svo kynni vera, hvaða breytingar vill framboðið gera á nýtingu lands og lóða í Brákarey frá núgildandi skipulagi, og sérstaklega varðandi lóðirnar Brákarbraut 25 og 27, sem nú afmarkast af lóð stórgripasláturhúss, skolpdælustöðvar og vörugeymslu til nota undir vörur tengdar verktakastarfsemi, s.s. í tjörulögn, hafnargerð og sprengingum?
Er hér með skorað á frambjóðendur til sveitarstjórnar í Borgarbyggð 2022-2026 að upplýsa um afstöðu sinna framboða til skipulagsmála í Borgarbyggð.
Þorsteinn Máni