Opið bréf til fráfarandi sveitarstjórnar Dalabyggðar

Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í frétt á heimasíðu Dalabyggðar 17. maí sl. er upplýst að á 161. fundi sveitarstjórnar sem halda á þann 24. maí nk. verði til umfjöllunar erindi Arnarlóns ehf. um breytingar varðandi kaupin á Laugum og Sælingsdalstungu.

Það kemur mjög á óvart að sveitarstjórn skuli ætla að taka málið til afgreiðslu því að á fundi sveitarstjórnar 17. apríl sl. var samþykkt í einu hljóði að slíta viðræðum við Arnarlón ehf. Um nýtt mál er að ræða miðað við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar. Ég hvet sveitarstjórn til að fresta afgreiðslu þessa máls og eftirláta nýrri sveitarstjórn að taka við boltanum enda verður kosin ný sveitarstjórn 26. maí nk., tveimur dögum eftir 161. fund fráfarandi sveitarstjórnar.

Sælingsdalstunga er lögbýli og bújörð, því gilda jarðalög nr. 81/2004 og ábúðarlög nr. 80/2004 um jörðina. Núverandi leigjendur hafa leigt jörðina frá árinu 2009. Hefur þeim verið boðin forkaupsréttur eins og umrædd lög kveða á um og er það til skjalfest?

Á hvaða forsendum er hægt að veita Arnarlóni ehf. forkaupsrétt að hluta Sælingsdalstungu á föstu verði líkt og tillagan sem verður til umfjöllunar 24. maí kveður á um?

Hefur sveitarstjórn boðið Ríkissjóði Íslands forkaupsrétt á heitavatnsréttindum á jörðinni Laugum?  Í auðlindalögum nr. 57/1998, 12. gr., 2. mgr. segir: „Um sölu jarða, er jarðhitaréttindi fylgja, fer eftir ákvæðum jarðalaga, þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum eða við sölu jarðar frá sveitarfélagi.“ Hefur þetta verið gert og er það til skjalfest?

Í leigusamning frá 15. maí 1994 um leigu lands undir íbúðarhúsið Laugafell segir í 9. gr.: „Komi til sölu á þessum eignum leigutaka á leigusali forkaupsrétt að þeim.“ Hefur leigusala – hinum eiganda jarðarinna Laugar verið boðinn sá forkaupsréttur? Er það til skjalfest?

Í bréfi til sveitarstjórnar 16. apríl sl. frá Jóni Agli Jóhannssyni er spurt hvort hafi verið kannað hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvaða áhrif seljendalán líkt og Dalabyggð ætlar að veita hefur á framlög úr sjóðnum. Í nýsamþykktum ársreikningi Dalabyggðar kemur fram að tæp 40% af tekjum Dalabyggðar árið 2017 fyrir A-hluta sveitarfélagsins kemur frá Jöfnunarsjóði. Í umræddu bréfi Jóns Egils er minnst á að árið 2007 fékk Dalabyggð ákúrur frá Jöfnunarsjóði fyrir að ætla að veita bílastyrk til starfsmanna á Silfurtúni. Er til skjalfest álit Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á áhrifum seljendaláns á tekjur Dalabyggðar frá Jöfnunarsjóði?

Verði af þessari sölu hjá sveitarstjórn, tveimur dögum fyrir kjördag þá spyr ég einnig hvernig verði staðið að gerð kaupsamnings? Ætlar sveitarstjórn að afsala sér eignunum áður en lokagreiðsla seljendaláns á öðrum veðrétti fæst? Gerir sveitarstjórn sé grein fyrir að þá gætu þeir fjármunir tapast? Ef eign er afsalað hefur sveitarstjórn ekkert um það að segja hversu mikið eignirnar verða veðsettar af kaupanda.

Ég minni fráfarandi sveitarstjórn á að Arnarlón ehf. óskaði ítrekað eftir framlengingu á fyrirvörum við kauptilboðið sem félagið féll svo frá og gat ekki staðið við. Viðræðum var slitið 17. apríl sl. af hálfu sveitarstjórnar og fyrir þeim fundi lá tölvupóstur frá lögfræðingi á vegum Dalabyggðar þar sem segir að; „hvorki Arnarlón né fasteignasalinn [geti] átt nokkra kröfu á hendur sveitarfélaginu vegna þess að það samþykki ekki 3. eða 4. veðrétt.“.

Síðan er spurning hvort það sé skynsamlegt að eiga viðskipti við aðila sem fyrstu viðbrögð við mótlæti eru að hóta málsókn. Eru þá auknar líkur á áframhaldandi málsóknum viðkomandi aðila vegna alls er tengist kaupunum?

Hver er kaupandinn? Erindið kemur frá Arnarlóni ehf., en skv. upplýsingum í fyrirtækjaskrá RSK eru til félögin Laugar Fasteignir ehf. kt: 480218-2130 og Sælingsdalstunga ehf. kt: 560318-0300. Í forsvari fyrir hvort félag er sami aðili og er í forsvari fyrir Arnarlón ehf. Hefur sveitarstjórn óskað eftir gögnum úr Fyrirtækjaskrá um þessi félög og lagt fyrir sveitarstjórnarfund? Eru þetta ekki gögn sem sveitarstjórnarmenn þurfa að kynna sér áður en þeir taka afstöðu til málanna?

Þá spyr ég sveitarstjórn af hverju hún hafi aldrei vísað erindi til menningar- og ferðamálanefndar, sem fer með málefni Byggðasafns Dalamanna og upplýst nefndina um að til standi að leigja núverandi aðstöðu safnsins á 3 milljónir árlega næstu 10 árin af kaupanda. Á sama tíma fór fram mikil umræða í fræðslunefnd um íþróttamannvirki og kennslu íþrótta. Hvað veldur þessari málsmeðferð hjá sveitarstjórn varðandi fastanefndir sínar?

Ég hvet sveitarstjórn til að fresta afgreiðslu málsins og láta þá á það reyna fyrir dómstólum ef Arnarlón ehf. telur brotið á sér. Minni aftur á að um nýtt mál er að ræða þar sem sveitarstjórn samþykkti í einu hljóði að slíta viðræðum við Arnarlón ehf. 17. apríl sl.

Er það takmark fráfarandi sveitarstjórnar að selja eignir sama hvað það kostar og í því hugarástandi að lítið er um upplýsta skynsemi.

 

Ásgarði 21. maí 2018

Eyjólfur Ingvi Bjarnason.

Höf. er bóndi í Ásgarði og fyrsti varamaður í fráfarandi sveitarstjórn.