Opið bréf til eigenda Sorpurðunar Vesturlands

Jón Axel Jónsson

Þeim aðilum sem falin hefur verið stjórn Sorpurðunar Vesturlands hefur því miður ekki tekist að reka urðunarstað félagsins í Fíflholtum á Mýrum af framsýni og metnaði að leiðarljósi.  Það þarf því ekki að koma á óvart að byggðarráð Borgarbyggðar hafi í júlí lagst gegn aukinni urðun í Fíflholtum í umsögn sinni um frummatsskýrslu Sorpurðunar Vesturlands.

Það sem kom hinsvegar á óvart voru viðbrögð og yfirlýsingar sem komu fram á stjórnarfundi hjá Sorpurðun Vesturlands í framhaldinu og Skessuhorn greindi frá 26. ágúst.  Svo langt var gengið að byggðarráð Borgarbyggðar var sakað um hreppapólitík.  Viðbrögðin lýsa væntanlega best vanþekkingu viðkomandi á starfseminni í Fíflholtum og þeim skaða sem hún veldur nágrönnum sínum, umhverfinu, og lífríkinu á svæðinu.  Niðurstaða fundarins var að kalla eigendur félagsins saman þar sem væntanlega á að sannfæra Borgarbyggð um að samþykkja aukna urðun í Fíflholtum.

Óheft fok úrgangs, ágangur vargfugla og refa, ásamt ólykt hafa verið viðvarandi vandamál í Fíflholtum og virðast síst fara minnkandi.  Í stað þess að bregðast við kvörtunum með markvissum og vel ígrunduðum aðgerðum til úrbóta, þá hefur frekar verið brugðist við með ýmsum afsökunum.  Stjórnendur hafa ítrekað borið því við að hvasst sé í Fíflholtum og því fjúki úrgangur, en ein áhugaverðasta afsökunin kom þó fram í fyrravor þegar mófuglunum var kennt um að sækja í svæðið og róta því upp.  Ekki kom fram hvort lóan var þar helsti sökudólgurinn, en hvorki hún né aðrir mófuglar eru taldir líklegir til að róta mikið í jarðvegi eða rusli í ætisleit það best er vitað.

Meðfylgjandi mynd sýnir ástandið eins og það blasti við vegfarendum um Snæfellsnesveg í maí 2020, en á myndinni má sjá mikið magn úrgangs á og við veggirðinguna, þó aðallega plasti af fjölbreyttum uppruna.  Enginn ætti að efast um að svona ástand er með öllu óviðunandi og gildir þá einu hvort reynt sé að tína þann úrgang sem stöðvast næst urðunarstaðnum.  Talsverður hluti þess úrgangs sem fýkur finnst ekki og veldur langvarandi mengun á stóru svæði.

Úrgangur, aðallega plast, á og við veggirðingu meðfram Snæfellsnesvegi í maí 2020. Fok á plasti frá urðunarstöðum er óásættanlegt.

Ágangur vargfugla, einkum hrafna og máva hefur einnig haldið áfram og skipta fuglarnir jafnan hundruðum enda væntanlega nægt æti fyrir alla.  Ágangur refa í nágrenni Fíflholta hefur einnig verið mikill.

Árið 2008, síðasta árið sem Borgarbyggð sá sér fært að greiða grenjaskyttum fyrir alla þá refi sem þær veiddu í sveitarfélaginu, þá veiddust 118 refir í hinum gamla Hraunhrepp og voru það 24 prósent allra refa sem veiddust í Borgarbyggð það árið.  Því má ljóst vera að ágangur refa í nágrenni Fíflholta var mikill og má fastlega gera ráð fyrir að hann sé það enn þótt opinberar tölur liggi ekki fyrir.  Vargfuglar og refir valda ekki bara bændum á svæðinu tjóni, heldur hafa þeir mikil áhrif á lífríkið og þá sérstaklega á varptíma.

Hér með er skorað á eigendur Sorpurðunar Vesturlands að marka sér skýra stefnu varðandi úrgang og endurvinnslu hans þegar henni verður viðkomið.  Mikilvægt er að hvetja íbúa og fyrirtæki svæðisins til að flokka úrgang og gera öllum það kleyft með þriggja tunnu kerfi.  Markviss stefna og aðgerðir í þessum málum munu gera nýtt starfsleyfi fyrir Sorpurðun Vesturlands óþarft eins og kemur nú þegar fram í frummatsskýrslu félagsins þar sem reiknað er með að urðun á næsta ári verði innan við 11.000 tonn sem rúmast vel innan núverandi starfsleyfis sem gerir ráð fyrir urðun á allt að 15.000 tonnum á ári.

Kæru eigendur, horfið til framtíðar og sjáið til þess að Sorpurðun Vesturlands verði rekin með sem minnstum áhrifum á umhverfið og í sem bestri sátt við nágranna sína.  Það er hægt að gera mun betur en gert hefur verið til þessa.

 

Jón Axel Jónsson