Opið bréf til bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar

Starfsfólk Fjöliðjunnar á Akranesi

Eftirfarandi vangaveltur við punkta bæjarstjórnar eru frá leiðbeinendum Fjöliðjunnar með meðbyr frá stjórnendum Fjöliðjunnar. Við óskum eftir svari sem fyrst þar sem útskýrt er nánar hvað við er átt, með rökstuðningi á hvernig sú ákvörðun er til hagsbóta fyrir starfsmenn Fjöliðjunnar.

Á kynningu ykkar á nýrri „Samfélagsmiðstöð“ var farið yfir þrjú atriði sem ákvörðun þessi byggði á og væri hagkvæmur fyrir þær þrjár starfsstöðvar sem ætlað er að verði þar.

  1. ,,Með Samfélagsmiðstöð er hægt að byggja upp þjónustu og tækifæri til frístundastarfs fyrir alla íbúa, skapa aðstöðu til þátttöku til atvinnu, náms, endurhæfingar og til fræðslu og frístunda. Fjölbreyttur starfsmannahópur með ýmsa sérþekkingu getur eflt þekkingarflæði sín á milli.“

„Samfélagsmiðstöð“ getur hljómað vel. Starfsmenn Fjöliðjunnar eiga hins vegar annað og betra skilið en að vera stíað í sundur og stúkað í hólf með öðrum, bara til að gefa þessu öllu gott nafn.

Þarna er verið að slíta okkar hóp í sundur til að sameina með öðrum hópum sem eiga ekki endilega samleið með starfsmönnum Fjöliðjunnar. Starfsmannahópur Fjöliðjunnar er fjölbreyttur og margir hverjir mjög viðkvæmir og geta verið berskjaldaðir innan um aðra hópa.

Samfélagið og við sjálf gerum kröfur og óskum eftir því að fólk með fötlun vinni á almennum vinnumarkaði. Þetta samsvarar eldri hugmyndafræði um normalíseringu þar sem að hugsunin er sú að fatlað fólk eigi að aðlaga sig að samfélaginu. Nú á dögum tölum við um sjálfsákvörðunarrétt fólks á eigin lífi. Í fyrstu skýrslu Íslands, frá árinu 2020, um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir:

„Litið er á hugtakið fötlun frá félagslegu sjónarhorni. Í því felst að fyrir því séu einnig félagslegar ástæður að fólk með skerta færni eigi þess ekki kost að taka fullan þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Hugtakið lýtur þannig að tengslum einstaklings með skerta færni og umhverfis hans. Með því er athygli beint að þeim félags- og umhverfisþáttum sem takmarka jafnræði, til dæmis tjáskiptum og aðgangi að upplýsingum og menntun. Ráðstafanir til að auka jafnræði skulu því snúa bæði að því að styrkja forsendur einstaklingsins til þátttöku og laga aðgengi að samfélaginu að þörfum hans. Með því móti verði áfram dregið úr aðgreiningu og félagslegri einangrun fatlaðs fólks.“

Það er því samfélagið sem fatlar fólk með því að setja upp hindranir sem hamla því að taka þátt út frá þeirra styrkleika og getu.

Margir úr starfsmannahópi Fjöliðjunnar munu alltaf þurfa öruggt vinnuumhverfi. Það er skylda samfélagsins að gera þeim kleift að vaxa og vera þau sjálf. „Samfélagsmiðstöð,“ fyrir fjölda fólks sem ætlað er hólf í fjölbýli, samræmist ekki við þeirra þörf á öruggu vinnuumhverfi.

„Fjölbreyttur starfsmannahópur með ýmsa sérþekkingu getur eflt þekkingarflæði sín á milli.“ Okkur langar að vita hvað þið eigið við með þekkingarflæði? Og hvaða þekking er það sem þarf að flæði á milli Fjöliðjunnar og annarra starfsstöðva, og þarfnast þess að vera í sama húsi?

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að leiðbeinendur Fjöliðjunnar gangi í störf annarra deilda og hvernig getur það verið hagur starfsfólks Fjöliðjunnar?

Hvernig er ykkar sýn á að þessi hugmynd hlúi betur að starfsmönnum Fjöliðjunnar?

  1. „Á forsendum hugmyndafræði um samfélag án aðgreiningar og í ljósi þess að starfsemi Akraneskaupstaðar sem nú dreifist á marga staði fær húsnæði mun fyrr, jafnvel mörgum árum fyrr. Í dag er lítið flæði fagþekkingar á milli staða né samnýting á rýmum. Hver (Starfsendurhæfing), Frístundastarfið og Þorpið fá húsnæði mun fyrr sem annars yrði að bíða í mörg ár. Seinkun verður frá fyrri hugmyndum á uppbyggingu fyrir Fjöliðjuna en markmiðið er að búa til öflugra húsnæði sem mun hlúa betur að starfsmönnum og notendum nýja húsnæðisins Fjöliðjunnar, HVER og félagsmiðstöðvar og annars frístundastarfs. Jafnframt möguleiki að skapa glæsilega aðstöðu í garði sem er við Dalbraut 8 þar sem verður gróðurhús og matjurtaræktun svo eitthvað sé nefnt sem nýtist í fjölbreyttu starfi miðstöðvarinnar.“

Fyrir Fjöliðjuna mun þetta seinka því að framtíðarhúsnæði verði tilbúið en við höfum nú þegar beðið í tæp þrjú ár og erum nú samt fyrir aftan byrjunarreit!

Hvaðan kemur sú sýn að þessi lausn sé betri en fyrri hugmynd sem hefur verið í undirbúningi síðastliðin ár í samstarfi við fólk sem vinnur og stjórnar Fjöliðjunni? Hvernig funduð þið það út?

Hvers vegna er það neikvætt að þessar starfsstöðvar dreifist um bæjarfélagið? Hvað réttlætir það að þessar þrjár starfsstöðvar þurfi að vera undir sama þaki? Hvers vegna ekki Þorpið, bókasafnið og sundlaugin? Eða HVER, bæjarskrifstofan og bókasafnið?  Með þessu fyrirkomulagi er verið að rífa okkar starfsemi í sundur til að púsla saman með öðrum. Við höfum átt í góðu samstarfi við Þorpið og HVER undanfarin ár án þess að vera undir sama þaki, af hverju þarf að breyta því núna?

Fyrir marga starfsmenn er gróðurhúsið mikilvægur hvíldarstaður þar sem þeir geta ýmist stundað ræktun eða nýtt rýmið til slökunar, átt gæðatíma í spjalli og fengið sér kaffisopa. Þarna vinnum við með Eden hugmyndafræðina þar sem áherslan er á samveru og félagsskap, að njóta í núvitund, verkefnið sjálft er ekki aðalatriðið sem unnið er út frá. Heldur geta og áhugi einstaklingana í samstarfi við leiðbeinendur þar sem allir finna sig og hafa hlutverk.

Við viljum hafa garðinn opinn fyrir samfélagið. Það verður þó að vera í samræmi við aðstæður okkar starfsmanna, að deila garðinum með öðrum hópum er almennt ekki mögulegt án þess að tapa miklum gæðum í starfi.

Í fyrstu var gert ráð fyrir að Fjöliðjan yrði með gróðurhúsið á lóðinni að Dalbraut 10 með aðgang að Orkuveitugarðinum að Dalbraut 8. Þetta hefur verið minnkað niður í einungis garðinn á Dalbraut 8. Ef við ættum að nýta lóðina þar til matjurtaræktunar og annarrar ræktunar þá þyrfti að fella flest trén. Það yrði því ekki lengur fallegur trjágarður heldur lóð fyrir gróðurhús.

Hvernig er ykkar sýn á að þessi hugmynd hlúi betur að starfsmönnum Fjöliðjunnar?

  1. „Fjárhagsgreining leiðir til þess að þessi valkostur er hagkvæmari til lengri tíma m.t.t. uppbyggingar. Fjárfesting er meiri til að byrja með en tekjur af auknu byggingamagni á Dalbrautarreit eru meiri af þessum valkost fyrir Akranes. Jafnframt er tækifæri til að því að veita betri þjónustu við íbúa sem verður hagkvæmari sem m.a. felst í samnýtingu rýma og nýtingu á fagfólki.“

Skoðum orðræðuna „samfélag án aðgreiningar“. Okkar skilningur á orðræðunni er úr samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar segir m.a. í 10. grein: „Aðildarríkin árétta að sérhver mannvera eigi meðfæddan rétt til lífs og skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið þess á virkan hátt til jafns við aðra“.  Okkar skilningur er ekki að deila húsnæði með börnum og fólki í endurhæfingu. Hvernig er það samfélag án aðgreiningar? Hvers vegna ekki að deila byggingu með bæjarskrifstofu bæjarins? Þar værum við brautryðjendur í þessum málum sem sýndi framsækni Akraness. Bygging með fötluðu fólki, börnum og fólki í endurhæfingu er ekki brautryðjandi á íslenskum og evrópskum vettvangi heldur pláss- og peningasparnaður.

Hvernig skilgreinið þið samfélag án aðgreiningar?

Hvernig á þessi samnýting rýma að vera? Hvaða rými á að nota saman og hvernig sjáið þið hag í því fyrir starfsfólk Fjöliðjunnar?

Aftur komið þið inn á samnýtingu starfsfólks. Hvernig sjáið þið samnýtingu okkar fagfólks innan þessarar samfélagsmiðstöðvar?

Komið er inn á að íbúar Akraness geti nýtt þessi rými líka, hvernig nýting er það?

Það ætti ekki að þurfa að taka það fram enn á ný en í ljósi stöðunnar í dag virðumst við ekki geta sagt hlutina nógu oft. Vinna með fólki sem þarfnast aðstoðar og leiðsagnar er vandmeðfarin sem verður að sinna af alúð og trúmennsku. Því viljum við árétta enn og aftur að Fjöliðjan er viðkvæmur vinnustaður og er samnýting rýma og fagfólks ekki hagkvæm fyrir starfsemi Fjöliðjunnar.

Eflaust er að fjárhagslega sé best að hafa starfsemi Fjöliðjunnar á fyrstu hæð í blokk vegna þess að íbúðir á fyrstu hæð eru ekki jafn auðseljanlegar og því kjörið að setja okkur þangað. Þannig að í raun snýst þetta aldrei um fólk heldur peninga?

Hvernig er ykkar sýn á að þessi hugmynd hlúi betur að starfsmönnum Fjöliðjunnar?

Viðauki

Akranes er eftirsóttur bær í mikilli sókn. Alls staðar eru framkvæmdir og rými fyrir íbúðarhúsnæði og alls kyns atvinnurekstur er að verða til. Þurfum við virkilega að deila húsnæði með öðrum og starfa undir fjölbýlishúsi?

Móttaka einnota umbúða er órjúfanlegur hluti af heildarmynd Fjöliðjunnar og mikilvæg lang flestu okkar fólki, þangað sækja þau daglega til að fylgjast með gangi mála og taka þátt í þeirri vinnu sem fer þar fram.

Í okkar hugmyndafræði reynum við að finna og nota styrk hvers og eins til vinnu, við höfum þessi tækifæri sem flöskumóttaka, Búkolla, gróðurhús og önnur verkefni eru daglega til staðar fyrir starfsmenn Fjöliðjunnar, það er eitthvað sem við á Akranesi getum verið stolt af.

Ósk okkar hefur alltaf verið að fá Búkollu til okkar og fundum við vilja ykkar fyrir því. Við finnum þann vilja ekki í dag og er eins og það hafi aldrei staðið til. Búkolla þarf og ætti að vera við hlið Fjöliðjunnar því hún á að vera í boði fyrir alla starfsmennina. Við viljum hafa flæði þar á milli rétt eins og með flöskumóttökuna og geta þannig boðið upp á virka þátttöku daglega til styttri eða lengra tíma, jafnvel að geta kíkt þangað með starfsmönnum án mikilla fyrirhafnar og/eða fólksflutningum á einkabílum eða þeim bílskrjóð sem við höfum til afnota.  Starfsmenn ná ekki að nýta þessi tækifæri eins og við myndum vilja vegna staðsetningar Búkollu.

Fjöliðjan sinnir fleiri verkefnum sem ekki verða tæmandi talin í þessu bréfi en viljum við þó nefna litlu góðu rafsteypivélarnar og aðrar vélar, eiga þær líka að vera á neðstu hæð í blokk?

Þessi atvinnutækifæri eru sérstaða í rekstri Fjöliðjunnar sem starfsmenn geta sinnt. Þegar þessar stöðvar eru teknar í sundur sjáum við jafnvel fram á að þessi tækifæri, sem við höfum byggt upp, fjari frá okkur og yfir til annarra. Er það kannski eitthvað sem bæjarstjórn er að vinna að í skjóli nætur?

Það er okkur mikilvægt að fá til okkar viðskiptavini flöskumóttökunnar og Búkollu, þannig tengjumst við samfélaginu á uppbyggilegan og félagslegan hátt. Það er dæmi um náttúrulegt samfélag án aðgreiningar, en ekki að vera á neðstu hæð í blokk þar sem fólk getur komið að kíkja á fatlað fólk undir nafninu „samfélagsmiðstöð.“

Látum hér fylgja með brot úr Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem tók gildi hér á landi árið 2008. Þennan samning erum við stolt af að hafa til hliðsjónar í okkar starfi í Fjöliðjunni:

  1. gr. Almennar meginreglur.

Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:

a)    virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga,

b)    bann við mismunun,

c)    full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar,

d)    virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni,

e)    jöfn tækifæri,

f)     aðgengi,

g)    jafnrétti á milli karla og kvenna,

h)   virðing fyrir getu fatlaðra barna sem þróast og breytist og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína,

  1. gr. Vinna og starf.

1.    Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, meðal annars fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars:

b)    að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, meðal annars jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað, þar með talið vernd gegn áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála,

Við sjáum ekki starfsfólk Fjöliðjunnar fyrir okkur njóta sín í vinnuumhverfi „samfélagsmiðstöðvar“ né að faglegt starf með þeirra hagsmuni að leiðarljósi fái notið sín. Við getum heldur ekki séð hvers hagur það er að skilja Fjöliðjuna í tvennt og skerða þannig atvinnutækifæri og félagsleg samskipti starfsfólksins.

Þessi hugmynd er að okkar mati eins fáránleg og að detta í hug að apótek ætti að sameinast t.d. dekkjaverkstæði. Við teljum að erfitt verði ef ekki bara ógjörningur að vinna við þessar aðstæður sem eru algjörlega á skjön við þá vinnu sem við höfum tileinkað okkur til margra ára.

Vaknið, sýnið kjark og vinnið fyrir fólkið sem á ykkur treysti.

Með ósk um upplýsandi viðbrögð.

Akranes 20.01.2022.

Erla Björk Berndsen Pálmadóttir

Guðrún Fanney Helgadóttir

Hafdís Arinbjörnsdóttir

Ingibjörg Freyja Gunnarsdóttir

Kathrin Jolanta Schymura

Kolbrún Benediktsdóttir

Kristín Halldórsdóttir

María Lúísa Kristjánsdóttir

Sigurrós Ingigerðardóttir

Svana Guðmundsdóttir

Þórdís Ingibjartsdóttir