Opið bréf til bæjarstjórnar á Akranesi

Óskar Guðjónsson

Ég undirritaður rita þetta bréf vegna þess að mér finnst ráðamenn bæjarins ekki sinna málefnum um flokkun á sorpi nægilega vel.

Í flestum sveitarfélögum í kringum okkur er fyrir löngu hafin flokkun og er það til sóma. Í okkar sveitarfélagi virðist bókstaflega enginn áhugi á slíku, bara láta reka á reiðanum og vona að bæjarbúar taki málið föstum tökum. Ég veit að margir eru farnir að flokka heima hjá sér en er það til einhvers ef þetta fer allt í sama hauginn? Ég hef átt samtal við fulltrúa sveitarfélagsins sem hafa með þessi mál að gera. Þau svör sem ég hef fengið eru á þá lund að ekki sé búið að taka þetta mál upp. Eftir hverju eruð þið að bíða?

Ég bý í fjölbýlishúsi og stjórn húsfélagsins bíður eftir því hvernig hún eigi að bregðast við, því ég veit að í sumum fjölbýlishúsum eru sorprennur sem í dag eru ekki löglegar þannig að stjórnir þurfa að fá einhverja vitneskju. Það getur verið kostnaðarsamt að gera breytingar á flokkun sorps í fjölbýlishúsum t.d. ef á að fara út í svokallaða djúpgáma sem að mínu áliti væri besti kostur ef aðstæður leyfa. Þá er engin lykt eða sjónmengun en sá kostnaður gæti verið fyrir meðalstórt fjölbýli allt að átta miljónum króna. Ég hef heyrt að sum bæjarfélög hafi veitt styrk til þeirra húsfélaga sem þurfa að gera verulegar breytingar hjá sér á sorpmálum þannig að sómi sé að.

Ég skora því á bæjarstjórn að hysja upp um sig buxurnar og gera gangskör í að koma sorpmálunum í lag, þannig að við verðum ekki eftirbátar annarra sveitarfélaga sem hafa þegar komið sínum málum í lag fyrir löngu.

Með von um skjót viðbrögð.

 

Óskar Guðjónsson

Höf. er íbúi að Jaðarsbraut 25.