
Öll börn eru jöfn
Hildur Aðalbjörg og Signý skrifa
Zontaklúbburinn Ugla efnir til teiknisamkeppni meðal barna og unglinga á aldrinum 6 – 16 ára. Yfirskriftin er tekin úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Í 2. grein sáttmálans segir: „Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.“ Teiknisamkeppni klúbbsins byggir á þessari grein.
Zontaklúbburinn Ugla hefur í gegnum tíðina veitt styrki til góðra verkefna sem styðja við konur og þar af leiðandi börn, bæði hér heima og erlendis. Meðal styrkhafa má nefna Stígamót, Konukot, Mæðrastyrksnefnd og Kraftasjóð Kvennaathvarfsins. Einnig má nefna að frá upphafi hefur klúbburinn veitt konum hvatningarverðlaun til frekara náms að loknu stúdentspróf frá Menntaskóla Borgarfjarðar, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Fjölbrautaskóla Snæfellinga.
Þau alþjóðlegu markmið sem Zontaklúbbar í heiminum öllum vinna nú að eru:
- Að vinna að jafnrétti kynjanna
- Að binda enda á kynbundið ofbeldi
- Að enda barnabrúðkaup og þvinguð hjónabönd
- Að efla aðgengi að menntun
Uglukonur selja kerti, kort, fjölnota poka og fleira sem þær hanna og gera að stórum hluta sjálfar. Núna langar okkur að skreyta kortin, pokana og kertin með fallegum myndum frá börnum og ungmennum. Klúbburinn mun nota vinningsmyndirnar til að prýða varning sem er seldur til að safna fyrir góðum málefnum sem snerta konur og börn bæði á Íslandi og í öðrum löndum.
Zontaklúbburinn Ugla hvetur alla krakka til að taka þátt í samkeppninni og fá foreldra sína til að hjálpa sér. Veitt verða vegleg verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar.
Það sem þarf að gera til að taka þátt:
- Skoða Barnasáttmálann.
- Hugsa um hvað það þýðir að öll börn séu jöfn.
- Teikna, lita eða mála það sem þér finnst vera mikilvægast í sambandi við að öll börn séu jöfn.
- Myndin þarf að vera á blaði sem er A4 að stærð.
- Merkja myndina með nafni, aldri barns og símanúmeri og eða netfangi foreldra.
- Fara með myndina á bókasafnið á Akranesi eða bókasafnið í Borgarnesi.
- Einnig er hægt að skanna myndina inn og senda á netfangið uglazontaklubbur@gmail.com
- Skiladagur er 21. mars en myndirnar verða sóttar þann 22. mars á bókasöfnin.
- Þann 31. mars verður haft samband við vinningshafa.
Fyrir þá sem vilja vita meira um Zontaklúbbinn Uglu sem hefur starfað á Vesturlandi í 10 ár á þessu ári er bent á heimasíðu klúbbsins https://borgarfjordar.zonta-island.org/
Fyrir hönd stjórnar,
Hildur Aðalbjörg Ingadóttir og Signý Óskarsdóttir.