Ólíðandi vinnubrögð meirihlutans í sveitarstjórn, framsóknarmanna í Borgarbyggð

Guðrún Sigurjónsdóttir

Sjálfsagt hefur það ekki farið framhjá mörgum íbúum sveitarfélagsins að enn hefur verið reitt til höggs gagnvart dreifðari byggðum samfélagsins okkar. Það er frá því að segja að samfélag Varmalandsskóla er slegið yfir vinnubrögðum meirihluta sveitarstjórnar í Borgarbyggð og hafnar alfarið hvernig vegið er að grunnþjónustunni. Grunnskóli Borgarfjarðar verður laskaður gangi vilji meirihluta í sveitarstjórn eftir.

Þann 14. mars síðastliðinn var boðað til fundar með foreldrum barna á Varmalandi og tilkynnt að unglingastigi skólans yrði ekki kennt þar næsta vetur. Sagt að það væri í skoðun að miðstigið færi jafnframt frá Varmalandi en það þyrfti að skoða það frekar og ekkert yrði ákveðið fyrr en í annarri viku í apríl en málið var í vinnslu hjá fræðslunefnd.

Það gerist síðan viku seinna á fundi Byggðarráðs Borgarbyggðar þann 21. mars sl. að ráðið ákvað að ganga fram hjá fræðslunefnd, fagnefndinni sinni, með ákvörðun í málinu enda var nefndin orðin tvístígandi um fagleg rök flutnings miðstigs frá Varmalandi. Þar með var henni skvísað út í horn eins og óþægu olnbogabarni. Byggðarráð með tveimur atkvæðum tók fram fyrir hendurnar á fræðslunefnd sveitarfélagsins og ákvað á þessum fundi að Varmalandsskóli yrði leikskóli og kennsla á yngsta stigi, 1.-4. bekk færi þar fram. Ákvörðunin tekur strax gildi og kemur til framkvæmda næsta haust.

Þessi dagur, 21. mars, var árshátíðardagur á Varmalandi. Áður en árshátíðin hófst kom sendiboði frá Borgarbyggð með þessi tíðindi til starfsfólks skólans og skólastjóri sendi þau til foreldra sem sammæltust um að láta annarlegar hvatir og vanhugsaða ákvörðun byggðaráðs ekki eyðileggja árshátíðardag barnanna og þeim því ekki sögð tíðindin. En þungur skuggi hvíldi yfir þessum degi sem átti að vera hátíðlegur og skemmtilegur.

Á fjölmennum íbúafundi á Varmalandi 4. apríl voru vinnubrögð framsóknarmanna síðan harðlega gagnrýnd. Meirihluta sveitarstjórnar var boðið á fundinn en forseti sveitarstjórnar hafnaði því boði, það væri ekki um neitt að tala því þau vera búin að taka ákvörðun.

Ég geri miklar athugasemdir við málsmeðferð meirihluta í sveitarstjórn, framsóknarmanna. Það er algjörlega fáheyrt að mál sé keyrt í gegn með þessum hætti og mjög veikt að aðeins tvö atkvæði þurfi til.

Ófagleg vinnubrögð

Kosningaloforð Framsóknarmanna í Borgarbyggð var að nýta kjörtímabilið til að skoða skólamál í héraði heildstætt eða eins og segir í stefnu þeirra um fræðslumál fyrir síðustu kosningar: „Framsókn leggur áherslu á að unnið verði að því að gera raunverulega áætlun um framtíðaruppbyggingu og eða endurbætur skólahúsnæðis“. Ekki er óeðlilegt að álykta að því fylgi jafnframt áætlun um skipan skólamála. Ekki er mér kunnugt um að slíkt samtal hafi átt sér stað við íbúa á svæði Grunnskóla Borgarfjarðar.

Ljóst er að loforð um fagleg vinnubrögð varðandi skólamál hafa verið svikin. Meirihluti sveitarstjórnar hefur búið til sína eigin stefnu (sem hvergi má sjá á pappír), þvert á gefin kosningaloforð og svikið þannig kjósendur sína og íbúa sveitarfélagsins. Sárt er að horfa uppá flokk sem er einn í meirihluta og hefur alla burði til að komast vel frá störfum sínum grafa sína eigin gröf með slíkum hætti. Nær hefði verið hjá flokknum að nýta kjörtímabilið til að ræða við foreldra og íbúa á skólasvæði Grunnskóla Borgarfjarðar og móta stefnu sem sátt og sómi hefði verið að.

Ljóst er að Grunnnskóli Borgarfjarðar kemur laskaður út úr þessu verði þetta að raunveruleika. Ólíklegt má telja annað en að þeir nemendur sem eru á skólasvæði Varmalandsskóla fari frekar í Borgarnes en á Kleppjárnsreyki. Fyrir því eru nokkrar ástæður en nefna má að vegalengdir á þessa tvo staði eru svipaðar og leið foreldranna liggur frekar í Borgarnes. Það er því hægara um að stíla Borgarnesferð á sama dag og sækja þarf barnið eftir íþrótta- eða tómstundastarf og minnka þannig akstur.

Hugmyndir meirihlutans sem kynntar voru á íbúafundi 14. mars ganga hins vegar ekki út á það. Skipta á krökkunum eftir búsetu hvort þau fari eftir skólagönguna á Varmalandi í Borgarnes eða á Kleppjárnsreyki, eftir því hvernig Norðuráin rennur skilst mér. Þannig gætum við lent í því að útfrá búsetu verði 5. bekkur klofinn í sundur, kannski fer einn nemandi í Borgarnesi og níu á Kleppjárnsreyki. Svona lagað er ekki í boði. Ef á að færa bekki frá Varmalandi er það alveg skýrt að taka verður tillit til óska íbúanna. Það er ekki í boði að kljúfa bekkinn niður og dreifa í nærliggjandi skóla nema fyrir því sé vilji barns og foreldra. Og í þeim efnum verður að taka tillit til vegalengda og þess tíma sem nemendur þurfa að vera í skólabíl. Enginn þarf að halda því fram að það sé í lagi að barn sé klukkutíma hvora leið í skóla. Trúlegt er að slíkt komi niður á einbeitingu barna, líðan og námsárangri. Flestir fullorðnir gefast upp á slíkum akstri, en hér á að bjóða börnum upp á aukinn akstur fimm daga vikunnar í tíu ár.

Sérstaða Varmalandsskóla

Varmalandsskóli hefur mikla sérstöðu sem felst í því að honum var falið að taka móti straumi flóttabarna sem flutti hingað á skólasvæðið. Starfsfólk skólans hefur unnið ötult starf við að mæta sem best þörfum þessara barna sem mörg hver hafa þurft að upplifa hluti sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Þau eru mörg hver með hluta af fjölskyldu sinni, hinn hlutinn býr í Úkraínu. Enginn þarf að velkjast í vafa um að þetta sé þeim erfitt. Að komast inn í skóla þar sem er vel haldið utan um þau og þeim hjálpað af stað að stíga sín fyrstu skref í nýju landi er ómetanlegt. Til þess hentar skóli eins og Varmalandsskóli vel og þetta verkefni hefur starfsfólk skólans leyst með sóma. Það starf er nú í uppnámi, reynsla kennara að litlu höfð og kvíði og vanlíðan hellist yfir börn og foreldra.

Það hlýtur að teljast fátítt að slík aðför sé gerð að skóla sem hefur nánast tvöfaldað stærð sína á tveimur árum. Skóli með um 60 börn og rúmlega 30 börn á leikskólaaldri. Ef allt gengur eftir byrja 16 börn í fyrsta bekk í haust. Fyrirætlan meirihlutans er að keyra mið- og unglingastig strax í haust í gámana sem eiga að hýsa skólabörnin í nærliggjandi skólum næsta skólaár – í alvörunni? Er velferð barnanna höfð að leiðarljósi eða eru einhverjar aðrar hvatir að baki?

Úr vörn í sókn

Það gerist lítið í leik þar sem vörn er eina sóknin. Það var einkennilegt að sjá hvað sveitarstjórn var fljót að pakka saman í Bifröst eftir að Háskólinn fór þaðan þrátt fyrir mikla íbúafjölgun þar og gríðarlega eftirspurn eftir húsnæði á staðnum. Sömu sögu er að segja varðandi nágrenni Varmalands en þar hefur barnafólki fjölgað mikið og eftirspurn eftir húsnæði meira en framboðið. Sveitarfélag sem vill vera í sókn á að nýta sér slíkt til uppbyggingar. En sveitarstjórn ákveður að betra sé að pakka saman og draga úr þjónustunni.  Ef sveitarfélagið Borgarbyggð vildi raunverulega vera í sókn myndi það strax fara þess á leit við Leigufélagið Bríeti að kaupa íbúðir á Bifröst til að leigja á sanngjörnu verði þeim nýbúum svæðisins sem eru komnir í vinnu og vilja vera hér áfram í stað þess að horfa uppá þau sligast undan alltof hárri leigu. Sömuleiðis að ganga nú í það verk að auglýsa lóðir á Varmalandi en dráttur á því verki hefur verið óheyrilegur. Þannig myndi sveitarfélagið vera með okkur í að efla byggðina og fá þannig betri nýtingu á þjónustuna sem þarf að veita, auka fjölbreytni mannlífs og auðvelda fyrirtækjum á svæðinu að fá starfsfólk og jafnframt auðvelda þeim aðfluttu sem hér vilja vinna og búa að gera það.

Yfir til þín sveitarstjóri

Á sveitarstjórnarfundi þegar ósköpin voru samþykkt talaðir þú til okkar sem höfum mótmælt málsmeðferð um að við ættum að slíðra sverðin. Meintirðu að við ættum að kyngja óréttlætinu og brosa? Sérðu ekki að það eru sveitarstjórnarmenn sem eru með sverðin á lofti og höggva að okkar samfélagi? Nær hefði verið að stofna til samtals milli íbúa og meirihluta sveitarstjórnar, vinna síðan að sameiginlegri stefnumörkun um framtíð skólanna í dreifbýlinu og skella sér svo í lokakaflann, ákvaðanatökuna sjálfa.

Ákvarðanataka byggð á misskilningi?

Hver eru viðbrögð Framsóknarflokksins í Borgarfirði við ákvarðanatöku sem fer fram með þessum hætti? Hvernig má það vera að sveitarstjórnarfólk telur sig ekki bundið af kosningaloforðum sínum og flokksins? Nú spyr ég mig að því hvort Framsóknarflokkurinn ætli að sætta sig við að sveitarstjórnarfólk í Borgarfirði sigli eftir stefnu meirihlutans þvert á gefin kosningaloforð og án þess að taka samtalið um það við íbúana? Ég vil vita hvaða skilning menn leggja í kosningaloforð og stefnumörkun og fara yfir hvernig sveitarstjórnarmeirihlutinn hefur svikið kjósendur sína hér án þess að hafa þurft að semja við nokkurn annan en sjálfan sig. Eitthvað mikið er að ef sveitarstjórnarfólk telur sig hafa umboð til að fara fram með þeim hætti sem hefur verið gert í sveitarfélaginu okkar.

Það hefur legið fyrir að ákvarðanataka um flutning miðstigs frá Varmalandi hefur ekki stuðning íbúa á svæðinu, ekki stuðning minnihlutans í sveitarstjórn og það sem er kannski undarlegast af öllu – ekki heldur stuðning baklandsins, Framsóknarflokksins. Hvernig má það vera að það er hægt að taka svo stóra ákvörðun án þess að hafa neinn með sér, bara fimm manns sem eru svo vissir um að þeir standi með eina rétta málstaðinn að þeir munda sverðin og höggva? Þessi ákvarðanataka er svo miklu miklu veikari en ég hefði nokkurn tímann trúað.

Til betri vegar

Ég legg nú til við meirihluta sveitarstjórnarmanna að slíðra sverðin, líta um öxl og spá í hvort þetta sé þess virði. Ég held þið hafið ekki áttað ykkur á hvaða afleiðingar þessi ákvarðanataka er að hafa, enda ekki nema von þar sem þið gleymduð að tala við íbúana en á því verður kæran sem verið er að henda í væntanlega byggð, en það er svo sem af nógu öðru að taka. Það er nefnilega ekki hægt að taka slíka ákvörðun án þess að hafa samráð við íbúana alla, ekki nóg að tala bara við nokkra útvalda. Besta sem þið getið gert í stöðunni er að byrja á byrjuninni, bakka strax með ákvörðun um flutning miðstigs frá Varmalandi og hefja samtal um framtíðarskólamál í öllum skólahverfum Borgarbyggðar, án nokkurrar tímapressu.

 

Guðrún Sigurjónsdóttir