Öldrunarhjúkrun gefandi, áhugaverð og krefjandi

Guðríður Ringsted

Í ár eru 100 ár liðin frá stofnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Af því tilefni stefnir stjórn deildar hjúkrunarfræðinga á Akranesi og nágrenni fyrir því á afmælisárinu að birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga hér í Skessuhorni. Greinarnar eru birtar jafnt og þétt yfir afmælisárið og í þeim fá lesendum innsýn í þau fjölbreyttu störf og áskoranir sem hjúkrunarfræðingar fást við. Að þessu sinni kynnir sig til leiks Guðríður Ringsted hjúkrunarfræðingur í Brákarhlíð í Borgarnesi.

Hjúkrunarfræðin heillaði á háskóladögum

Ég heiti Guðríður Ringsted, yfirleitt kölluð Dúdda, og ólst ég að mestu upp í Borgarnesi. Ég bý nú ásamt manni mínum Gunnari Halldórssyni á sveitabænum Arnbjörgum í Álftaneshreppi á Mýrum. Við eigum fjögur börn, Hörður Gunnar (´99), Agla (´08), Halldór (´11) og Brák (´14). Með okkur búa um 50 hross, nokkrar hænur, endur, hundar og köttur.

Ég útskrifast sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 2001, þá einstæð móðir sem vissi ekki alveg hvað hún átti að gera með framtíðina. Ég vann þá á bókasafni í smá tíma og ákvað að skella mér á háskóladaga til að finna mér framtíðarvinnu og áhugamál. Það fyrsta sem ég sá var kynning á hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands. Það vakti strax áhuga minn þar sem sérstaklega ljósmóðurstarfið var heillandi en ömmusystir mín var ljósmóðir og tók á móti mér. Ég hafði alltaf haft löngun til að feta í hennar fótspor. Ég skoðaði þó margt annað, til dæmis bókasafnsfræði en það sem ég sá fyrst togaði meira í mig. Þar af leiðandi skráði ég mig í clausus í hjúkrunarfræði við HÍ haustið 2002. Ég komst ekki áfram í þessum stóra hópi. Ég ákvað þá að athuga hvort hjúkrunarfræði væri eitthvað sem ég gæti hugsað mér að vinna við og fékk vinnu við aðhlynningu á öldrunardeild á Landspítalanum. Ég fann strax að þetta var fyrir mig, gefandi og fallegt starf, að hjálpa þeim sem voru andlega og líkamlega veikir. Þar með ákvað ég að skrá mig aftur í clausus en í þetta sinn hjá Háskólanum á Akureyri. Ég komst áfram og var það hamingjan ein. Ég kláraði fyrsta árið mitt fyrir norðan en ákvað að færa mig yfir á Akranes fyrir annað árið, þar sem fjarkennsla var í boði fyrir þennan bekk. Ég var þá einstæð móðir og fjölskyldan mín, sem var í Borgarnesi, vildi hjálpa mér og styðja mig á meðan ég var í háskólanámi.

Jóga hefur hjálpað í einu og öllu

Það kom smá vinkill á þetta allt saman hjá mér þar sem ég var á sama tíma í hljómsveit með vinum mínum úr fjölbrautaskólanum (og er enn). Okkur bauðst ævintýra tækifæri, oftar en einu sinni, að fara í tónleikaferðalag um Bandaríkin í nokkrar vikur. Ég sá að það myndi ekki ganga upp með náminu, þannig að ég tók mér pásu og missti þar af leiðandi af bekknum mínum á Akranesi. Ég hugsaði með mér, svona ævintýri bjóðast ekki á hverjum degi en skólinn verður alltaf til staðar. Ég þurfti á endanum að færa mig yfir í HÍ til að vera áfram nálægt fjölskyldunni en það var ekki auðvelt þar sem skólarnir eru mjög ólíkt uppbyggðir námslega. En þrátt fyrir þessar flækjur og vinkla þá útskrifaðist ég sem hjúkrunarfræðingur um vorið 2008.

Með náminu og á sumrin náði ég mér í reynslu á fjölbreyttum vinnustöðum. Það var t.d. E-deildin á Akranesi, Dvalarheimilið Höfði, bráðamóttakan á Landspítalanum við Hringbraut og sjúkrahúsið Vogur. Eftir útskrift fékk ég vinnu við hjúkrunar- og dvalarheimilið Brákarhlíð sem hét þá Dvalarheimilið í Borgarnesi. Ég fékk að taka þátt í að móta „nýtt heimili“ þegar heimilið stækkaði með nýbyggingunni og heimilið breyttist í Brákarhlíð. Ég skellti mér í framhaldsnám við Háskólann á Akureyri árið 2016 sem var diplómanám í heilbrigðisvísindum með áherslu á öldrun og heilbrigði. Fyrir utan hjúkrunarfræðina hef ég líka menntað mig sem Kundalini Jógakennari árið 2011 og hef síðan þá farið þrisvar sinnum í framhaldsnám í jógakennarafræðum. Það nám nýtist mér svo sannarlega í einu og öllu. Ég hef til dæmis kennt öndunaraðferðir, léttar teygjur, slökun og hugleiðslu. Einnig hef ég notað möntrur til að slaka eða róa og hefur það stundum gefið góða raun. Það er líka frábært að sjá hvað íbúarnir í Brákarhlíð er duglegir að mæta í jóga en hún Guðlín Erla Kristjánsdóttir jógakennari og vinkona mín kennir jóga einu sinni í viku í Brákarhlíð.

Vinna með öldruðum opnaði nýjan heim

Ég hef alltaf fundið fyrir því innra með mér að ég vil hjálpa fólki. Mér líður illa að sjá fólk kveljast, vera dapurt, einmana, vanmáttugt, í óráði eða týnt í þoku heilabilunar. Ég ætlaði upphaflega að fara í ljósmóðurfræði en fór fyrst að vinna með öldruðum og þá opnaðist mér nýr heimur. Öldrunarhjúkrun er ekki síður gefandi, áhugaverð og krefjandi. Aldraðir glíma mjög margir við ýmsa sjúkdóma þannig að einn maður gæti til dæmis verið að glíma við sykursýki, hjartabilun, nýrnabilun og heilabilun og þá getur verið mjög flókið að finna út hvaða einkenni koma frá hvaða sjúkdómi og hvernig sé best að meðhöndla einkennin. Þar af leiðandi hef ég mikinn áhuga á líknandi meðferð eða því sem ég vil kalla í dag einkennameðferð. Þegar einstaklingar eru komnir langt í sínu sjúkdómsferli og erfitt er að snúa við og ekki merki um framtíðarbata, þá þarf að huga að öllum einkennum sem geta valdið einstaklingi óþægindum og vanlíðan. Það eru til ýmsar leiðir til að lina kvalir og þjáningar og það felst ekki alltaf í lyfjanotkun. Við í Brákarhlíð höfum t.d. unnið eftir Eden hugmyndafræðinni sem er lykill að vellíðan og velferð. Eden skapar líf sem er verðugt að lifa. Eden stuðlar að þroska þó að einstaklingurinn sé orðinn gamall og lífsreyndur. Ég skil Eden hugmyndafræðina sem kærleiksríka menningu sem ríkir á hjúkrunarheimili, sem útrýmir einmanaleika, leiða og vanmáttarkennd. Nýverið byrjaði Brákarhlíð að notast við Namaste aðferðina sem getur komið sér mjög vel þegar fólk glímir við einkenni sem eru oft krefjandi að eiga við. Þar virðum við hinn innri anda og oft bið ég einmitt samstarfsfélaga mína um að setja sig í spor einstaklings, hvernig ætli honum/henni líði núna? Þá þykir mér gott að þekkja sögu einstaklings því það getur oft verið gott að ná til einstaklings með mikla heilabilun með því að þekkja lífssögu hans. Annars gengur Namaste út á það að hjálpa fólki að lifa en ekki bara vera. Þar mætir maður einstaklingnum þar sem hann er staddur. Orð eru oft ekki þörf, bara nærvera, horfast í augu og bros getur dimmu í dagsljós breytt. Jane Verity skrifaði eina af uppáhalds bókunum mínum, Að endurvekja lífsneistann hjá fólki með heilabilun. Þar segir meðal annars að rannsóknir sýna að þegar við viljum koma skoðunum á framfæri þá eru orð aðeins 7% af boðskapnum en líkamstjáning 55%. Röddin ein er 38% af boðskapnum sem þýðir þá að samtals 93% af tjáningu einstaklings er án orða. Því segi ég við þá sem eru að koma í heimsókn á heimilið að það sé allt í lagi þó að viðkomandi tjái sig ekki. Þú getur haldið í höndina og horft í augun og brosað, jafnvel raulað lag og þannig sýnt nærveru þína og kærleik án orða.

Mikilvægt að fólk fái að deyja með reisn

Mér þykir gaman að fara óhefðbundnar leiðir og vera skapandi í starfi, hvort sem það felst í söng, húmor eða að blanda nuddolíu með ilmkjarnaolíum. Ég hvet líka samstarfsfólk mitt til að vera skapandi og frjótt í hugsun, að vera óhrædd að koma með hugmyndir sem gera starfið betra og þar af leiðandi líf íbúanna betra. Það skemmtilegast við starfið er allt fólkið, hvort sem það er samstarfsfólk, íbúar heimilisins eða aðstandendur. Ég segi oft að ég eigi fullt af ömmum og öfum því maður hefur tengst miklum vina- og trúnaðarböndum. Að sama leyti getur það verið erfitt því samskipti geta orðið krefjandi þegar miklar tilfinningar eru undir niðri. Við erum jú að vinna með líf og heilsu fólks. En allir vita þó að aðalmarkmiðið með hjúkruninni er að fólki líði vel og þurfi ekki að upplifa þjáningar. Við hjúkrunarfræðingar eigum að vera málsvari einstaklings sem getur ekki tjáð sig eða varið sökum veikleika og það er okkar hlutverk að læra að þekkja þarfir þeirra og óskir.

Það getur líka verið mjög krefjandi að vinna sem hjúkrunarfræðingur þegar mannekla og mikil veikindi eiga sér stað. Maður er þá að gefa sig rúmlega hundrað prósent í vinnunni og þá er oft lítið eftir af orku þegar maður kemur heim til fjölskyldunnar.

En fjölbreytnin í hjúkrunarfræðinni er líka skemmtileg og þar af leiðandi er enginn dagur eins. Við glímum við miserfið verkefni, sem dæmi er mikil tölvuvinna, flóknar lyfjagjafir, samtalsmeðferðir eða fjölskyldufundir. Svo eru það lífslokameðferðir. Að fólk fái að deyja með reisn, þjáningarlaust, finnst mér mikilvægt. Við deyjum öll einhvern tímann og það á ekki að þurfa að vera erfitt að ræða lífslok en fólk er misjafnlega opið fyrir þeirri umræðu. Það hefur verið reynsla mín í gegnum árin að lífslok geta verið falleg og friðsæl hjá öldruðum einstaklingum sem eru saddir lífdaga en að sjálfsögðu geta þau verið sorgleg og erfið. Sorgarferlið er tilfinningavinna sem hver og einn þarf að ganga í gegnum. Við hjúkrunarfræðingar þurfum að vera til staðar fyrir hinn veika og fjölskyldu hans á oft erfiðum tímum.

Það sem framtíðin ber í skauti sér

Ég get alveg séð sjálfa mig áfram í Brákarhlíð því mér þykir óskaplega vænt um heimilið, fólkið og starfið mitt. Ég hef lært svo margt og vinnan hefur þroskað mig á ýmsan hátt. Tíminn verður hinsvegar að leiða í ljós hvað verður. Ég veit að ég mun halda áfram að læra, í vinnunni, á námskeiðum, á ráðstefnum og hugsanlega aftur í framhaldsnámi, það er svo margt spennandi í boði. Ég get einnig hugsað mér að vinna meira við einhverskonar sköpun, hvort sem það er að mála, teikna, semja tónlist, spila og syngja, skrifa og margt fleira. Ég gæti líka hugsað mér að vera meira heima, með fjölskyldunni, meira á jógadýnunni og í garðrækt því ég hef unun af náttúrunni. Ég er svo heppin að hafa fallega náttúru í kringum mig í sveitinni og fallega fjallagarða í kring. Snæfellsjökullinn blasir við mér út um stofugluggann. Ég hugsa oft, hvað gerði ég svo gott í fyrra lífi að ég verskuldaði þetta fallega líf? Ég gæti ekki verið þakklátari.

Guðríður Ringsted

Fleiri aðsendar greinar