Öldrunarheimili í hlutverki innheimtustofnana ríkisins

Björn Bjarki og Bjarni

Íbúar á hjúkrunar- og dvalarheimilum sem fengið hafa varanlega búsetu geta þurft að taka þátt í dvalarkostnaði sínum. Kostnaðarþátttaka þeirra er mismunandi, enda tekjutengd og ákvörðuð af Tryggingastofnun á grundvelli tekjuáætlana. Kostnaðarhlutdeild heimilisfólks dregst frá þeim daggjöldum sem öldrunarheimilin fá greidd mánaðarlega í samræmi við nýtingu hverju sinni frá Sjúkratryggingum vegna dvalar íbúanna á heimilunum.

Rukka fyrir ríkið

Rétt er að undirstrika að kostnaðarþátttaka einstaklinga hefur engin áhrif á heildardaggjöldin sem hjúkrunar- og dvalarheimili landsins hafa úr að spila. Hins vegar er heimilunum gert að innheimta fyrrgreinda kostnaðarhlutdeild af heimilisfólki sínu og því til viðbótar að innheimta endurútreikning sem gerður er á grundvelli skattframtals liðins árs. Því til vitnis fengu heimilin um mánaðamótin ágúst/september tilkynningu frá Sjúkratryggingum þar sem útlistað er hversu háa upphæð heimilin skuli innheimta af tilteknum íbúum heimilanna og eftir atvikum hverjir skuli fá endurgreiðslu; hvort tveggja á grundvelli skattframtals einstaklinganna vegna ársins 2017. Í sumum tilvikum, því miður, eru einstaklingar látnir og jafnvel búið að gera upp dánarbú viðkomandi. Innheimtan getur því eðli málsins samkvæmt oft á tíðum reynst flókin, tímafrek og tilfinningarík.

Flókið að útskýra

Þetta innheimtuhlutverk, sem hjúkrunar- og dvalarheimili landsins sitja nauðug í, er þungur baggi að bera, ekki síst vegna þess misskilnings sem oft kemur upp meðal íbúa og aðstandenda varðandi eðli greiðslnanna. Sumir heimilismenn taka ekki þátt í kostnaði vegna búsetu sinnar. Aðrir íbúar standa straum af allt að hámarksþátttöku sem eru ríflega 400 þúsund krónur á mánuði. Þennan mun er oft erfitt að útskýra, ekki síst þegar einstaklingar fá algerlega samræmda þjónustu eins og vera ber. Þess eru mörg dæmi að íbúar og aðstandendur telji að hjúkrunarheimilin fái þessar greiðslur umfram daggjöldin.

Getur bitnað á rekstri heimilanna

Stjórnendur hjúkrunar- og dvalarheimila hafa um árabil gert alvarlegar athugasemdir við það hlutskipti sitt að vera starfandi innheimtustofnun fyrir hönd ríkisins með framkvæmd á innheimtu daggjalda og uppgjöri vegna skattskila mörg hundruð einstaklinga eins og fyrr greinir. Það færi betur á því og væri mun eðlilegra fyrirkomulag að Tryggingastofnun sæi alfarið um innheimtuna f.h. ríkissjóðs. Þess eru enn fremur dæmi að heimilin fái ekki greidda reikninga fyrir daggjöldum þrátt fyrir þá miklu vinnu sem heimilin leggja í f.h. ríkisins og leggi að auki út fyrir kostnaði vegna innheimtunnar. Í þessum tilvikum birtist afleiðingin í formi skertra daggjalda og þar af leiðandi hreinum tekjumissi sem er grafalvarlegt mál, ekki síst fyrir minni heimili landsins sem eru í stöðugri baráttu við að ná endum saman í daglegum rekstri.

Ríkið sinni eigin innheimtumálum

Rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu heimilanna rennur út í árslok 2018. Viðræður um endurnýjun og endurskoðun þess samnings eru nýhafnar. Hjúkrunarheimilin leggja mikla áherslu á að losna undan innheimtuhlutverki því sem að ofan var lýst og telja það raunar eina af þeim forsendum sem uppfylla þurfi í nýjum samningi. Í ljósi þeirrar staðreyndar að ríkið tekur oft á tíðum stórar og afdrifaríkar samfélagsákvarðanir án mikils fyrirvara ætti að vera leikur einn fyrir hið opinbera að axla sjálft eigin innheimtumál er varða íbúa hjúkrunar- og dvalarheimila eins og það gerir nú þegar varðandi aðra borgara landsins. Við skorum því á ríkisvaldið að ganga hratt og örugglega í málið.

 

Björn Bjarki Þorsteinsson, varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.