Okvegur úr fortíð til framtíðar

Guðlaugur Óskarsson

Okvegur er hluti aldagamallar þjóðleiðar á milli Norðurlands og Suðvesturlands. Þessi hluti leiðarinnar dregur nafn sitt af jöklinum Oki, þar sem hún liggur við rætur hans á milli Gilja í Hálsasveit í Borgarfirði og Brunna austan Uxahryggja.

Ég hef lengi haft hug á að auka veg Okvegar og tekið nærri mér að heyra ferðalanga tala um að vegurinn væri villugjarnt torleiði þar sem þeir hefðu ratað í ógöngur og heitið því að fara aldrei aftur þann óveg. Mig höfðu hins vegar frætt um leiðina þeir gengnu heiðursbændur Höskuldur Eyjólfsson á Hofsstöðum í Hálsasveit og Árni Theodórsson á Brennistöðum í Flókadal og farið að þeirra leiðsögn um Okveg milli Reykholtsdals og Þingvalla. Ég skynjaði þar frelsi öræfa þó nærri væri byggð. Var þá ýmist farið upp með Rauðsgili eða frá Giljum.

Ef þjóðleiðin er rakin að norðan er fyrst að nefna að úr Skagafirði liggur Skagfirðingavegur upp frá Mælifelli og skiptist á Eyvindarstaðaheiði suður Kjöl en suðvestur yfir Blöndu um Auðkúluheiði, Öldur og Stórasand að Arnarvatni.

Austan Arnarvatns renna saman Skagfirðingavegur og Grímstunguheiðarvegur og eru eftir það ein og sama leiðin um Arnarvatnsheiði í Kalmanstungu. Eftir slysför Reynisstaðabræðra 1780 á Kili lögðust ferðir um Kjöl að mestu af, og þá jukust ferðir um Skagfirðingaveg um Stórasand verulega. Stórfelldar vegabætur á Grímstunguheiðarvegi um 1880 urðu til þess að ferðir um Skagfirðingaveg hafa hin síðari ár nær lagst af. Vestur-Húnvetningar hafa í gegnum tíðina þó oftar farið um Tvídægru en Grímstunguheiði. Þær götur nefnast Núpdælagötur og liggja frá Efra Núpi í Núpsdal í Vesturdal eða Aðalbóli í Austurdal og sameinast eftir að komið er suður fyrir dalina. Þaðan liggja Núpdælagötur suður á Urðhæðir og yfir Gilsbakkaá milli Kvíslavatna og Úlfsvatns, suður um Einbúa og Einbúastein og yfir Norðlingafljót við Fugleyrar. Þaðan um gróinn bakka fljótsins niður fyrir Surtshelli, yfir að undirhlíðum Lambafells í Strúti og yfir háls að Kalmanstungu. Þá um Húsafell að Giljum og uppá Okveg. Reyndar stundum frá Kalmanstungu um Kaldadal til Þingvalla.

Framhald Okvegar liggur úr Brunnum niður um Biskupsbrekku, Víðiker og Tröllháls, með Sandkluftavatni við Meyjasæti eða inná Eyfirðingaveg um Goðaskarð og niður á Hofmannaflöt. Þaðan niður með Ármannsfelli ofan til Þingvalla. Þar eru vegamót eftir því hvort haldið er til strandar við Faxaflóa eða til suðvesturstrandarinnar.

Fyrir nokkrum árum áræddi ég að sækja um styrk til Uppbyggingarsjóðs Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi til að merkja upp þessa gömlu þjóðleið til glöggvunar fyrir ferðamenn og varðveislu menningarverðmæta. Með loforð um styrk frá SSV fór ég að undirbúa merkingu leiðarinnar með því að kanna kort og staðhætti, eiga viðtöl við bændur og aðra kunnuga. Með tilkomu sauðfjárveikivarnagirðingar á milli Borgarfjarðar og Árnessýslu hafði tenging Okvegar við Brunna í raun verið færð austar en áður var. Hin síðari ár hefur leiðin því legið um Egilsáfanga yfir á Kaldadalsveg, nærri 5 km innan við vegamót Kaldadals og Uxahryggja. Breytingin var gerð til að komast í hlið á varnargirðingunni. Ókostur þessarar tilfærslu er sá, að ferðahrossum hefur verið ætlað að trampa harðan veg niður í Biskupsbrekku í stað þess að fara mun mýkri leið með Langásnum niður í Brunna. Til að auðvelda ferðamönnum er fara um svokallaðan Línuveg austan Skjaldbreiðar, verður Okvegur áfram merktur við Egilsáfanga, þó leiðin sé mun grýttari en sú, sem nú hefur verið stikuð. Mér hefur alllengi verið ljóst að mun betra sé að færa reiðleiðina nær fyrra horfi og jafnvel enn lengra til að komast í betri leið hjá Langásnum og vera jafnframt sem lengst utan bílvegar.

Er Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs var stofnað og umræða um merkingu gönguleiða hófst, varð það mér hvatning til að hefjast handa. Fór ég nú að útvega mér efni í stikur og viðeigandi málningu. Þar styrkti Kaupfélag Borgfirðinga mig myndarlega, og er það þakkað.

Staurarnir 400 voru fluttir heim í hesthús á Úlfsstöðum, þar sem vinur minn og góður granni Guðjón Guðmundsson stytti hvern þeirra. Á liðnu vori fór frost seint úr jörðu þar efra og fyrr en varði var orðið torfært um svæðið vegna bleytu, svo ekki kom til greina að skoða málið fyrr en eftir seinni leitir í haust.

Fór svo að ég lagði af stað fótgangandi fyrsta spölinn frá Brunnum, svona til að átta mig á nýrri tillögu minni að legu leiðarinnar milli Brunna og Leirár. Í þessari ferð bar ég 12 stikur á baki og járnkarl í hendi. Trú mín var sú, að ef fjöldinn væri postullegur yrði Guð mér og verkinu hliðhollur. Tókst mér að ná upp undir Langás og komast þannig vel á spor. Leiðin að baki nær 1,2 km en ég gerði ráð fyrir að þeir 400 staurar sem ég hafði málað, dygðu á þann hluta þjóðleiðarinnar sem til stóð að stika.

Ég leitaði til Baldurs Björnssonar bónda og girðingamanns í Múlakoti og hófum við Heiðar Árni sonur hans verkið. Fórum af stað á sexhjóli hlöðnu stikum (125 sm x 5 sm). Fyrsta daginn náðum við norður í Skurði og aftur í Brunna í myrkri, enda komið fram í nóvember. Er skemmst frá því að segja að á þremur dögum í nóvember tókst okkur Heiðari Árna að stika alla leiðina. Þá daga var veður bjart og kyrrt og úrkomulaust. Því var ekki að undra að mér fyndist ég hafa verið bænheyrður. Heita má að til undantekninga heyrði að frostskel væri í jörðu og var hún þá svo þunn að járnkarl gekk átakalítið í gegnum hana. Á þessum dögum voru á fjórða hundrað stikur reknar í jörð.

Á fimmta degi verksins var leiðin hnituð frá Brunnum að Giljum og hver stika merkt í tæki með GPS punkti. Þannig að nú má, með hjálp leiðsögutækja, fara um Okveg gangandi eða ríðandi þó skyggni sé takmarkað eða ferðamenn ókunnugir staðháttum. Í þessari ferð var Guðmundur Hallgrímsson á Hvanneyri í aðalhlutverki með mig að baki sér á fjórhjólinu með staðsetningartækið. Eins og til hlítar voru með í för þeir Kristbjörn Jónsson bóndi á Bóndhóli og Guðmundur Sigurðsson á Hvanneyri. Eftir að hnitin voru komin í tæki mitt hjálpaði Bjarni Árnason frá Brennistöðum mér að koma þeim á þann veg í tölvu að unnt verði að fylgja leiðsögninni.

Að lokum er þess að geta að Vegagerðin í Borgarnesi ákvað nú á aðventu jóla að styrkja verkefnið með því að láta gera og koma fyrir vegvísum við Gilja og Brunna fyrir gangandi og ríðandi ferðamenn. Það er sannarlega þakkarvert. Einnig vil ég þakka Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Kaupfélagi Borgfirðinga og öllum þeim öðrum, er veittu mér ómetanlega aðstoð og gerðu mér í raun mögulegt að koma þessu í kring.

Með von um að sem flestir njóti Okvegar um ókomin ár.

 

Á þrettánda degi jóla 2023,

Guðlaugur Óskarsson

 

Heimildir:

  • Þorsteinn Þorsteinsson. Arnarvatnsheiði og Tvídægra. Árbók Ferðafélags Íslands, 1962.
  • Haraldur Matthíasson. Fjallvegaferðir á Sturlungaöld. Árbók Ferðafélags Íslands, 1988.
  • Guðmundur Jósafatsson.  Skagfirðingavegur um Stórasand. Árbók Ferðafélags Íslands, 1988.
  • Björn Bergmann. Á Skagfirðingavegi. Húnavaka 1966, 6. árg., 1. tbl.

Á Okvegi þar sem hugað hefur verið áður að vegagerð.

Heiðar Árni kominn á Okveginn.

Kort af Okvegi.

Okið undir góðu sjónarhorni af Okveginum.

Við Brunna tilbúnir að leggja í hann.

Komnir yfir Leirá. Frá vinstri talið Guðmundur Hallgrímsson, Guðmundur Sig. og Bjössi á Bóndhól.