Okkar val – okkar framtíð

Þorgrímur E Guðbjartsson

Í þetta sinn göngum við að kjörborði og kjósum einstaklinga til setu í sveitarstjórn Dalabyggðar, samkvæmt kosningalögum. Þá er vert fyrir okkur kjósendur að skoða lögin vel og undirbúa okkur áður en komið er í kjörklefann, þar sem hætta getur verið á að við ógildum seðilinn okkar ef ekki er fyllstu aðgátar gætt.

Þó vil ég benda góðfúslega á nokkur atriði sem við þurfum að hafa í huga og taka afstöðu til sjálf.

Að kjósa óbundinni kosningu er ekki einfalt. Við þurfum að vita af fólkinu og þekkja eitthvað til þess, því ekki kjósum við ókunnugt fólk. Við kjósum ekki bara vini okkar, af því að við þekkjum þá. Eða foreldra og nágranna, bara til að fylla út blaðið, nei þetta er val og það val þarf að vanda. Því þurfum við nú að fara og kynna okkur hverjir búa hér, eru kjörgengir og við viljum veita okkar atkvæði.

Þegar við veltum þessu fyrir okkur er gott að setja niður á blað hvaða kosti við viljum að fulltrúarnir hafi að bera:

  • Eru þau gagnrýnin á eigin verk og annarra eða bara annarra?
  • Eru þau baráttufólk eða yppta bara öxlum og fylgja straumnum?
  • Geta þau komið fyrir sig orði í riti og hljóði, svo sómi sé að?
  • Eru þau gætt þeim eiginleika að hlusta til enda áður en þau sjálf tala eða grípa framí og hefta þar með frekari umræðu?
  • Spyrja þau krefjandi spurning og vilja fá rök með og móti?
  • Og ekki síst; standast þau mótlæti og geta verið í fararbroddi ef upp kemur krísuástand?

Og ég gæti talið upp áfram, en læt þetta duga því ég treysti ykkur til að vinna þetta verk.

Þetta og fleira þurfum við að hafa í huga þegar við leitum okkur að fólki til forystu í sveitarfélaginu og ég er ekki að halda því fram að einhver einn eða fleiri hafi alla þá kosti sem þarf til að bera, heldur þarf að vega og meta og síðan er það okkar að velja.

Vandamálið við persónukjör/óbundnar kosningar er helst það að maður vill kjósa fólk sem maður þekkir og treystir. Því getur verið erfitt fyrir fólk sem ekki er virkt í samfélaginu að finna sér kandítata og getur jafnvel verið óyfirstíganlegt og fólk því ekki mætt á kjörstað. Ég nefni sem dæmi fólk sem hefur flutt hingað á síðustu misserum, eldra fólk sem ekki getur kynnt sér íbúana nema að litlu leyti og ungmenni í framhaldsskóla sem ekki dvelja hér langdvölum lengur en hafa hér kosningarétt.  Og svo flytur fólk jú fram og til baka og því þarf maður að vera viss um að viðkomandi eigi hér heima, til að geta kosið hann.

Framundan er því mikil vinna hjá okkur, viljum við gera þetta vel. Valdið er okkar og í þessu tilviki höfum við mikið vald. Við þurfum að fara vel með það vald. Við þurfum að kynna okkur hvaða kosti við höfum, það eru jú allir frá 18 -65 ára sem eru skyldugir að taka kjöri, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, nema lögmæt forföll hamli.

Á innansveitar feisbooksíðu okkar í Dölum, hafa nokkrir þegar lýst því yfir að þau sækist eftir kjöri. Það er gott og gefur okkur því tækifæri á að kynna okkur þau og sum þeirra hafa nú þegar sent frá sér ágætis kynningarefni á síðuna.

Ástæða þess að það er persónukjör er að það var þrýstingur á að kjósendur gæti kosið fólk, en ekki lista og því til áréttingar var bent á að það væri lýðræðislegra. Nýtum því tækifærið okkar í komandi kosningum, kjósum það fólk sem okkur hugnast og kynnum okkur hvernig ber að standa að kjörinu, þar sem auðvelt er að gera mistök á kjörseðlinum sem getur valdið vafa atkvæði eða ógildu atkvæði og ekki viljum við það.

 

Njótið vorsins og lífsins.

Þorgrímur E Guðbjartsson.

Fleiri aðsendar greinar