
Og enn hækka fasteignagjöld!
Guðsteinn Einarsson
Meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar hefur boðað að álagningarprósenta fasteignagjalda verði óbreytt á næsta ári. Þar sem fasteignamat íbúðarhúsnæðis mun víst hækka um 14% milli ára þá munu fasteignagjöld hækka sem því nemur.
Þar sem verðbólga er nú liðlega 4% þá munu fasteignaskattar í Borgarbyggð hækka sem nemur um það bil þrefaldri verðbólgu, verði engu breytt. Og hafa má í huga að laun í landinu munu hafa hækkað að jafnaði um 8% eða þar um bil á síðustu 12 mánuðum mun þessi hækkun því skerða afkomu flestra almennra launþega.
Hafa þarf í huga að lífeyrir eldri borgara sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum hækka í flestum tilfellum um sem svarar verðlagsbreytingum, vísitölu, þá kemur þessi hækkun Borgarbyggðar þungt niður á afkomu lífeyrisþega.
En ekki nóg með að fasteignaskattar í Borgarbyggð hækki ár frá ári langt umfram verðlag þá sló bæjarfélagið tveggja milljarða lán í gæluverkefnið knattspyrnuhús. Rekstur þess húss, auk vaxta og afborgana af framkvæmda láninu, munu koma niður á rekstri og fjárhag sveitarfélagsins á næstu árum.
Á tímum þenslu eins og nú er á byggingamarkaði í Borgarbyggð hefði sveitarfélagið átt að halda að þér höndum í framkvæmdum öðrum en þeim brýnustu, en velur að kynda undir og auka þensluna og taka þar með þátt í að auka verðbólgu í landinu.
Breytinga er þörf í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Slagorð næstu sveitarstjórnakosninga gæti orðið: „Er ekki best að grafa og gleyma Framsókn!“
Borgarnesi, 25. ágúst 2025.
Guðsteinn Einarsson