Ófyrirsjáanleiki sem skapar óvissu

Ólafur Adolfsson

Seinagangur innviðaráðherra við að gefa út reglugerð um ívilnanir í hinu svokallaða byggðakerfi er orðið alvarlegt áhyggjuefni. Þessar ívilnanir, sem m.a. ná til línuívilnana fyrir rækju- og skelfisksbáta, hafa verið fastur liður í rekstrarumhverfi fjölmargra smærri útgerða um árabil. Venjan hefur verið að slíkar reglugerðir séu gefnar út í júlí, áður en nýtt fiskveiðiár hefst, svo útgerðir geti skipulagt veiðar og mannahald með viðeigandi fyrirvara. Nú er nýtt fiskveiðiárið hafið en enn hefur engin reglugerð litið dagsins ljós.

Afleiðingarnar eru þegar farnar að gera vart við sig hjá smærri útgerðum víða um land, sem byggja afkomu sína á þessum ívilnunum. Þær standa frammi fyrir óvissu um hvort þær geti haldið úti rekstri og eru farnar að undirbúa uppsagnir starfsfólks. Þessi ósanngjarni ófyrirsjáanleiki er ekki aðeins skaðlegur fyrir viðkomandi fyrirtæki og fjölskyldur sem reiða sig á tekjurnar, heldur grefur hann undan trausti á stjórnsýslunni og skapar glundroða í mikilvægri atvinnugrein.

Ráðherra hefur látið hafa það eftir sér að yfir standi; „yfirgripsmikil endurskoðun“ á kerfinu, en hann hefur haft málið á sinni könnu í rúma tvo mánuði án nokkurra sýnilegra afreka. Því vakna eðlilegar spurningar: Hvers vegna lá engin undirbúningsvinna fyrir frá fyrri ráðherra? Af hverju þarf núna að hefja vinnuna upp á nýtt þegar að nýtt fiskveiðiárið er þegar hafið?

Þetta brölt verður ekki skilið með öðrum hætti en að lokað verði á ívilnanir fyrir rækju- og skelfiskbáta og í framhaldi nartað í byggðakvótann. Slík óstjórn og seinagangur er ekki ásættanlegur. Ef ráðherra ætlar sér að endurskoða kerfið þarf það að gerast í góðum tíma fyrir næsta fiskveiðiár. Það má ekki lama greinina með óvissu og ófyrirsjáanleika á miðju tímabili. Sjávarútvegurinn á betra skilið.

 

Ólafur Adolfsson

Höf. er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður í NV kjördæmi.