Öflugt tónlistarlíf í Borgarbyggð

Gunnlaugur A Júlíusson

Ég var nýlega staddur í Reykholtskirkju þar sem haldnir voru minningartónleikar um Heimi Klemenzson frá Dýrastöðum, ungan tónlistarmann sem lést fyrr á þessu ári. Tónleikarnir voru jafnframt fjáröflun til stofnunar minningarsjóðs um Heimi. Tilgangur sjóðsins skal vera að styrkja ungt og efnilegt tónlistarfólk úr héraðinu til frekara náms. Reykholtskirkja var þéttsetin enda er hún afburða gott tónleikahús og dagskráin bæði vönduð og efnismikil. Langstærstur hluti þeirra listamanna sem komu fram á tónleikunum var heimafólk sem hafði unnið með og tengst Heimi á einn eða annan hátt í gegnum tónlistina.

Hugurinn reikaði á meðan á tónleikunum stóð. Meðal annars leiddist hugsunin að því hve öflugt tónlistarlíf er í Borgarbyggð og hve mikið er til af góðu tónlistarfólki í ekki fjölmennara samfélagi. Tónlistarfólki sem hefur vald á flestum ef ekki öllum tegundum tónlistar. Söngur, hljóðfæraleikur, ungir, eldri, klassísk tónlist, dægurtónlist, hljómsveitir, einleikur, kórar og einsöngur. Það er allur skalinn.

Grunnur að þessu öfluga tónlistarlífi verið örugglega lagður hjá Tónlistarskóla Borgarfjarðar gegnum árin. Skólinn hefur starfað í hálfa öld og einu ári betur. Styrkur tónlistarskólans hefur verið gott og öflugt starfsfólk og styrk og metnaðarfull forysta gegnum áratugina. Theodóra Þorsteinsdóttir hefur starfað sem skólastjóri tónlistarskólans í rúmlega hálfa starfsævi hans. Á undan henni störfuðu við skólann skólastjórar sem ég kannaðist við sem öfluga tónlistarmenn. Við skólann stunda nú um 160 nemendur nám. Tónlistarskólinn hélt t.d. upp á fimmtíu ára afmæli sitt á síðastliðnu ári með með miklum glæsibrag með uppsetningu söngleiksins um Móglí. Upp úr því verkefni þróaðist hugmynd um að stofna söngleikjadeild við skólann sl. haust. Deildin sýndi afrakstur starfsins nú um mánaðamótin með söngleiknum „Litla stúlkan með eldspýturnar“. Í þessu sambandi er einnig rétt að minnast á afmælistónleika Tónlistarskólans sem haldnir voru í Borgarneskirkju sl. haust. Þar kom fjöldi listarfólks fram sem allt hafði það sameiginlegt að hafa lokið brottfararprófi í list sinni frá Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

Fjölbreytni í tónlistarlífinu er mikil. Nokkrir kórar eru starfandi í héraðinu sem bæði halda opinberar söngskemmtanir af einu eða öðru tagi eða taka þátt í einstökum viðburðum þar sem söngurinn á vel við. Karlakórinn Söngbræður þykir t.d. ómissandi á góðum menningarsamkomum. Í Reykholtskirkju, sem er frábært tónlistarhús, eru haldnir ófáir tónleikar þar sem klassík tónlist er í fyrirrúmi fyrir utan allt annað. Þá kemur gjarnan fram frábært tónlistarfólk úr héraðinu sem hefur stundað framhaldsnám erlendis og gefur heimafólki kost á að njóta uppskerunnar. Má þar til dæmis nefna Borgarfjarðardætur sem halda gjarnan tónleika um jólin þegar þær eru allar á landinu. Einnig er rétt að minnast Reykholtshátíðar sem fyrir löngu hefur áunnið sér sterkan sess á landsvísu. Þar kemur gjarnan fram öflugt tónlistarfólk upprunnið í héraðinu.

Safnahús Borgarfjarðar og tónlistarskólinn hafa haft með sér gott samstarf hvað varðar verkefni fyrir yngstu nemendur skólans. Í safnahúsinu eru haldnir vortónleikar þar sem yngstu nemendurnir fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Einn úr þeirra hópi vakti slíka hrifningu sl. vor að hann var fenginn til að koma fram á hátíðarhöldum í höfuðborginni vegna fullveldishátíðar Íslands.

Ungur Borgfirðingur fór um landið í sumar og kynnti flamengo tónlist, bæði einn og með spænskum tónlistarmönnum. Það er ekki sjálfgefið að slík tónlist streymi fram úr borgfirskum fingrum. Heiðurstónleikar Claptons í Brún hafa áunnið sér sess í borgfirsku tónlistarlífi. Til að undirstrika fjölbreytnina má að lokum minna á kvæðamannafélagið Snorra sem heldur bæði reglubundnar æfingar í Reykholti og stendur fyrir þorraskemmtunum í mismunandi peningshúsum í héraðinu.

Hér hefur aðeins verið drepið á lítinn hluta þess tónlistarlífs sem boðið er upp á í hinu ágæta sveitarfélagi Borgarbyggð. Margt fleira mætti upp telja s.s. það góða fólk sem alltaf er reiðubúið að taka þátt í minni eða stærri samkomum með söng og hljóðfæraleik, en einhversstaðar verður að setja punkt. Hið öfluga tónlistarlíf í héraðinu er mikill menningarauki og eykur lífsgæði íbúanna á margan hátt. Mér þótti í þessu samhengi við hæfi að gefa örlitla innsýn í það sem kom upp í hugann á stórgóðum minningartónleikum um Heimi Klemenzson. Það er við hæfi að minningu hans verði meðal annars haldið á lofti með styrktarsjóði sem styrkir ungt borgfirskt tónlistarfólk til þess að ná hærra upp og lengra fram.

 

Gunnlaugur A Júlíusson.