Öflugri öldrunarþjónusta fyrir íbúa Vesturlands

Sigrún Ólafsdóttir og Inga Dóra Halldórsdóttir

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þörf er á fjölgun hjúkrunarrýma um allt land og það sama gildir um þjónustusvæði Brákarhlíðar. Einmitt þess vegna hafa stjórn og stjórnendur heimilisins þrýst í mörg ár á heilbrigðisyfirvöld að nýta tækifæri til fjölgunar hjúkrunarrýma við Brákarhlíð þar sem húsnæði heimilisins býður upp á slíkar breytingar. Með öðrum orðum að það þarf ekki að byggja húsnæði með tilheyrandi kostnaði og löngum framkvæmdatíma. Ávinningurinn er að hjúkrunarrýmin komast mun fyrr en ella í notkun og við fögnum hverju einasta slíku rými sem við getum tekið í notkun til að bregðast við brýnni þörf.

Almennt er sú áhersla uppi í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu að sem flestir geti búið sem lengst fram á efri ár í eigin húsnæði og njóti þjónustu sem geri þeim það kleift. Margir þurfa hins vegar á sérhæfðari hjúkrunarþjónustu að halda og rétt er að undirstrika að mikill munur er á hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum á heimilum líkt og Brákarhlíð. Líkt og orðið felur í sér fylgir hjúkrunarrýmum mun víðtækari sérhæfð umönnunarþjónusta, sérhæfing hvað varðar húsnæði og búnað og ekki síst fagþekking starfsfólks. Það er ekki síst vegna sérþekkingar okkar góða starfsfólks á Brákarhlíð sem heilbrigðisyfirvöld taka þá ákvörðun að  grípa tækifærið og heimila fjölgun sjö nýrra hjúkrunarrýma við Brákarhlíð strax í haust.

Þróun í starfsemi Brákarhlíðar á undanförnum árum hefur sýnt að þörf fyrir hjúkrunarrými og hvíldarinnlagnir eykst öðru fremur. Hjá okkur eru biðlistar eftir slíkri þjónustu, líkt og hjá öðrum hliðstæðum stofnunum á landinu. Til að bregðast við því höfum við það svar eitt að þrýsta á heilbrigðisyfirvöld um fjölgun hjúkrunarrýma og við okkar ákalli og rökum var orðið, líkt og nýgerður samningur sýnir.

Sem fyrr segir mun hjúkrunarrýmum á Brákarhlíð fjölga um sjö og undirbúningur þess er þegar hafinn. Föstum hjúkrunarrýmum Brákarhlíðar fjölgar þar af um tvö til framtíðar og til reynslu mun Landspítalinn hafa aðgang að fimm nýjum hjúkrunarrýmum í byrjun. Nýti hann ekki rýmin munu þau nýtast Brákarhlíð til hvíldarinnlagna. Samkvæmt samningnum verður staðan endurmetin um næstu áramót en ljóst er að samningurinn gerir okkur kleift að bregðast við þörf fyrir fleiri hjúkrunar- og hvíldarinnlagnarými. Þess vegna fögnum við þessu skrefi og lítum á það sem stóran áfanga á enn lengri leið í uppbyggingu öflugrar öldrunarþjónustu á Vesturlandi.

 

Sigrún Ólafsdóttir, formaður stjórnar Brákarhlíðar

Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi