
Öflug þjónusta VR á Akranesi
Halla Gunnarsdóttir
Þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð lá fyrir að ekki einasta myndu göngin stytta ferðatíma milli höfuðborgarinnar og Skagans, heldur myndu opnast möguleikar beggja vegna ganga fyrir bæði atvinnu og búsetu. Enda hefur það orðið raunin, fjöldi fólks býr á Skaganum og vinnur á höfuðborgarsvæðinu og einnig eru dæmi um hið gagnstæða.
Þessi mikla samfélagsbreyting kallaði á nýja hugsun. Forystufólk Verslunarmannafélags Akraness vissi hvað klukkan sló og fór strax að huga að sameiningu við VR. Úr varð fyrsta sameining VR og annarra verslunarmannafélaga, en margar komu á eftir. Óhætt er að segja að þarna hafi framsækni systranna Málfríðar og Júníu Þorkelsdætra, sem voru forystukonur VA, leikið stórt hlutverk. Áform þeirra um að efla þjónustu fyrir félagsfólk á svæðinu gengu eftir og naut sameiningin nánast einróma stuðnings félagsfólks. Mikilvægur liður í þessu var að tryggja að starfrækt yrði skrifstofa VR á Akranesi. Það gekk eftir og gott betur.
Formaður allra VR-félaga
Sameiningar sem innibera annars vegar landsbyggðareiningar og hins vegar höfuðborgarsvæðið geta haft í för með sér áskoranir, enda verða hagsmunir höfuðborgarinnar stundum fyrirferðarmiklir. Sameiningar VR og félaga utan höfuðborgarsvæðisins hafa hins vegar allar gengið vel og VA ruddi brautina.
Ég tók við embætti formanns fyrir áramót þegar forveri minn tók sæti á Alþingi og gef nú kost á mér til áframhaldandi setu. Mér er mikið í mun að vera formaður allra VR-félaga og horfi ég þar meðal annars til hins stóra félagssvæðis VR og þeirra ólíku aðstæðna sem fólk býr við í mismunandi landshlutum. Ég hef þegar sótt skrifstofu VR á Akranesi heim og sett mig inn í stöðu atvinnumála á svæðinu. Ég legg áherslu á að viðhalda öflugri þjónustu VR á svæðinu, en einnig að formaður láti sig staðbundin mál sem tengjast kjörum félagsfólks varða. Ég stefni á að hafa reglubundna viðveru á Akranesi og að heimsækja vinnustaði VR á svæðinu. Enn fremur stendur fyrir dyrum viðamikil skipulagsvinna í VR og mikilvægt er að tryggja að sjónarmið vinnandi fólks á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit séu höfð til hliðsjónar við alla umræðu og ákvarðanatöku í þessum efnum.
Nýtið atkvæðisréttinn
VR er stærsta og öflugasta stéttarfélag landsins og er eitt félaga sem kýs sér forystu með beinni persónukosningu. Ég hvet VR félaga á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit til að nýta kosningarétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórnarfólk.
Rafrænar kosningar standa frá kl. 10 fimmtudaginn 6. mars og fram til hádegis 13. mars nk. Upplýsingar um mig má nálgast á halla.is og upplýsingar um kosningarnar á vr.is.
Kjósum og hvetjum fólk til að kjósa!
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR