Öflug stoðþjónusta og góð aðsókn í Fjölbraut

Steinunn Inga og starfsfólk í stoðþjónustu FVA

Það er alltaf fjör í Fjölbrautaskóla Vesturlands þar sem á sjötta hundrað manns læra og starfa. Starfsárinu lauk með því að stór og glæsilegur hópur útskrifaðist frá skólanum, alls 78 nemendur af níu mismunandi bók- og verknámsbrautum. Árangurinn er einkar glæsilegur, dúxinn í ár er af rafvirkjabraut og tveir stúdentar fengu menntaverðlaun HÍ. Að brautskráningu lokinni hélt hópur starfsfólks skólans til Portúgal til að kynna sér skólastarf þar í landi og endurnýja orkubirgðir fyrir haustið.

Margvísleg þjónusta

Á skólaárinu störfuðu tveir náms- og starfsráðgjafar í föstu starfi við Fjölbraut, þær Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir og Bryndís Gylfadóttir. Guðrún er jafnframt deildarstjóri stoðþjónustunnar. Að auki eru í teyminu Íris Björg Jónsdóttir skólahjúkrunarfræðingur og Þorleifur Baldvinsson sálfræðingur. Teymið býr yfir mikilli sérþekkingu og faglegri reynslu. Í boði er að bóka viðtöl við sérfræðinga á vef skólans og panta rafræna ráðgjöf. Ráðþegahópurinn sem leitaði til stoðþjónustunnar á skólaárinu er fjölbreyttur en nemendur í dagskóla eru stærsti hluti hans en forráðamenn og nemendur í dreifnámi hafa einnig greiðan aðgang.

Stoðþjónusta FVA. Íris Björg, Bryndís, Guðrún Sigríður og Þorleifur.

 

Hjá náms- og starfsráðgjöfum er umræða um námsferil stærsti hluti viðtala. Nemendur vilja gjarnan fá upplýsingar um námsferil sinn, stöðu í námi og námsframvindu og fá aðstoð við að setja sér markmið og áætlun. Nemendur leita líka til náms- og starfsráðgjafa vegna persónulegra- og félagslegra vandamála sem hafa áhrif á námsframvindu þeirra. Úrræði sem eru innan veggja skólans eru vel nýtt, þ.e. sálfræðingur og skólahjúkrunarfræðingur.

Hjá skólahjúkrunarfræðingi eru helstu viðfangsefnin tengd geðheilbrigði. Einnig er félagslegur vandi, samskipti og svefnvandamál algengur ásamt kynheilbrigði.

Hjá skólasálfræðingi snúast viðtölin um andlega líðan og virkni, tengd kvíða, þunglyndiseinkennum, sjálfsmynd o.fl.

Gaman saman

Stoðþjónustan kynnir sig á hverju ári fyrir nýnemum og gerir sig sýnilega allt skólaárið með ýmsum ráðum. Teymið er virkt á instagram með margs konar hollráð og hvatningu, tilboð og viðburði.

Náms- og starfsráðgjafar halda utan um hóp útskriftarnema á hverri önn þar sem þau fá kynningu á námi og störfum og læra að búa til ferilskrá og kynningarbréf. Gestir koma í heimsókn í samráði við nemendahópinn hverju sinni. Í ár fékk hópurinn m.a. kynningu frá LBHÍ, HA, og HR sem kynntu námsframboð sitt og Fullbright hélt kynningu á námi í Bandaríkjunum. Einnig fengu nemendur smjörþef af fjármálalæsi og Kilroy mætti á staðinn svo eitthvað sé nefnt. Og að vanda gróðursettu útskriftarnemar trjáplöntur en sá góði siður hefur haldist í gegnum árin.

Nemendur með greiningu

Þegar nýir nemendur með greiningu fá inngöngu í skólann skila þeir gögnum þess efnis til náms- og starfsráðgjafa. Í framhaldi eru nemandi og foreldrar hans boðin í viðtal. Hringt verður í ágúst nk. í forráðamenn nemenda sem innritast á framhaldsskólabraut til að fara yfir námsval o.fl. Einnig verður haft samband við nemendur sem eru með annað móðurmál en íslensku til að bjóða þeim í móttökuviðtal með forráðamönnum og túlki ef þess er óskað. Ekki hika við að hafa samband um miðjan ágúst.

Farsæld nemenda í fyrirrúmi

Á Íslandi hafa ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tekið gildi en þau varða öll börn og ungmenni á Íslandi frá 0 – 18 ára aldurs. Meginmarkmið laganna er að búa til umgjörð sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Við í FVA hófum innleiðingu á þessum lögum haustið 2022 í samvinnu við Akraneskaupstað. Eins og staðan er núna eru þrír tengiliðir við skólann, báðir náms- og starfsráðgjafarnir og kennari á starfsbraut. Verkefnið er krefjandi og flókið og margar áskoranir og hindranir sem þarf að finna lausnir á. Tengiliðir mættu á mánaðarlega fundi með teymi Akraneskaupsstaðar þar sem fór fram þverfaglegt starf, fræðsla og umræður. M.a. tókum við þátt í Farsældardegi Vesturlands í Borgarnesi sem tókst vel.

Í samvinnu við verkefnið Farsælt frístundarstarf hefur verið þróaður valáfangi í FVA um liðveislu o.fl. sem verður kenndur í haust. Allar upplýsingar um farsæld í FVA eru á vef skólans og þar er hægt að bóka viðtöl o.fl.

Hlökkum til haustsins

Í Fjölbraut starfa 70 manns sem hafa heill og velferð nemenda að leiðarljósi. Nú hafa um 150 nýir nemendur fengið skólavist í Fjölbraut sem við hlökkum til að hitta í ágúst nk. Alls eru nú 526 nemendur í skólanum, þar af 427 í dagskóla. Námsframboðið er fjölbreytt, félagslífið blómlegt og andrúmsloftið í skólanum notalegt og persónulegt. Næg eru verkefnin framundan við að búa sem best að nemendum okkar og við hlökkum sannarlega til haustsins.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari og stoðþjónusta FVA

 

Frá útskrift frá skólanum. Ole Pétur Ahlbrecht var dúx skólans í vor.