Öflug samvinna um farsæld barna

Halla Signý Kristjánsdóttir

Þessa dagana er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis frumvarp frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Með fylgir frumvarp um stofnun Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Frumvarpið um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna hefur fengið góðan undirbúning með aðkomu margra sérfræðinga og hagsmunaaðila í málefnum barna. Breytingarnar sem lagt er upp með eru að efla stuðningsteymi næst barninu og að samhæfing og vöktun á þjónustu allra kerfa tali saman. Gert er ráð fyrir öflugu farsældarráði, samráðsvettvangi sveitarfélagi með ráðgjöf og eftirlitið með þjónustunni er bætt.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Þegar barn fæðist færum við því hamingjuóskir með vonum um að því farnist vel í lífinu og megi ganga áfallalítið um lífsins götu. Á fyrstu árum barns er lagður sá grunnur sem einstaklingur byggir líf sitt á. Mikilvægt er að heimilið, skólinn, íþrótta- og félagslífið og heilbrigðiskerfið myndi heildstæða umgjörð. Það þarf að horfa heildstætt á þjónustu allan lífsferil barns til fullorðinsára. Mikilvægt er að ábyrgð og frumkvæðisskylda stjórnvalda sé tryggð á öllum stigum. Til þess að tryggja heildstæða umgjörð þarf að fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra, bregðast við þörf þeirra fyrir þjónustu með skilvirkum hætti strax í upphafi og að tryggja að kerfin tali saman með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt. Um þetta snýst frumvarpið. Það skref sem nú er verið að stíga er mikilvægt til farsældar barna.

Samvinna skilar árangri

Búast má við miklum framförum í þjónustu við börn þegar þetta frumvarp verður að lögum. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið. Hér er um að ræða hugmyndir um að þjónusta við börn verði sniðin með það í huga að nálgast hvert barn með þarfir þess og réttindi í huga. Samvinna aðila sem koma að farsæld barna á eftir að borga sig fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið sjálft. Til að ná hámarksábata með breytingunni þarf að auka forvarnir og snemmbæran stuðning.  Koma í veg fyrir áföll í barnæsku sem skilar sér síðar með því að draga úr frekari áföllum á fullorðinsárum. Vissulega liggur nokkur kostnaður bæði fyrir ríki og sveitarfélög með innleiðingunni en ábatinn til lengri tíma er óumdeildur og fer stigvaxandi meðan fleiri einstaklingar hafa fengið þennan grunn. Hagfræðingar tala um að þetta verkefni flokkist með arðbærari verkefnum sem hið opinbera hefur ráðist í. Mesti  ábatinn er sterkari einstaklingur sem hefur vaxið upp til fullorðinsára samhliða traustu neti þjónustu sem hefur gripið einstaklinginn þegar þörf reyndist. Samvinna skilar okkur betri einstaklingum.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er alþ.m. Framsóknarflokks í NV kjördæmi.