Óboðleg staða á Vesturlandi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Á síðustu mánuðum hef ég átt gott samtal við íbúa á Akranesi, Borgarnesi, Snæfellsbæ, Grundarfirði og í Stykkishólmi. Það skiptir ekki máli hvert ég hef farið alltaf er það tvennt sem brennur á fólki. Annars vegar að Vesturland hafi verið skilið eftir þegar það kemur að úrbótum í vegasamgöngum á svæðinu og hins vegar að heilbrigðisþjónusta – sérstaklega á Snæfellsnesinu sé óásættanleg. Læknaskortur er orðinn að alvarlegu vandamáli sem ógnar verulega öryggistilfinningu íbúa. Hvort tveggja; öryggi íbúa þegar það kemur að samgöngum eða heilbrigði er lykilforsenda fyrir búsetu á þessum svæðum og því nauðsynlegt að taka því alvarlega þegar slíkar eru brotalamirnar.

Vesturland skilið eftir í Samgönguáætlun

Af þeim rúmlega 44 milljörðum sem verja á í samgöngur samkvæmt Samgönguáætlun 2024-2028 eru aðeins 700 milljónir sem eyrnamerktar eru Vesturlandi.

Þjóðvegir 54, 56 og 60 eru að stórum hluta að verða ónýtir og ástand þeirra langt frá því að vera boðlegt. Á sama tíma hefur aukning á umfærð á svæðinu aukist margfalt meðal annars með tilkomu Snæfellsjökulsþjóðgarðs sem er mikið prýði. Ég hef átt samtöl við bæjar- og sveitarstjóra Snæfellsbæjar, Grundarfjarðar, Stykkishólms og Dalabyggðar sem allir lýsa sömu myndinni – að svæðið hafi einfaldlega verið skilið eftir þegar það kemur að uppbyggingu og viðhaldi á lykilinnviðum. Er það mál manna að lítið eitt hafi þokast í þessum málum frá því að Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra. Enda var hann óþreytandi í baráttu sinni fyrir bættum samgöngum um land allt.

Að spara eyrinn og kasta krónunni

Þegar kemur að því að spara með því að hinkra og hinkra með að sinna nauðsynlegu viðhaldi er það ávísun á skammsýni sem veldur miklu meiri kostnaði til lengri tíma er litið. Ekki bara þegar tekið er tillit til framkvæmdanna sjálfra sem verða fyrir vikið mun umfangsmeiri en þörf hefði verið á, heldur einnig því tjóni sem viðhaldsleysi veldur á farartækjum sem aka á ónýtum vegum eða alvarlegri slysahættu sem þar skapast. Hvað þá ef stórslys verða.

Það var sorglegt að upplifa stöðuna og áhyggjur heimamanna eru skiljanlegar. Nú reynir á stjórnvöld að hugsa í lausnum og það hratt. Því tíminn vinnur ekki með svæðinu. Fyrst og fremst verður að setja í forgang að tryggja nauðsynlega grunnþjónustu fyrir íbúa Vesturlands.

Ég heyrði hið minnsta skilaboð íbúa hátt og skýrt og mun halda ríkisstjórninni við efnið. Svo þurfum við nýja ríkisstjórn sem treystir sér til að stjórna landinu og taka ákvarðanir. Finna lausnir. Viðreisn er hið minnsta tilbúin í verkið.

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Höf. er alþingismaður og formaður Viðreisnar