Óboðleg samgöngutenging Snæfellsness og Dala

Sigurður Páll Jónsson

Skógarstrandarvegur hefur verið mér hugleikinn frá því áður en ég settist fyrst á þing. Í ræðum mínum hef ég oftar en ekki talað fyrir því að uppbygging á Skógarstrandarvegi verði flýtt og nú hef ég í annað sinn lagt fram tillögu til þingsályktunar um hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

Viðhald og endurbætur á veginum hafa nánast engar verið á undanförnum árum og lítill áhugi hefur verið á umbótum. Vegurinn er malarvegur og mörg slys hafa orðið á honum og er hann flöskuháls í samgöngum austan Stykkishólms og inn í Dali. Þennan veg ætti að setja í forgang enda er hann í mikilli niðurníðslu.

Í samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 kemur fram að kostnaður við framkvæmdir á Skógarstrandarvegi sé 4 milljarðar kr. Á fyrsta tímabili (2020–2024) fari 100 milljónir í framkvæmdir á veginum, 850 milljónir á 2. tímabili áætlunarinnar (2025–2029) og á 3. tímabili (2030–2034) er áætlaður 3,1 milljarður. Ekki liggur fyrir hvenær áætlað er að verkinu verði lokið en ljóst er af samgönguáætlun að það verður í það minnsta ekki á næstu 15 árum. Slík bið eftir nauðsynlegum úrbótum á veginum er ótæk og mikilvægt að fjármögnun framkvæmdarinnar verði tryggð fyrr. Það er brýnt að hafist verði handa sem fyrst við uppbyggingu vegarins svo hann verði ekki lengur sú slysagildra sem hann er og uppfylli samgönguhlutverk sitt.

Efling og úrbætur samgangna um norðanvert Snæfellsnes og innanverðan Breiðafjörð opna nýja möguleika til margvíslegs samstarfs og bættrar þjónustu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum. Byggðirnar eiga sumar hverjar í vök að verjast og er það hlutverk okkar stjórnmálamanna að standa vörð um þær. Það mun ég halda áfram að gera og berjast fyrir því að uppbyggingu um Skógarstrandarveg verði flýtt.

 

Sigurður Páll Jónsson.

Höf. er þingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi.