Nýtum tækifærin

Magnús Smári og María Júlía

Stóreflum skipulagsmál – byggjum húsnæði við allra hæfi

Við ætlum að stórefla stjórnsýslu í kringum skipulagsmál, bæta verkferla og hraða afgreiðslu mála. Skipuleggja þarf fleiri svæði og þau þurfa að gera ráð fyrir fjölbreyttum möguleikum fyrir búsetu og atvinnustarfsemi vítt og breytt um sveitarfélagið. Við þurfum einnig að hafa frumkvæði að samstarfi við félög eins og Bjarg leigufélag sem er í eigu BSRB og ASÍ og er tilgangur þess að byggja íbúðarhúsnæði sem leigt er til langs tíma á viðráðanlegu verði, án hagnaðarsjónarmiða. Forsenda þessa er að gerð sé húsnæðisstefna sem byggir á greiningu þarfa fyrir húsnæði við allra hæfi. Stefna í húsnæðismálum þarf að vera forgangsmál í upphafi kjörtímabils.

 

Lækkum fasteignaskatta – verðum samkeppnishæf

Taka þarf varfærin en ákveðin skref í að lækka fasteignaskatta í Borgarbyggð og gera þannig sveitarfélagið að samkeppnishæfari kosti til búsetu. Markmiðið er að vera með svipaðar álögur og sveitarfélög sem við erum í beinni samkeppni við um framtíðar íbúa. Jafnframt þarf þjónusta og aðstaða að vera með þeim hætti að við sem búum hér séum ánægð og aðrir sjái það sem kost að flytja til okkar. Bæta þarf ásýnd og umhverfi með gróðri og lagfæringu á götum og gangstéttum, fjölga göngu- og hjólastígum.

 

Gerum átak í upplýsinga- og kynningarmálum

Mikilvægt er að tryggja aðgengi íbúa og annarra hagsmunaaðila að upplýsingum um starfsemi sveitarfélagsins. Bæta þarf heimsíðu Borgarbyggðar þannig að hún verði notendavænni og upplýsingaleit auðveldari. Einnig þarf að nýta samfélagsmiðla með markvissari hætti. Ráðgjöf og upplýsingar eiga að vera á fleiri tungumálum en íslensku á vef Borgarbyggðar. Rafræna þjónustu þarf að auka og fullnýta þarf möguleika íbúagáttar og kortasjá sem gefur íbúum kost á aðgangi að eigin gögnum varðandi þjónustu og samskipti við sveitarfélagið. Stefna þarf að markvissara íbúasamráði og þátttöku íbúa sem nýtist við stefnumótun og ákvarðanir sveitarstjórnar. Opna þarf í auknum mæli aðgengi að fundum með rafrænum leiðum með streymi og upptökum.

Miðlun upplýsinga getur jafnframt þjónað þeim tilgangi að markaðssetja svæði og stuðla þannig að jákvæðri ímynd. Þessi verkefni eru gríðarlega mikilvægur þáttur í því að bæta þjónustu sveitarfélagsins og getur aukið ánægju og stuðlað að fjölgun íbúa. Því leggjum við til að ráða markaðs- og kynningarfulltrúa. Sá starfsmaður gæti unnið að þessum verkefnum og ekki síður með stofnunum sveitarfélagsins í að kynna það góða starf sem þar er unnið. Hann gæti einnig unnið að því að efla starfsemi í Hjálmakletti sem menningarhúss, kynna söfn og sýningar sveitarfélagsins, vinna með grasrótinni í tengslum við hátíðir og frumkvöðlastarf, svo eitthvað sé nefnt.

Tækifærin blasa við. Við í Samfylkingu og óháðum ætlum að nýta þau og hefja uppbyggingu í Borgarbyggð.

Nýtum kosningaréttinn og mætum á kjörstað!

 

Magnús Smári Snorrason og María Júlía Jónsdóttir

Höfundar skipa 1. og 2. sæti á lista Samfylkingarinnar og óháðra í Borgarbyggð