Nýtum tækifærið – styttum biðlista

Elsa Lára Arnardóttir

Undanfarin ár hefur verið mikil umræða um það mikla álag sem verið hefur á starfsfólki Landspítala og einnig um bágan húsakost stofnunarinnar. Brugðist hefur verið við og nú er unnið að áætlunum hvernig halda skuli áfram þessum endurbótum.

Í störfum mínum í þinginu hef ég rætt þessa hluti og bent á hvort ekki mætti nýta þær öflugu heilbrigðisstofnanir sem eru í nágrenni höfuðborgarinnar, til að minnka álaginu af Landspítala. Í því samhengi hef ég bent á kosti þess að nýta Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þar sé svigrúm til að nýta skurðstofur og auð deild sem hægt væri að nýta.  Jafnframt hef ég bent á að þar væru öflug læknateymi og stoðdeildir til staðar, sem gætu með auknum fjárveitingum, tekið við auknum verkefnum (tillagan:

http://www.althingi.is/altext/145/s/0262.html  og fyrirspurnin:

http://www.althingi.is/altext/145/s/0985.html

Ég hef m.a. lagt fram tillögu um að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvernig hægt sé að efla starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og auka fjárveitingar til hennar. Með það að markmiði að standa vörð um starfsemina og minnka álag á Landspítala. Í tillögunni er að auki lagt til að gera Heilbrigðisstofnun Vesturlands að varasjúkrahúsi fyrir Landspítala. Ég hef jafnframt sett fram fyrirspurnir um sama efni.

Á dögunum var MBA rannsókn skilað sem lokaverkefni við Háskólann í Reykjavík. Í þeirri rannsókn kemur fram að hægt væri að stytta biðlista vegna liðskiptaaðgerða úr fimmtán mánuðum í þrjá, með því að nýta skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Talið er að stofnunin sé heppilegur kostur vegna nálægðar við höfuðborgina og þar eru einnig allar stoðdeildir til staðar.

Samkvæmt rannsókninni er til mikils að vinna. Öll bið reynist sjúklingum erfið og biðlistar kosta samfélagið tugi milljóna á viku. Kostnaður við að koma svona verkefni á, væri um 25 milljónir króna.

Þessi rannsókn er í samræmi við það sem ég hef reynt að benda á. Það er ábyrgðarfullt ef þetta verkefni verður kannað nánar og gripið til aðgerða.

 

Þessi grein er byggð upp á ræðu minni í Störfum þingsins,

þann 1. júní 2016.

 

Elsa Lára Arnardóttir,

– þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður Velferðarnefndar.

Fleiri aðsendar greinar