Nýtt og betra fyrirkomulag grásleppuveiða

Teitur Björn Einarsson

Alþingi samþykkti nýverið frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um breytt fyrirkomulag veiðistjórnunar á grásleppu. Það er fagnaðarefni að þingheimur skuli loksins hafa afgreitt og leitt í lög þetta framfaraskref við veiðar á grásleppu en frumvörp sama efnis höfðu áður verið lögð fram á síðustu þingum en ekki náðst samstaða um að klára málið fyrr en nú. Nýtt fyrirkomulag mun tryggja ábyrgar fiskveiðar sem eru til þess fallnar að viðhalda fiskistofnum og betri umgengni um vistkerfi sjávar og bæta rekstrarskilyrði greinarinnar.

Núverandi kerfi meingallað

Það hefur legið fyrir og verið viðurkennt um talsvert skeið að gildandi fyrirkomulag grásleppuveiða er meingallað og tryggir ekki viðunandi arðsemi af þessari auðlind. Það er ómarkvisst og ófyrirsjáanlegt fyrir þá sem veiðarnar stunda og nýliðun er svo til engin. Óvissa um dagafjölda og heildarmagn hefur ríkt við upphaf hverrar vertíðar síðastliðin ár. Þá hefur fyrirkomulagið ýtt undir ólympískar veiðar þar sem að haldið er á sjó í tvísýnum veðrum því afkoman er bundin dögum sem telja niður fyrir hvern bát. Það er til mikils unnið eitt og sér að koma á skynsamlegu kerfi sem dregur úr þessu og hefur öryggi sjómanna að leiðarljósi.

Fyrirsjáanlegri veiðistjórn

Nýtt fyrirkomulag kveður á um að grásleppa verður hlutdeildarsett frá og með árinu 2025 og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til aflareynslu sem fengin hafi verið á grundvelli leyfis sem skráð er á viðkomandi skip á tilteknu tímabili. Þá er mælt fyrir að aflaheimildir í grásleppu verði svæðisskiptar og framsal aflaheimilda eingöngu heimilt innan tiltekinna svæða. Til að tryggja nýliðun í greininni verður ráðherra heimilað að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem halda til grásleppuveiða í fyrsta skipti.

Ábyrg fiskveiðistjórn varðar almannahag og með hlutdeildarsetningu grásleppu er verið að fylgja eftir meginstefnu stjórnvalda í fiskveiðistjórn sem reynst hefur vel síðustu áratugi um að auka verðmætasköpun til lengri tíma og bæta umgengni við auðlindina. Breytingin mun ýta undir hagræðingu og bætta afkomu í rekstri með fyrirsjáanlegri fiskveiðistjórn, auknum sveigjanleika fyrir þá sem stunda veiðarnar og einfaldari stjórnsýslu.

Traustur meirihluti

Breyting á fiskveiðistjórn grásleppu hefur verið lengi í deiglunni eins og fyrr er getið og þegar breytingar ná loksins fram að ganga er viðbúið að ekki séu allir á eitt sáttir. Við þinglega meðferð málsins var vandað til verka, hlustað var eftir ólíkum sjónarmiðum og tillit tekið til margvíslegra athugasemda. Eftir stóðu einstaka úrtöluraddir gegn kvótakerfinu almennt án þess að vikið væri að kostum breytinganna fyrir grásleppuútgerðir eða því hvað kerfið sem hefur verið við lýði er lélegt.

Viðbúið var að þetta hefði ýmis áhrif á afstöðu flokka á þinginu. Til að mynda þá voru það eingöngu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem afgreiddu málið út úr atvinnuveganefnd með meirihlutaáliti. Allur þingflokkur Viðreisnar sat hjá við lokaafgreiðslu málsins en einn þingmaður Viðreisnar hafði verið meðflutningsmaður frumvarpsins og studdi þannig ekki eigið frumvarp. Tveggja manna þingflokkur Miðflokksins tókst að klofna í afstöðu sinni til málsins þar sem einn þingmaður var fylgjandi málinu en annar á móti. Samfylking, Píratar og Flokkur fólksins kusu svo gegn málinu. Að endingu var málið borið uppi og samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna.

Grásleppuútgerð efld

Hlutdeildarsetning mun efla grásleppuútgerðir og þar með þær byggðir landsins þar sem veiðarnar eru stundaðar. Ennfremur mun breytingin leiða til hættuminni sjósóknar, betri og vistvænni nýtingar veiðarfæra, t.a.m. fækka netum í sjó og þar með tjónum á netum og umhverfi og draga úr óæskilegum meðafla.

Mest um vert er að nýtt fyrirkomulag grásleppuveiða er til þess fallið að tryggja samfélagslega, umhverfislega og efnahagslega sjálfbærni til framtíðar litið auk þess að stuðla að nýsköpun og nýliðun í greininni.

 

Teitur Björn Einarsson

Höf. er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi