Nýtt námslánakerfi – fyrir hvern?

Inga Björk Bjarnadóttir

Í frumvarpi um nýtt námslánakerfi er mikið talað um aukna skilvirkni, hagræðingu og námsmönnum lofaður styrkur. Gott er að stefnan sé sett á styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd en við nánari athugun er ljóst að neikvæðir þættir frumvarpsins eru svo alvarlegir að ómögulegt er að styðja breytingarnar á lánasjóðinum. Þær bitna meðal annars á fjölskyldufólki, námsmönnum á landsbyggðinni og nemendum sem glíma við veikindi.

 

Mörg hagsmunasamtök hafa bent á að styrkurinn, sem hljóðar upp á 65.000 kr. á mánuði, hverfur í óhagstæðari lánakjörum:

 

  • Vaxtabyrði er stóraukin en heimild er til að hækka vexti úr 1% í 3%.
  • Lánin byrja strax að safna vöxtum en ekki við lok náms.
  • Afborganir eru ekki lengur tekjutengdar. Þetta þýðir að lögfræðingur og leikskólakennari eru með sömu afborganir eftir nám.
  • Nemandi byrjar að greiða af láninu ári eftir námslok en ekki tveimur.
  • Tími sem nemandi getur verið á lánum er styttur.
  • LÍN er heimilt að innheimta lántökugjald.
  • Ef nemandi klárar ekki þær einingar sem hann lagði upp með þarf hann að greiða styrkinn til baka. Þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir til dæmis fjölskyldufólk eða nemendur sem veikjast, hvort sem það er líkamlega eða andlega.

 

Nýja kerfið hentar þeim sem þurfa að taka lág lán eða eru svo heppin að geta þegið styrkina án þess að taka lán aukalega. Þeir sem þurfa að taka lán vegna hárra skólagjalda, til dæmis nemendur sem stunda nám erlendis, við Háskólann á Bifröst eða við HR koma mun verr út úr nýja kerfinu. Jafnframt koma þeir sem þurfa lán til þess að framfleyta sér, svo sem námsmenn með fjölskyldur eða þeir sem eiga ekki kost á að búa í foreldrahúsum, illa út úr nýju fyrirkomulagi. Þannig kemur þetta ekki síst niður á okkur háskólanemum af landsbyggðunum, enda erum við mun líklegri til þess að þurfa að fara á leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu, í stað þess að geta búið heima á meðan við stundum háskólanám.

 

Mikið er rætt um aukna skilvirkni nýja kerfisins sem skili sér í styttri námstíma. Ég hef hins vegar áhyggjur af auknu brottfalli úr háskólum landsins vegna óhagstæðari lánakjara og gæti þetta bitnað illa á öðrum háskólanum í heimabyggð minni, Háskólanum á Bifröst, sem fjölskyldufólk sækir í miklum mæli.

 

LÍN á að gegna hlutverki félagslegs öryggisnets fyrir alla námsmenn, ekki bara þá efnameiri sem geta klárað skóla á lágmarkstíma. Við þurfum að styðja við bak allra námsmanna, líka þeirra sem glíma við andleg veikindi, eru að ala upp börn meðfram námi og annarra sem af einhverjum ástæðum þurfa lengri tíma til að klára nám sitt. Jafnrétti til náms hefur verið stolt okkar Íslendinga. Með þessu frumvarpi er vegið að þeirri hugsjón að allir eigi að fá tækifæri til að mennta sig, óháð bakgrunni, búsetu, efnahag og aldri.

 

Inga Björk Bjarnadóttir.

Höf. er háskólanemi og frambjóðandi í flokksvali Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar