Nýstofnað hestamannafélag leggst gegn fyrirhuguðu skotæfingasvæði í landi Hamars

Steinunn Árnadóttir

Á framhaldsaðalfundi hestamannafélaga í Borgarfirði sem haldinn var í Borgarnesi þriðjudaginn 16. janúar 2018 var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða og send sveitarstjórn Borgarbyggðar:

„Aðalfundur nýstofnaðs hestamannafélags Borgarfjarðar og Mýrasýslu leggst gegn fyrirhuguðu skotæfingasvæði í landi Hamars og óskar eftir að önnur staðsetning verði valin fyrir skotæfingasvæði.“

Við hestamenn bendum m.a. á að á þessu svæði er svokölluð þjóðleið hestamanna. Hún liggur meðfram þessu svæði eiginlega á alla vegu. Þá er verið að tala um leið sem tengir Vestuland -uppsveitir við Snæfellsnes. Útilokað er að fara á hestbaki þessa leið öðruvísi en þvera þar sem skotæfingasvæðið á að liggja. Á hverju ári fer þarna um fjöldi fólks og hestar. Margir hafa atvinnu af því að fara hestaferðir með óvana einstaklinga á hestbaki og nota þessa leið. Ömurlegt er til þess að hugsa að öryggi okkar hestamanna sé svo stórlega stefnt í voða. Þessi ákvörðun sveitarstjórnar skapar okkur hestamönnum vanlíðan, óöryggi og vonleysi þar sem ekki er hlustað á okkar sjónarmið og við ekki höfð með í ráðum. Fjöldi hestamanna eiga fasteignir og hafa lagt í kostnað vegna girðinga fyrir hesta sína. Þeir borga á hverju ári umtalsverðar fjárhæðir vegna fasteignagjalda. Fasteignagjöld í Borgarbyggð eru nefnilega ekki þau lægstu á landinu! Og nú á að stórauka hættu á að þeir slasist við að stunda hestamennsku sína. Hestur sem fælist vegna skothvells er lífshættulegur!

 

Mikil andstað gegn staðsetningunni

Áður höfðu Skógræktarfélag Borgarfjarðar, umsjónarnefnd Einkunna, ábúendur í Lækjarkoti og 134 íbúar mótmælt þessum gjörningi. Þrátt fyrir þessa miklu andstöðu þá samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar á fundi sínum 27. mars breytingu á aðalskipulagi sem felst í að heimilt verði að gera ráð fyrir skotæfingasvæði í landi Hamars ofan við Borgarnes! Ekki var tekið tillit til þeirra athugsemda sem komu fram né verið boðað til samráðs, þrátt fyrir fögur orð þar um í fréttatíma RÚV.

Þetta mál er búið að vera í vinnslu hjá Borgarbyggð á sjötta ár án þess að samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila sem hafa nýtt svæði í tæp sjótíu ár! Hvað veldur? Hafa menn slæman málstað að verja? Af hverju er ekki boðað til borgarfundar um málið? Það kynnt og umræður um staðsetninguna ræddar.

 

Rök með og á móti

Röki með staðsetningunni eru „T.d. lega landsins, fjarlægðir frá nærliggjandi svæðum/starfsemi ofl ofl.“ svo vitnað sé í orð eins af stjórnarmönnum Skotvest. Hann hefur líka látið hafa eftir sér á prenti að við „skulum hafa það alveg á hreinu að skotfélagið sóttist ekki eftir þessari staðsetningu frekar en annarri, við sóttumst eftir landi fyrir okkar starfsemi“.

Skotvest er ekki að ásælast þessa staðsetningu. Rökin sem þeir nota með staðsetningunni má nota gegn henni sem fjölmargir hafa gert. Svo vitnað sé í skrif Hilmars Más Arasonar sem hefur skrifað um málið á mikilli ábyrgð og festu, þá má lesa greinar hans á netinu, á slóðinni https://folkvangurinneinkunnir.weebly.com/skrif-og-freacutettir-um-maacutelieth.html

Í gögnum sem fylgja lýsingunni kemur fram að fólkvangurinn Einkunnir er 160 metra vestan við svæðið, en austurmörk fólkvangsins eru samhliða riffilbraut. Hesthúsahverfi Borgarness, reiðhöll og gróðrarstöðin Grenigerði eru um 300 m sunnan við svæðið! Við þetta er að bæta að Lækjarkot, vinsæll ferðaþjónustu bær er í 1200 m fjarlægð.

Það er viðurkennt staðreynd að hávaði frá skotvopnum getur verið frá 150- 155 dB frá litlum rifflum og upp í 175 dB frá öflugustu rifflunum. Almenna reglan er sú að hljóð minnkar um 5dB fyrir hverja 100 m. Það er gert er ráð fyrir að hægt verði að skjóta úr 5 rifflum samtímis og geta mæld hljóðstigsgildi þá hækkað um nálega 7 dB.

Til glöggvunar má geta þess að sársaukamörk eru skilgreind við 140 dB. Við fólkvangasmörkin má reikna með hávaða upp á 165 dB, í hesthúsahverfi Borgarness, reiðhöll og við gróðrarstöðina Grenigerði má reikna með hávaða upp á 150 dB þegar skotið er úr háværustu rifflum. Allt hávaði yfir sársaukamörkum. Ábúendur í Lækjarkoti og gestir þeirra geta búist við hávaða upp á 65 dB þegar skotið er úr háværustu rifflum.

Þetta er óásættanlegt!

Ábúendur í Lækjarkoti fengu fasteignasölu til að meta jörðina og löfræðistofu til að annast þeirra mál, krafa þeirra á hendur Borgarbyggð er upp á 250.000.000 kr.

Það mun aldrei ríkja sátt um skotæfingasvæðið á þessum stað og það er einlæg von mín að frá þessari áætlun verði horfið. Vil ég enda þess skrif mín á því að hvetja nýja sveitarstjórn til þess að hverfa frá þessari slæmu hugmynd.

 

Steinunn Árnadóttir.