
Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur í Dalabyggð
Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Þann 30. mars nk. verður opnað Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur Dalabyggðar. Hugmyndin að setrinu kviknaði fyrri hluta árs 2020 og vinna við stofnun þess hefur staðið yfir frá þeim tíma. Það er því ánægjulegt að sjá afrakstur þeirrar vinnu raungerast.
En til hvers nýsköpunar- og frumkvöðlasetur? Sjálfsagt velta margir íbúar fyrir sér ásamt öðrum hvað svona setur getur gert fyrir sveitarfélagið. Megin tilgangurinn er að opna aðstöðu fyrir fyrir fólk sem vinnur að nýsköpunarverkefnum, aðilum sem stunda störf án staðsetningar og fyrir íbúa sem stunda nám og vantar aðstöðu utan heimils til að sinna því.
Með því að nýta sér aðstöðuna fæst líka aðgangur að ráðgjöf og leiðsögn frá fjölmörgum aðilum sem hafa lagt setrinu lið í aðdraganda stofnunar þess. Þeir sem nýta aðstöðuna munu meðal annars geta fengið ráðgjöf um fjarvinnu, bókhald, loftslags- og markaðsmál, aðgengi að aðstöðu háskóla, námskeið og viðtalstíma eftir eðli verkefna sem unnið er að hverju sinni.
Við stofnun var einnig lögð áhersla á að einstaklingar í námi fengju ódýrari aðstöðu sem nýtist þá kringum prófatímabil og við stærri verkefnaskil. Með stofnun setursins er hugsun jafnframt sú að koma fjölbreyttum hugmyndum sem víða leynast við eldhúsborðið eða á öðrum góðum stöðum af hugmyndastigi yfir á framkvæmdastig. Því oft vantar fólk bara aðstoðina við að komast af stað. Fá aðstoð við að skrifa umsóknir og sækja um styrki. Slíkt getur verið nóg til að koma góðri hugmynd á framkvæmdastig sem leiðir af sér fjölbreyttari atvinnu á hverju svæði. Það er líka þekkt staðreynd að þar sem ólíkt fólk sem vinnur ólík störf deilir sömu kaffistofu verða oft fjölbreyttar umræður sem geta leitt af sér fjölbreyttar hugmyndir.
Í Dalabyggð eru ýmis tækifæri til uppbyggingar, hér eru lausar lóðir til að byggja hvort sem er íbúðarhús eða iðnaðarhús. Eigendur fyrirtækja sem eru að leita að nýjum stað til uppbyggingar ættu að horfa til Dalabyggðar til að byggja upp starfsemi sína til komandi framtíðar. Hér hefur verið fjölbreytt atvinna gegnum tíðina og má þar nefna að fyrsta prentsmiðja landsins var í Dalabyggð – nánar tiltekið í Hrappsey.
Ef þú lesandi góður er að velta fyrir þér breytingum og getur unnið starf án staðsetningar og langar að flytja út á land þar sem stutt er í fjölbreytta náttúru og útvistarmöguleika, þar sem hæglætissamfélag er í þróun, þá skora ég á þig að kynna þér Búðardal og Dalabyggð sem búsetukost. Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur í Dalabyggð er liður í því að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu. Við erum ekki heldur nema í tæplega tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og ekkert mál að skreppa þangað þegar þess þarf.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Höfundur er oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar