Nýr valkostur í almenningssamgöngum milli Akraness og Reykjavíkur

Bjarni Jónsson

Í dag hófust að nýju áætlanaferðir sjóleiðina á milli Akraness og Reykjavíkur eftir 19 ára hlé. Það er ástæða til að óska íbúum á svæðinu og þeim sem að ferðunum standa til hamingju með daginn og frumkvæðið að bjóða upp á fleiri valkosti í almenningssamgöngum. Fólk getur nú valið um að skilja bílinn eftir heima og komist sjóleiðina á 25 mínútum eða farið lengri leiðina og greitt fyrir ferð um Hvalfjarðargöng sem reyndar eiga að verða gjaldfrjáls á næsta ári eins og kunnugt er. Um tilraunaverkefni er að ræða í 6 mánuði. Það verður fróðlegt að sjá hvernig mun til takast og mikilvægt að rekstrargrundvöllur verði fyrir ferðunum til framtíðar á hóflegu verði.

Það skaut því nokkuð skökku við sama dag og siglingarnar hefjast, að stjórnarformaður samkeppnisaðilans, Spalar sem rekur og innheimtir gjöld í Hvalfjarðargöng og vill halda því áfram, lýsti því yfir í fjölmiðlum, nú sem framkvæmdastjóri Faxaflóahafna sem eru í eigu sveitarfélaganna á svæðinu að hefja skyldi sérstaka gjaldtöku af slíkum farþegaflutningum.

 Akraneskaupstaður ásamt Reykjavík eru meðal stærstu eigenda Faxaflóahafna. Það er því ekki úr vegi að bæjarstjórnarfólk á Akranesi og borgarfulltrúar í Reykjavík velti því fyrir sér hvort þau muni standa með þessu tilraunaverkefni sem þau hafa sum kallað vatnastrætó og mikla samgöngubót, alla leið, eða leggi steina í götu þess strax frá fyrsta degi og standa með yfirlýsingum framkvæmdastjóra Faxaflóahafna um sérstaka gjaldheimtu ofan á hefðbundin hafnargjöld sem þegar eru til staðar.

Bjarni Jónsson

Höfundur er áhugamaður um samgöngur í NV kjördæmi og varaþingmaður VG

Fleiri aðsendar greinar