
Nýr kafli í skólasögu Akraness – Grundaskóli fær glæsilegt kennsluhúsnæði
Sigurður Arnar Sigurðsson
Síðastliðinn laugardag, þann 1. nóvember, var merkisdagur í sögu Grundaskóla og í skólasögu Akraness þegar ný og glæsileg kennslubygging skólans var formlega tekin í notkun. Sama dag var nýtt íþróttahús á Jaðarsbökkum einnig opnað, en þar fer nú fram íþróttakennsla á vegum skólans.
Uppbyggingin, sem staðið hefur yfir frá árinu 2021, markar endalok erfiðrar en lærdómsríkrar vegferðar. Grundaskóli glímdi lengi við alvarleg loftgæðavandamál og missti á tímabili þrjá fjórðu hluta kennsluhúsnæðis síns. Skólinn starfaði um tíma í átta mismunandi byggingum víðs vegar um bæinn. Þetta reyndi mjög á nemendur, starfsfólk og foreldra, en á sama tíma varð það til vitnis um samstöðu, seiglu og lausnamiðaðan anda skólasamfélagsins.
Þrátt fyrir miklar áskoranir tókst Grundaskóla hið ótrúlega, að missa ekki út einn einasta kennsludag. Nemendur þurftu að læra við erfiðar aðstæður, starfsfólk þurfti að glíma við óteljandi áskoranir vikum saman og foreldrar sýndu stuðning í verki þegar mest á reyndi. Þessi samstaða verður seint fullþökkuð. Þetta er einstakt afrek sem sýnir styrk, úthald og samstöðu allra sem að skólanum standa. Slík liðsheild er sannanlega ekki sjálfgefin. Þetta sýnir enn og aftur að Akurnesingar standa saman þegar á reynir.
Skólastjórnendur og starfsfólk skólans lögðu mikla áherslu á að enduruppbyggingin yrði ekki aðeins endurnýjun á húsnæði heldur tækifæri til að móta framtíðarsýn um nám og kennslu. Hugmyndirnar sem þar lágu að baki voru ferskar, metnaðarfullar og byggðu á því að mæta þeim breytingum sem skólastarf stendur frammi fyrir á komandi árum, hvort sem það snýr að tækni, sveigjanleika eða nýjum kennsluháttum.
Bæjarstjórn Akraness fær mikið hrós fyrir að sýna hugrekki og framtíðarsýn með því að ráðast í jafn stóra og metnaðarfulla framkvæmd. Viljinn til að byggja upp kennsluaðstöðu í fremstu röð fyrir börn og starfsfólk bæjarins hefur skilað sér í einstöku umhverfi þar sem aðbúnaður og tækni uppfylla allar kröfur nútímans.
Í dag má með sanni segja að Akurnesingar búi yfir einum flottasta grunnskóla landsins. Skóla sem endurspeglar metnað, samstöðu og trú á kraft menntunar. Skólabygging Grundaskóla er í senn falleg, hentug og framsækin. Húsnæði sem gefur mikla möguleika til að mæta komandi framtíð.
Kæra bæjastjórn! Takk fyrir að þora, takk fyrir að vilja fylgja spennandi kennsluhugmyndum eftir, takk fyrir að hafa metnað til að eiga skóla í fremstu röð og láta verkin tala en ekki bara ræða um þau.
Sigurður Arnar Sigurðsson
Höf. er skólastjóri Grundaskóla á Akranesi