Nýlenduarðurinn

Vilhjálmur Egilsson

Nýlenduarður íbúðaeigenda á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1995 er um 1.000 milljarðar króna.  Nýlenduarðurinn felst í því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað tvöfalt meira en almennt verðlag á þessum tíma og verðmæti íbúða á höfuðborgarsvæðinu er 1.250 milljörðum hærra en það væri er það hefði fylgt almennri verðlagsþróun á þessum tíma. Verðmæti íbúða á landsbyggðinni hefur hækkað mun minna á sama mælikvarða eða um 200 – 250 milljarða.

Nýlendustefnan gagnvart landsbyggðinni birtist í aðgerðum ríkisvaldsins á mörgum sviðum og almennri umræðu og andróðri gagnvart landsbyggðinni. Umræður um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál eru fyrirferðarmiklar og hafa sem meginstef að skattleggja sjávarútveg sérstaklega og draga úr stuðningi við landbúnað sem þó verður sífellt umfangsminni þáttur í efnahagslífi landsmanna. Mikil andstaða er við uppbyggingu iðnaðar á landsbyggðinni og orkuvinnslu þótt hvergi í heiminum sé umhverfisvænni orkuframleiðsla en á Íslandi.  Fjárfesting í margvíslegum innviðum í ferðaþjónustu er stórlega vanrækt þótt erlendir ferðamenn standi undir a.m.k. 20% af öllum tekjum af neyslusköttum.

Vöxtur heilbrigðiskerfisins er fyrst og fremst á höfuðbogarsvæðinu en heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa margar verið látnar veslast upp.  Háskólakerfið er fyrst og fremst byggt upp í Reykjavík.  Vegakerfinu á landsbyggðinni er illa haldið við og lítill metnaður er í vegaframkvæmdum.  Reykjavíkurborg hefur skipulagt Reykjavíkurflugvöll að stórum hluta í burtu. Aðgerðir í húsnæðismálum miðast fyrst og fremst við höfðuborgarsvæðið.

Og til að fylgja öllu þessu eftir er mikil barátta í gangi við að minnka vægi atkvæða íbúa landsbyggðarinnar.

Niðurstaða allra þessara aðgerða sem efla höfuðborgarsvæðið á kostnað landsbyggðarinnar er sú að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað í kringum 100% umfram almennt verðlag frá árinu 1995. Í hinnu miklu hækkun íbúðaverðs hafa íbúðaeigendur á höfuðborgarsvæðinu fengið arð sinn af þessari stefnumörkun og þróun. Nýlenduarðurinn er í öllum aðalatriðum skattfrjáls eignamyndun.

Fjölskylda sem keypti sér íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu fyrir 20 árum og er nú að selja sömu eign getur þannig reiknað með að um helmingur söluverðsins sé skattfrjáls söluhagnaður vegna verðhækkunar umfram almennt verðlag.

Það er einnig merkilegt að fylgjast með umræðu nú um stundir um eignarrétt á landi og auðlindum. Eignarréttartilfinningin sem tengist hugtakinu þjóðareign virðist af einhverjum ástæðum vera mun sterkari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni þar sem auðlindirnar eru fyrst og fremst nýttar. Þetta undirbyggir nýlendustefnuna gagnvart landsbyggðinni.

Ég tel að nýlendustefnuna gagnvart landsbyggðinni þurfi að berja til baka. Það verður áhugavert að fylgjast með því á næstu vikum hvernig stjórnmálaflokkarnir munu taka á nýlendustefnunni. Munu þeir taka hana upp á sína arma? Eða munu þeir hafna henni?

Tími byggðaáætlana og sóknaráætlana þar sem varpað er einhverjum milljónatugum sem dúsum fyrir landsbyggðafólk er liðinn.  Nú þarf að byrja að telja í milljörðum og milljarðatugum sem eru lágar upphæðir þegar nýlenduarður íbúðareigenda á höfuðborgarsvæðinu er hafður í huga.

 

Vilhjálmur Egilsson.

Höf. er rektor Háskólans á Bifröst.