Nýjar áskoranir á nýju kjörtímabili

Teitur Björn Einarsson

Næsta laugardag, þann 3. september, verður prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi haldið en það er liður í undirbúningi flokksins fyrir alþingiskosningarnar í haust. Alls gefa 10 frambjóðendur kost á sér til að taka sæti á lista og er þarna er á ferðinni öflugur hópur einstaklinga sem munu leggja sig alla fram við það að stuðla að bættum lífskjörum fólks og treysta frekar skilyrði til atvinnuuppbyggingar í kjördæminu á grundvelli sjálfstæðisstefnunnar.

 

Svigrúm til athafna og nýsköpunar

Sóknarfæri til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar eru sannarlega til staðar í Norðvesturkjördæmi. Mikilvægt er að fólk hafi svigrúm til athafna þannig að það geti sem best nýtt þau tækifæri sem eru fyrir hendi og fái raunverulega notið afraksturs erfiðis síns. Þannig verður til fjármagn til frekari uppbyggingar og framkvæmda. Fólk býr til verðmæti. Hið opinbera skattleggur afraksturinn.

Íþyngjandi inngrip og óhófleg gjaldtaka hins opinbera má ekki verða til þess að fæla fólk frá því að leita nýrra tækifæra og byggja upp bæði rótgrónar atvinnugreinar í kjördæminu, eins og sjávarútveg, landbúnað og orkufrekan iðnað sem og nýja atvinnuhætti til að mynda í ferðaþjónustu og hugverkageiranum. Oft á tíðum er hið opinbera nefnilega hluti vandans en ekki lausnin.

 

Efling almannaþjónustu og uppbygging innviða

Hið opinbera hefur hlutverki að gegna við eflingu almannaþjónustu og uppbyggingu félagsinnviða. Kjörnir fulltrúar verða að tryggja að allir landsmenn hafi jafnan aðgang, óháð búsetu, að þeirri almannaþjónustu sem hinu opinbera ber að veita fyrir þá skatta sem íbúar á landinu öllu greiða. Íbúar á landsbyggðinni þekkja því miður of vel óviðunandi aðstöðumun þegar kemur að almannaþjónustu og mikilvægum samfélagslegum innviðum. Það hefur grafið undan byggðafestu og torveldað atvinnuuppbyggingu.

Jákvæður viðsnúningur í ríkisfjármálum á undanförnum árum og stöðugleiki í efnahagslífinu er mikilvæg forsenda þess að nú er hægt að styrkja stoðirnar. Í Norðvesturkjördæmi þarf að tryggja betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu og jöfn tækifæri til menntunar samhliða nauðsynlegri uppbyggingu mikilvægra innviða á sviði samgangna, raforkumála og fjarskiptamála. Þannig bætum við lífskjör og öryggi íbúa og tryggjum að skilyrðin fyrir atvinnuuppbyggingu séu til staðar.

 

Kosningarnar snúast um framtíðina

Ég er reiðubúinn að axla þá ábyrgð sem fylgir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins og vil leggja mitt af mörkum við þá vinnu sem framundan er á næsta kjörtímabili. Kosningarnar í haust munu einna helst snúast um þau tækifæri sem við höfum nú  til að byggja upp samfé­lagið á þann hátt sem við teljum skynsamlegan og réttlátan. Grundvöllur aukinnar velferðar er verðmætasköpun og huga þarf að því að þetta tvennt fari saman, hvar á landinu sem er.

 

Teitur Björn Einarsson.

Höfundur er lögfræðingur og sækist eftir 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í  Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar