Nýártónleikar með Kór Akraneskirkju og Kalman tónlistarfélagi Akraness

Ingibjörg Ólafsdóttir

Kór Akraneskirkju og Kalman tónlistarfélag Akraness bjóða til glæsilegra nýárstónleika í Bíóhöllinni á morgun, laugardaginn 3. janúar kl. 20.00, þar sem gleði, glæsileiki og einstök tónlistarupplifun verða í forgrunni. Tónleikarnir marka hátíðlegt upphaf nýs árs og lofa frábæru kvöldi og tónlist sem fyllir salinn hlýju, bjartsýni og glaðlegri tónlist.

Á tónleikunum koma fram fjórir af fremstu einsöngvurum landsins: Bjarni Thor Kristinsson, Björg Þórhallsdóttir, Elmar Gilbertsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir. Hvert þeirra hefur um árabil glatt áheyrendur með framúrskarandi söng, hrífandi sviðsframkomu og næmri túlkun á tónlistinni.  Samspil radda þeirra og skemmtileg framkoma býður upp á  fjölbreytta og lifandi tónlistarveislu sem höfðar jafnt til tónlistarunnenda og þeirra sem vilja einfaldlega fagna nýju ári í góðum félagsskap.

Kór Akraneskirkju nýtur  liðsinnis hljómsveitarinnar Salon Islandus, en hún er þekkt fyrir fágaðan leik og einstakt næmi fyrir stemningu hverju sinni. Konsertmeistari er Sigrún Eðvaldsdóttir, einn virtasti fiðluleikari landsins, sem með reynslu sinni, tónfegurð og listfengi vinnur hug og hjörtu þeirra sem á hlýða.

Stjórnandi er Hilmar Örn Agnarsson en hann hefur leitt kórinn um árabil af fagmennsku og eldmóði. Stjórn hans einkennist af tónlistarnæmni og hressandi gleði sem skilar sér í lifandi og áhrifaríkum flutningi.

Nýárstónleikar Kórs Akraneskirkju hafa fest sig í sessi sem sannkölluð hátíðarstund í menningarlífi bæjarins – stund þar sem gleðin ræður ríkjum og tónlistin sameinar fólk. Hér gefst einstakt tækifæri til að hefja árið með glaðlegri tónlist, frábærum flytjendum og nýársstemningu sem lengi lifir í hjörtum þeirra sem tónleikana sækja.

Miðasala á Nýárstónleikana fer fram á tix.is og einnig í Versluninni Bjargi.   Það verður einnig hægt að kaupa miða við innganginn.

Verið öll hjartanlega velkomin

 

Ingibjörg Ólafsdóttir