Nýárspistill bæjarstjórans í Grundarfirði

Þorsteinn Steinsson

Enn eitt árið er liðið og það kemur ekki aftur. Framundan er nýtt ár og enginn veit hvað það ber í skauti sér. Vafalítið munu skiptast á skin og skúrir á árinu sem er að hefjast og vandamálin verða mörg til að leysa. Ný ríkisstjórn hefur tekið við að nýafstöðnum kosningum, vonandi tekst henni vel til. Vonir eru bundnar við það að hún taki á ýmsum málum, sem nauðsynlegt er að bæta svo sem heilbrigðismálum, samgöngumálum og málefnum almennra launþega og ekki síst þeirra sem minna mega sín. Allavega er ljóst að það skiptir miklu máli að öll grunnþjónusta sé í lagi og að kaupmáttur launafólks haldist sem bestur. Jafnframt þarf að hlú að rekstrarumhverfi fyrirtækja almennt í landinu.

Miklar vonir eru bundnar við það að ný ríkisstjórn nái að breyta vinnubrögðum á Alþingi, það er að hin mismunandi öfl samfélagsins sjái sig tilknúin til þess að vinna saman og sigla þjóðarskútunni sem öruggasta leið gegnum brimskafla þjóðlífsins. Auðvitað er það besta lausnin takist að taka upp ný og bætt vinnubrögð á Alþingi, þar sem þingmenn taka saman höndum um að leysa úrlausnarmálin á sem farsælastan hátt fyrir þjóðina. Eftir slíkum vinnubrögðum er kallað í dag. Spennandi verður að sjá hvernig tiltekst í þeim efnum.

Í desember luku flest sveitarfélög í landinu við fjárhagsáætlanir sínar fyrir komandi ár. Þar eru sett fram markmið fyrir nýtt ár. Ennfremur og samhliða þessari vinnu er skoðað hvernig til hefur tekist á árinu sem er að kveðja.

Enda þótt atvinnulífið hafi verið með ágætum hér í Grundarfirði þá setti sjómannaverkfallið óneitanlega mikið strik í reikninginn. Verkfall af þessum toga er sérstaklega erfitt í sjávarbyggð eins og Grundarfjörður er. Langstærstur hluti atvinnulífsins byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu og þjónustu við þessar greinar. Mikilvægt er því að fulltrúar launþega og atvinnurekenda nái að semja um kaup og kjör með öðrum hætti en nýtingu verkfallsvopnsins. Tekjur margra heimila og fyrirtækja eru talsvert lægri á árinu 2017 en ella hefði verið ef ekki hefði komið til sjómannaverkfall, sem stóð allt of lengi. Í bæjarsjóði sést þetta best á því að útsvarstekjur sveitarfélagsins hafa ekki hækkað milli áranna 2016 og 2017 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.  Slíkt er að sjálfsögðu bagalegt.

Að öðru leyti hefur rekstur sveitarfélagsins gengið með ágætum.  Flest hefur verið gert af því sem áætlað var fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2017. Almennt náðist að sinna allri grunnþjónustu í sveitarfélaginu eins og til stóð.  Auk þessa var unnið að margvíslegum framkvæmdum í sveitarfélaginu. Helst er þar að nefna framkvæmdir við lagfæringu gatna og malbikun þeirra, lagfæringu útrásar undir Sæbóli, viðgerðir á húsnæði grunnskólans, aðgengi og umhverfi sundlaugarinnar, nýtt gervigras sett á sparkvöllinn, ný tæki voru keypt fyrir áhaldahúsið og sérstakar klippur fyrir slökkviliðið, sem geta skipt sköpum þegar vá ber að dyrum.  Þá var áfram unnið að endurskoðun aðalskipulags fyrir bæinn og er við það miðað að því ljúki á komandi vori. Hafist var handa við gróðursetningu í Paimpol garði, unnið að fjárgirðingum umhverfis bæinn, gerðar lagfæringar á þaki íbúða að Hrannarstíg 18, jafnframt var bætt aðkoma utan við sundlaug og gerðar lagfæringar á tjaldsvæði bæjarins. Auk þessa var ráðist í margvísleg verkefni í viðhaldi tækja og húsakosts bæjarins sem nauðsynlegt var að sinna.

Ennfremur verður ekki komist hjá því að minnast á það að unnið hefur verið á árinu að ljósleiðaravæðingu í dreifbýli sveitarfélagsins og er vonast til að því verki verði lokið á komandi vori.  Jafnframt hefur verið unnið að undirbúningi að stækkun Norðurgarðs hafnarinnar og hefur þá helst verið skoðuð hönnun á mannvirkinu og námumál bæði til lands og sjávar. Þá hefur einnig verið unnið að skipulagi og hönnun á bættu aðgengi við Kirkjufellsfoss.

Á árinu skoðuðu sveitarfélögin Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit og Stykkishólmsbær hagkvæmni þess að sveitarfélögin yrðu sameinuð í eitt sveitarfélag. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG var fengið til þess að aðstoða sveitarfélögin við þessa athugun. Niðurstaða þeirra mála var sú að ekki var talinn nægjanlegur ávinningur í slíkri sameiningu fyrir sveitarfélögin til þess að ráðist yrði í kosningar um sameiningu.  Að svo stöddu verður því ekkert af sameiningu sveitarfélaganna, hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér.

Þrátt fyrir að margt hafi verið gert hefur tekist að greiða niður skuldir og skiptir það miklu fyrir rekstur sveitarfélagsins til framtíðar. Skuldsetning sveitarfélagsins hefur til skamms tíma verið of mikil. Árangur hagræðingar og aðhalds er að skila sér í lækkun heildarskulda sveitarfélagsins. Þessi árangur mun auðvelda okkur róðurinn inn í framtíðina.

Í fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2018 var ákveðið að stilla álögum á íbúa í hóf. Margar gjaldskrár eru óbreyttar milli ára.  Má þar nefna fasteignagjöld, leikskólagjöld, sem verða óbreytt milli ára, fæðisgjald í leikskóla og skóla hækkar um áætlaða verðlagsbreytingu. Gjaldskrár sundlaugar, bókasafns og tjaldsvæðis eru einnig að mestu óbreyttar.  Ákvörðun um litlar hækkanir á gjaldskrám sveitarfélagsins skila sér til íbúanna. Jafnframt er ákvörðunin tekin í þeirri von að hin alkunna verðbólga sem Íslendingar þekkja vel fari ekki á skrið. Mikill hagur er í því fólginn að verðbólgustig haldist lágt. Með því móti verður mun betra að reka fyrirtæki og heimili landsins en ella væri.

Nýta verður vel tækifæri, sem við höfum til þess að byggja upp atvinnu og þjónustu á svæðinu. Við þurfum að hlúa vel að grunnatvinnugreinunum og auka veg þeirra sem mest. Mikilvægt er að nýta þá miklu möguleika sem felast í ört vaxandi ferðamannastraumi til svæðisins. Áhugi fólks er mikill fyrir Snæfellsnesi, enda státar svæðið af gríðarlegri náttúrufegurð og hreinleika, sem óhætt er að halda á lofti.

Jafnframt er mikilvægt að fjarskipti séu góð og ekki lakari en best gerist á landinu. Nýjungar í frekari vinnslu sjávarafurða og líftækniiðnaður tengdur sjávarútvegi er einnig mjög áhugaverður. Skapa þarf aukinn fjölbreytileika í atvinnuflórunni þ.e. að ungt menntafólk sjái sér hag í því að snúa heim til starfa að afloknu námi.

Þrátt fyrir að ávallt sé nokkuð öldurót í efnahagsmálum þjóðarinnar geta Grundfirðingar litið björtum augum til framtíðarinnar. Með samstilltu átaki allra getum við gert gott samfélag enn betra.

Landsbyggðafólk á óhikað að halda á lofti kostum þess að búa úti á landi, því þeir eru margir.

Með bjartsýni og krafti bæjarbúa er ég fullviss um að nýbyrjað ár verður gott fyrir okkur hér í Grundarfirði.

Ég vil að lokum þakka fyrir samstarfið á árinu sem var að líða og óska öllum Grundfirðingum og nærsveitamönnum farsældar á komandi ári.

 

Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri

Grundarfirði