Ný þjóðarhöll og þjóðarleikvangur

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Síðastliðin nokkur ár hefur öðru hverju farið af stað umræða um að það vanti þjóðarvöll/höll. Á síðasta ári minnir mig kom fram að við værum á undanþágu vegna þess að við hefðum ekki körfuboltavöll sem stæðist alþjóðakröfur og því gætum við varla leikið landsleik í körfubolta, nema að fá undanþágu ef ég man rétt.

Það er engin launung að þetta er þarft mál og alveg tímabært að hefja undirbúning að þessari framkvæmd. Og þá spyr ég; þarf völlurinn/höllin að vera í Reykjavík? Er ekki landið allt of dýru verði keypt þar undir svona starfsemi? Væri ekki nær að horfa til næsta nágrennis við borgina, t.d. Ölfuss og Árborgarsvæðisins eða á suðurhluta Vesturlands, Hvalfjarðarsveit, Akranesi eða Borgarfirði?

Færi ekki vel á því að fyrirkoma svona mikilli uppbyggingu og fallegri á rúmgóðum stað þar sem hin rómaða íslenska náttúra er höfð með í umgjörðinni um þjóðarvöll/höll?

Með því að koma þjóðarleikvangi fyrir í nágrenni höfuðborgarinnar í stað þess að koma honum fyrir inni í höfuðborginni, þá gæti það haft margfallt meiri og jákvæðari efnahagsleg áhrif á Þjóðarskútuna.

Á þessum svæðum er í dag heilmikil uppbygging í gangi til að taka á móti ferðamönnum, svo sem hótel og veitingastaðir, bætt aðgengi að fallegum náttúruperlum svo fátt eitt sé nefnt. Ég held að með því að hugsa aðeins lengra en nef okkar nær og jafnvel að fara yfir lækinn í þessu máli, þá má slá margar flugur í einu höggi til að stórefla suðvestur hornið sem heild í stað þess að horfa einungis á Reykjavíkurborg sem staðsetningu fyrir svona mikla og jákvæða fjárfestingu. Ég skora á þau sveitarfélög sem eru innan 60-100 km frá alþóðaflugvellinum í Keflavík að fara nú af stað og freista þess að fá þjóðarleikvanginn/höllina í sína heimabyggð, landinu öllu til heilla.

Það er nóg að klúðra niðursetningu þjóðarsjúkrahússins, og þarf ekki annan skandal af svipuðum toga í ofanálag.

Njótið lífsins og horfið til framtíðar með gleði og bros.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson, Erpsstöðum