Ný skólphreinsistöð á Akranesi

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir

Með tilkomu nýrrar skólphreinsistöðvar er Akranes komið í hóp þeirra bæjarfélaga á Íslandi sem uppfylla lög og reglugerðir um fráveitu. Þetta er stór áfangi og dýr og ekki hefur gengið alveg þrautalaust að koma hreinsistöðinni á koppinn. Sagan orðin nokkuð löng og ástæðurnar meðal annars erfið fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélags Veitna, eftir hrun.

En nú skal fagnað. Skólpið rennur nú í hreinsistöðina við Kalmansvík, á mótum Ægisbrautar og Esjubrautar. Þar eru föst efni, sandur og fita hreinsuð úr því, áður en skólpinu er dælt 1 km út í sjó. Þar sjá öflugir sjávarstraumar um að dreifa þeim efnum sem eftir eru og náttúrulegir ferlar brjóta niður lífræn efni og næringarefni.

Til að fráveitukerfið virki sem skyldi þurfum við öll að taka höndum saman. Á hverju ári er mikið magn af rusli og fitu fjarlægt úr skólpi í hreinsistöðvum Veitna. Þá hefur það farið í gegnum fráveitukerfið og valdið þar álagi á dælur og annan búnað með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur. Mun betra er að setja allt rusl beint í ruslið og ekkert í fráveituna nema líkamlegan úrgang og klósettpappír. Þá farnast okkur, og umhverfinu, best.

Fita, sem m.a. er olía og fita úr eldhúsum, er mikill skaðvaldur í fráveitunni. Hún er fljótandi þegar henni er hellt í vaskinn eftir að eldamennsku lýkur en þegar hún kemur í  lagnirnar þykknar hún og stífnar og verður martröð í pípunum. Henni ætti að koma í endurvinnslu eða urðun frekar en að fara með hana í gegnum fráveitukerfið með tilheyrandi kostnaði.

Þrátt fyrir að fita hafi alltaf fundið sér leið í fráveitukerfið hefur vandinn aukist á undanförnum árum, ekki síst vegna mikillar aukningar í notkun á blautklútum af ýmsu tagi. Margir framleiðendur merkja þessa vöru sína „flushable“, þ.e. að óhætt sé að sturta henni niður. Sú er þó ekki raunin. Flestir klútar eru hannaðar til að þola mun meira en venjulegur klósettpappír og leysast því ekki upp á ferð sinni um kerfið. Klútarnir eru þó ekki það eina sem fer illa með kerfið, það gera líka tannþráður, bindi, bómullarskífur, smokkar og eyrnapinnar svo fátt eitt sé nefnt. Lifandi gullfiskar eiga heldur ekki erindi en komið hefur fyrir að þeir hafi fundist í hreinsistöðvum. Þeirra frægastur er Undri sem lifir nú góðu lífi í fiskabúri í hreinsistöðinni í Klettagörðum í Reykjavík.

Munum að ekkert af því sem skolað er niður um vaska eða sturtað niður í klósett hverfur. Allt endar þetta einhversstaðar.  Það er okkar að velja bestu mögulegu leiðina. Hún liggur ekki í gegnum fráveituna þegar um er að ræða rusl og fitu.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir,

upplýsingafulltrúi Veitna

Fleiri aðsendar greinar