Ný nálgun í vegamálum

Sigurður og Silja Eyrún

Í Borgarbyggð eru malarvegir með óbundnu slitlagi víða. Undanfarin ár hafa framlög ríkis til lagningar slitlags á tengivegi ekki verið hærri en svo að þó að allt fjármagn sem er í þeim flokki framkvæmda væri sett í Borgarbyggð tæki það nokkur ár að ljúka endurbótum í sveitarfélaginu.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á síðastliðnum áratugum, til dæmis hjá bændum. Áður unnu bændur heima við, börn voru í heimavistarskólum og akstur var minni en nú á tímum. Nú er öldin önnur og umferð hefur aukist mikið á mörgum þessara vega. Akandi ferðamönnum hefur fjölgað, þungaflutningar með fóður og mjólk hafa aukist og sífellt fleiri aka daglega um vegina til að sækja nám eða vinnu. Með óbreyttum fjárframlögum tekur áratugi að endurbæta vegi og koma á viðunandi samgöngubótum.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur, undir forystu okkar fólks, verið í farabroddi í baráttu fyrir nýrri nálgun. Við fjárlagagerð fyrir árið 2016 hvatti hún Alþingi til að taka málið á dagskrá.  Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar það ár er fjallað um nýja nálgun við samgönguframkvæmdir og hugsanlega fjármögnum með veggjöldum á helstu stofnleiðum, en grundvallarmál er að gæta jafnræðis í gjaldtöku. Þá fjallar meirihluti fjárlaganefndar um aðrar vegaframkvæmdir eins og malarvegi í sveitum.

Brýnt er að hraða sem mest framkvæmdum á tengivegum í sveitafélaginu. Hægt er að fara hagkvæmari leið og leggja vegi sem eru með einbreiðu slitlagi og góðum útskotum fyrir bíla að mætast. Þannig er mögulegt að leggja lengri vegakafla og flýta sem mest bættum samgöngum. Við fyrirhugaðar framkvæmdir verður umferðaröryggi ávallt haft að leiðarljósi og unnið verður í samráði við Vegagerðina ásamt íbúum með tilliti til þarfa þeirra.

Fjármögnun framkvæmdanna yrði svo háttað að sveitarfélagið leggur til fjármuni svo hægt verði að byggja upp vegi og leggja slitlag þegar í stað á þá vegi sem verst er ástatt um. Þekkt eru samstarfsverkefni sveitarfélaga og ríkis við mikilvæga uppbyggingu. Form þeirra samvinnu er þekkt og tryggilega verður að ganga frá slíku samstarfi. Slík leið getur fært okkur meiri og hraðari framfarir en nú eru í augsýn. Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarbyggð ætlar að láta reyna á nýja leið til framfara.

Nú eru sveitarstjórnarkosningar í nánd og munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð beita sér enn frekar fyrir þessari nálgun. Fjárhagur sveitarfélagsins hefur vænkast og hefur burði til að styðja betur við mikilvæga innviði eins og þá sem hér eru til umfjöllunar. Í góðu samstarfi við þingmenn kjördæmisins verður að halda samtalinu áfram við Alþingi og stuðla að því að auknir fjármunir verði lagðir til vegaframkvæmda í sveitafélaginu.

Sækjum fram með nýjar lausnir Borgarbyggð til heilla.

Gerum lífið í Borgarbyggð betra.

 

Silja Eyrún Steingrímsdóttir og Sigurður Guðmundsson.

Höfundar skipa 2. og 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð fyrir komandi kosningar.