
Nú þarf staðfestu og kjark
Ólafur Adolfsson og fleiri
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um langan aldur verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum. Til hans hafa flestir horft, bæði á vettvangi sveitarstjórna og ekki síður við myndun meirihluta í landsstjórninni. Í henni hefur Sjálfstæðisflokkurinn þó ávallt þurft að njóta liðsinnis annarra flokka við myndun meirihluta. Oftast hafa það verið flokkar sem nálægt eða næst hafa staðið Sjálfstæðisflokknum í pólitíska litrófinu hverju sinni.
Ríkisstjórn málamiðlana
Í sjö ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú verið í stjórnarsamstarfi með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. Leita þarf áratugi aftur í tímann til þess að finna ólíkari flokka í stjórnarsamstarfi en Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn. Málamiðlanir milli svo ólíkra flokka verða sjaldnast fagnaðarefni fjöldans.
Undanfarin misseri hefur stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins þótt sem málamiðlanir innan núverandi ríkisstjórnar hafi flestar verið á skjön við öllu helstu grunngildi flokksins. Svo mjög að ekki yrði unað við lengur. Jafnframt hefur komið ákall um breytingar í framvarðasveit flokksins.
Breytinga var þörf
Það var með þessi sjónarmið í huga þegar fulltrúar í kjördæmisráði flokksins í Norðvesturkjördæmi ákváðu, í aðdraganda komandi alþingiskosninga, að skipta um alla forystu á framboðslista flokksins í kjördæminu. Skipa hann fersku og reynslumiklu fólki, sem hefur náð árangri í störfum sínum. Hvert á sinn hátt. Fólki sem hefur lifað hér í kjördæminu og starfað að hagsmunum íbúa í sínum samfélögum um langan tíma.
Gildin okkar
Við sem skipum forystusæti framboðslistans munum, fáum við til þess stuðning kjósenda, standa fast á þeim gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur um langan aldur staðið fyrir. Þar er rétt að nefna eftirfarandi þætti:
Vaxtalækkunarferlið tryggt með aðhaldi og ábyrgð í ríkisrekstri.
Orkuöflun og orkudreifing efld og tryggð og leyfisveitingaferli stytt.
Auðlindir sjávar ávallt nýttar með ábyrgum hætti.
Kröftugt átak í samgöngumálum.
Aðgengi að heilbrigðisþjónustu bætt og þar ríki jafnræði.
Hagsmunum Íslands er áfram best borgið utan ESB, en við viljum halda áfram að efla hagsmunagæslu landsins innan EES.
Málamiðlanir eru stundum nauðsynlegar. Þær mega þó, í okkar huga, aldrei verða á kostnað grunngildanna hér að ofan.
Alþingiskosningar eru ekki bara um framboð og flokka, heldur líka fólkið sem er í framboði. Við höfum mikla reynslu, staðfestu og kjark. Til að ná fram okkar áherslum þurfum við sterkt umboð kjósenda í kosningunum á laugardaginn.
Ólafur Adolfsson
Björn Bjarki Þorsteinsson
Auður Kjartansdóttir
Dagný Finnbjörnsdóttir
Kristófer Már Maronsson
Höfundar skipa 1.-5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi