Nú líður að hausti – líka á Kjalarnesi.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Nú er liðið rúmlega hálft ár frá því að vegfarendur um Vesturlandsveg á Kjalarnesi fengu endanlega nóg af ömurlegu ástandi vegarins. Þeir upphófu kröfu um tafarlausar úrbætur í formi bráðaviðgerða og að undirbúningur fyrir breikkun vegarins hæfist strax. Um 5500 manns skrifuðu undir áskorun þessa efnis á örfáum dögum í byrjun janúar. Nú líður að hausti og ég þykist viss um að ég sé ekki sú eina sem kvíði komandi vetrarferðum um Kjalarnes. Nú styttist dagurinn óðfluga og það þarf örugglega ekki að bíða lengi eftir myrkrinu, fyrstu haustlægðinni, fyrstu sviptivindunum, fyrstu hálkunni, fyrsta slabbinu og fyrsta blindbylnum – en vonandi verður bið á næsta slysi!

En hver er staðan? Hvað veginn sjálfan snertir er staðan nákvæmlega eins og hún var fyrir hálfu ári, nema hvað að það má auðvitað reikna með að umferð tæplega tveggja milljóna ökutækja á þessu tímabili hafi slitið veginum enn meira, dýpkað hin alræmdu hjólför svo um munar. Ég get ekki séð að þessar 100 milljónir sem áttu að fara í bráðaviðgerðir í sumar hafi verið notaðar, þær hafa þá allavega dugað skammt. Af fjögurra milljarða króna framlagi til brýnna vegaframkvæmda árið  2018 úr almennum varasjóði sem fjármála- og efnahagsráðherra fer með, fóru 0 krónur í veginn um Kjalarnes. Það liggur allavega fyrir að það eru engar alvöruframkvæmdir fyrirhugaðar á Kjalarnesi þetta árið (sjá yfirlitskort Vegagerðarinnar yfir framkvæmdir á árinu 2018). Einu framkvæmdirnar á svæðinu eru gerð hringtorgs og vegtenginga við Esjumela sem auðvitað hefur lítið sem ekkert með öryggi vegarins um Kjalarnes að gera. Næsta vetur mun eftirfarandi sem sagt ennþá verða í fullu gildi:

 • Vegurinn um Kjalarnes er í ruslflokki og án efa einn óöruggasti vegur á landinu miðað við ástand, veðurfar, umferðarþunga og eðli umferðar
 • Vegurinn um Kjalarnes er þriðji umferðarþyngsti vegur landsins (meðaltalsumferð 8000 bílar á dag). Rökrétt er að álykta að gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng muni þyngja umferð enn frekar
 • Um 70% allra þungaflutninga á landinu fara um Kjalarnes
 • Vegurinn um Kjalarnes er eina stofnæðin út frá höfuðborginni sem ekki hefur verið breikkuð
 • Vegurinn um Kjalarnes er mjór og óupplýstur
 • Á veginum eru á löngum köflum djúp hjólför sem mælast langt yfir öryggismörkum. Sums staðar eru hjólförin orðin tvöföld
 • Á veginum um Kjalarnes er veðurfar afar rysjótt og vindasamt. Tíðni sterkra vindhviða mælist þar langt yfir meðallagi. Skortur á góðu veggripi er mikið áhyggjuefni
 • Um veginn aka þúsundir manna daglega til og frá vinnu og skóla. Vegurinn er lífæð byggðanna og atvinnulífs norðan Hvalfjarðarganga
 • Slys og óhöpp hvers konar eru algeng á Kjalarnesi. Vegurinn er sannkölluð slysagildra. Tvö banaslys hafa orðið á veginum það sem af er þessu ári
 • Vegfarendur eru hræddir við að aka þennan veg, bæði á sumrin vegna mikils umferðarþunga og tíðs framúraksturs og enn frekar á veturna þegar færð spillist í ofanálag og það er mjög oft á Kjalarnesi
 • Viðhald og úrbætur á veginum um Kjalarnes hafa verið vanrækt svo árum skiptir eins og sjá má á eftirfarandi töflu:

 

Af þessum tölum má sjá að grátlega og fáránlega litlu fjármagni hefur verið varið í þennan vegkafla undanfarin 10 ár. Rúmlega helmingur alls fjármagnsins fór í að byggja mislæg gatnamót við Leirvogstungu, þar sem öll áhersla hefur greinilega legið og liggur ennþá (hringtorg við Esjumela). Í viðhald bundinna slitlaga hafa einungis farið 286 milljónir á öllu þessu tímabili og litlar og hlægilegar 30 milljónir í umferðaröryggisaðgerðir. Til samanburðar má geta þess að glæný mislæg gatnamót við vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar kostuðu um 1,1 milljarð króna, eða svipaða upphæð og varið hefur verið í vegkaflann frá Þingvallaafleggjara og að syðri enda Hvalfjarðarganga á 10 árum!

Þolinmæðin er nú endanlega á þrotum. Það eru ekki einungis almennir borgarar sem þrýsta á tafarlausar úrbætur, heldur hafa sveitarstjórnir norðan Hvalfjarðarganga sem og fyrirtæki bæði á Akranesi og við Grundartanga tekið duglega undir þá kröfu. Nýlega skoraði bæjastjórn Akraness einróma á samgönguráðherra að hefja tafarlaust úrbætur. Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi hafa sett veginn í efsta sæti yfir þá vegi sem þurfa brýnna úrbóta við, þrátt fyrir að vegurinn sé strangt til tekið í öðrum landshluta. Það segir allt sem segja þarf.

En hefur málið ekkert þokast áfram? Jú, reyndar hefur umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar nú loksins samþykkt breytt deiliskipulag. Markmiðið með því er að vegurinn verði endurbættur til að auka umferðaröryggi og er stefnt á að vegurinn verði 2+1 að stærstum hluta. Gott og vel. 2+2 hefði reyndar verið betra. En nú er boltinn hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem enn hefur ekki birt Samgönguáætlun sína. Líklegt er að hún verði birt í september. Því er nú rétti tíminn til að ítreka skýlausa kröfu vegfarenda um Kjalarnes, aðstandenda vegafarenda, íbúa í sveitarfélögum norðan Hvalfjarðarganga, íbúa á Kjalarnesi og sveitarstjórna á öllum þessum svæðum – um að vegabætur á veginum um Kjalarnes verði settar í algjöran forgang og fjármagn til tafarlausra framkvæmda verði tryggt. Ég get varla hugsað þá hugsun til enda ef svo skyldi fara að fjármögnun þessara lífsnauðsynlegu framkvæmda verði enn slegið á frest. Það er þó alveg ljóst að ef til þess kemur þá segjum við STOPP!

 

Bjarnheiður Hallsdóttir,

forsvarsmaður þrýstihópsins „Til öryggis á Kjalarnesi“.

 

 

Fleiri aðsendar greinar