Nú er tækifæri til að endurfjármagna óhagstæð lán

Soffía Sóley og Ragnheiður Rún

Eins og má heyra í fréttum fjölmiðla þá er mikið að gerast á fasteignamarkaðinum, eftirspurnin mikil en framboð lítið, sannkallaður „seljendamarkaður“.

 

Hækkandi fasteignaverð

Bara á síðastliðnu ári þá hafa eignir á Akranesi og víðar hækkað töluvert í verði og er í sumum tilfellum talað um 20% hækkun. Fyrir nokkrum árum þá áttu sumir kaupendur ekki möguleika að fjármagna kaup sín með láni frá lífeyrissjóði, vegna þess að þeir þurftu að veðsetja eignir sínar upp fyrir þau mörk sem lífeyrissjóðirnir hafa.

Verðhækkunin undanfarið gefur þeim sem skulda í eignum sínum tækifæri til endurfjármögnunar þ.e. að taka ný hagstæðari lán í stað þeirra gömlu með betri kjörum hvort sem er heldur, hjá banka eða lífeyrissjóði.

 

Mismunandi lánakjör

Hámarkslán fjármálastofnana og lífeyrissjóða fyrir svokölluð íbúðalán er mismunandi en það miðast við hlutfall af markaðsverði/söluverði eða fasteignamati, allt upp í 85%. Síðan eru til undantekningar við fyrstu kaup og þá getur veðhlutfallið farið upp í 90%.  Lífeyrissjóðirnir eru með kröfur um lægra veðhlutfall en bankarnir í flestum tilfellum (algengt 65-75%).

Hjá sumum er lánunum skipt eftir sérstökum reglum í „íbúðalan I og íbúðalán II“, „grunnlán og viðbótarlán“ og er þá seinna lánið með hærri vöxtum. Sumir hafa bara eitt lán.

Mismunandi hátt „þak“ er á lánsfjárhæð. Það er t.d. kr. 30.000.000,- hjá Íbúðalánasjóði.

Vextir af lánunum eru líka mismunandi auk þess sem hægt er að velja um verðtryggð og óverðtryggð lán eða bland af hvoru tveggja.

 

Lægri lántökukostnaður

Lántökugjald eru mismunandi eftir stofnunum. Ný lög ganga í gildi 1. apríl 2017 þess efnis að bannað verður að tengja lántökugjald við lánsfjárhæð. Nokkrir aðilar hafa breytt þessu hjá sér og eru að rukka frá 50.000 til 65.000 kr.

Búið að fella niður stimpilgjöld af lánum (var 1,5%) nú þarf bara að greiða fyrir þinglýsingu á skuldabréfinum sem er kr. 2.000.

Auðvelt er að nálgast allar upplýsingar á heimasíðum viðkomandi stofnana.

Það er augljóst að það þarf að skoða vel hvaða möguleikar eru í boði þegar hugað er að endurfjármögnun. Vonumst við til að þessar upplýsingar gagnist einhverjum til að koma sínum fjármálum í betri faraveg.

 

Soffía Sóley Magnúsdóttir

Ragnheiður Rún Gísladóttir

Höf. eru löggiltir fasteignasalar hjá Fasteignamiðlun Vesturlands ehf.

Fleiri aðsendar greinar