Nú er komið að Borgarbyggð

Magnús Smári Snorrason

Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Borgarbyggðar eru augljós merki þess að nú sé komið að Borgarbyggð að hefja uppbyggingu í sinni víðustu mynd. Viðbyggingar og endurbætur á skólamannvirkjum eru áberandi í framkvæmdaráætlun sem og uppbygging annarra innviða eins og ljósleiðara í dreifbýli. Þá er mikil áhersla lögð á skipulagsmál, upplýsinga og-kynningarmál um leið og tekin eru ákveðin en varfærin skref í lækkun fasteignaskatta.

 

Efla á skipulagsmál og kynna lóðir

Vinna við að efla stjórnsýslu skipulagsmála, bæta verkferla og hraða afgreiðslu mála er þegar hafin og er gert ráð fyrir að fjölga starfsfólki á skipulagssviði og innleiða umbótamiðað gæðastarf. Eins er húsnæðisáætlun sem greinir þörfina fyrir tegund húsnæðis nú í vinnslu. Skipuleggja á fleiri svæði en þau þurfa að gera ráð fyrir fjölbreyttum möguleikum fyrir búsetu og atvinnustarfsemi vítt og breytt um sveitarfélagið. Hafin verður vinna við rammaskipulagi fyrir Brákarey og Hamars- og Kárastaðaland þar sem íbúar verða virkjaðir við hugmyndavinnuna. Í framhaldinu verður vinnan og reynslan metin og stefnt að því að fara í gerð rammaskipulags á fleiri svæðum í sveitarfélaginu. Rammaskipulag er kjörin leið til að greina möguleika til uppbyggingu svæða og þéttingu byggðar án þess að um endanlega ákvörðun um útlit, stærðir eða nýtingu sé að ræða.

 

Átak í upplýsinga- og kynningarmálum

Það er sérstaklega ánægjulegt að í þessari fjárhagsáætlun sé aukin áhersla lögð á upplýsinga- og kynningarmál. Stofna á nýja atvinnu,- markaðs- og menningarmálanefnd en sú nefnd gæti unnið í að efla og kynna það góða menningarstarf sem unnið er, vinna með grasrótinni í tengslum við hátíðir og frumkvöðlastarf og móta skýrari stefnu í atvinnumálum svo eitthvað sé nefnt. Ný heimsíða Borgarbyggðar mun líta dagsins ljós sem verður notendavænni og aðgengilegri. Rafræn stjórnsýsla verður efld svo hægt verði að flýta fyrir og einfalda afgreiðslu erinda. Með nýsamþykktri stefnu um upplýsingamál og íbúasamráð verður unnið á markvissari hátt að þeim málum. Miðlun upplýsinga getur jafnframt þjónað þeim tilgangi að markaðssetja svæðið og stuðla að jákvæðri ímynd. Þannig getum við vakið athygli á því hversu ákjósanlegur búsetukostur Borgarbyggð er.

 

Lækkun fasteignaskatta og langtímamarkmið í fjármálum

Í fjárhagsáætlun fyrir 2019 eru tekin fyrstu skrefin í að lækka fasteignaskatta í Borgarbyggð og gera þannig sveitarfélagið að samkeppnishæfari kosti til búsetu. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri leið og hefur meirihluti sveitarstjórnar fullan hug á því. Auk þess er til skoðunar að endurskoða reglur um gatnagerðargjöld.  Samhliða vinnu við fjárhagsáætlun hefur verið unnið að langtímamarkmiðasetningu í fjármálum sveitarfélagsins í verkefni sem kallað hefur verið „Brúin til framtíðar“. Að þeirri vinnu hefur öll sveitarstjórn komið og ánægjulegt hversu samstíga hópurinn hefur verið í að setja sér þessi markmið. Sú vinna hefur leitt í ljós að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við þá fjárfestingaþörf sem hefur safnast upp ef festu og aðhaldi í fjármálum verður framhaldið. Það er því óhætt að segja að nú sé komið að Borgarbyggð að nýta tækifærin sem eru fjölmörg og spennandi.

 

Magnús Smári Snorrason.
Höf. er sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð og formaður fræðslunefndar