Notum skattkerfið til eflingar byggðar

Stefán Vagn Stefánsson

Verkefnið störf án staðsetningar hefur verið í gangi nú undanfarin ár með ágætum árangri. Markmiðið með þessu verkefni var í upphafi að styrkja landsbyggðina með tilfærslu starfa frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Gott og göfugt markmið, sem við sem höfum barist fyrir byggðamálum fögnum, enda mikilvægt og risaverkefni að fjölga störfum á landsbyggðinni. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að allt of oft hefur þetta virkað með þeim hætti að störf eru tekin og færð af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið undir formerkjum þessa verkefnis. Slíkt er að okkar mati ekki í þeim anda sem stofnað var til í upphafi og eitthvað sem mikilvægt er að endurskoða í þessu annars ágæta verkefni.

En stóra verkefnið er að fjölga störfum og atvinnumöguleikum á landsbyggðinni. Snúa við þeirri byggðaþróun sem við hér í Norðvesturkjördæmi höfum séð á síðustu 20 árum þar sem íbúafjöldi hefur ekki náð að fylgja eftir þeirri þróun sem orðið hefur á landinu öllu.

Hvað er til ráða? Við í Framsókn höfum talað fyrir því að nota námslána- og skattkerfið sem hvata fyrir atvinnu og búsetu í dreifðu byggðum landsins. Slíkt hefur verið gert annarsstaðar með góðum árangri og má þar nefna Noreg sem gott dæmi þar sem þeir hvatar sem innbyggðir eru í kerfið þar hafa virkað vel og náðst hefur viðsnúningur í íbúaþróun á svæðum sem voru í mikilli hnignun. Við teljum að með því að setja slíka hvata í skattkerfið, þar sem fyrirtæki sjái beinan fjárhagslegan ávinning í því að setja upp starfsemi sína á landsbyggðinni, muni í auknum mæli beina sjónum fyrirtækjanna að landsbyggðinni er kemur að staðarvali. Að sama skapi teljum við að með því að einstaklingar sjái fjárhagslegan ávinning í því í gegnum námslána- eða skattkerfið að setjast að á landsbyggðinni muni það verða enn eftirsóknarverðara en nú er og þá eru meiri möguleikar fyrirtækjanna að ráða fólk til starfa.

Við þurfum öfluga byggð í landinu öllu. Til þess þurfum við öfluga byggðastefnu og eigum að þora að stíga þau skref sem nauðsynleg eru til þess að efla byggð um allt land. Með slíkum hvötum er stigið eitt skref í þá átt.

 

Stefán Vagn Stefánsson

Höf. er yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki og oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Fleiri aðsendar greinar