Nokkur orð um valkosti við breikkun Vesturlandsvegar

Ingvi Árnason

Nú er verið að skoða valkosti um legu nýs þjóðvegar; „Breikkun Vesturlandsvegar „Hvalfjarðargöng – Borgarnes.“ Þetta er nauðsynleg framkvæmd og um að ræða mannvirki sem ætlað er að nýtist til margra áratuga. Hér er um að ræða stofnveg sem er ætlað að bera megin þunga umferð til Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands. Umferð um þennan veg er mikil miðað við núverandi veg sem er vegtegund C8 þ.e. tveggja akreina vegur og því löngu tímabært að aðskilja akstursstefnur. Umferð á veginum frá Hvalfjarðargöngum og í Borgarnes er um 4200 ADU (ÁrsDagsUmferð) og um 6500 SDU (SumarDagsUmferð). Aukning umferðar fylgir efnahagsástandi þjóðarinnar, dregst saman í kreppum og Covid. En þegar heildarumferð er skoðuð til lengri tíma þá hefur hún tvöfaldast á 10 – 12 árum. Bætt vegasamband, þ.e. góðir vegir og stytting ferðatíma, eykur umferð. Margir aðrir þættir hafa áhrif á umferð á vegum sem þessum, svo sem atvinnusókn, byggðaþróun jaðarsvæði höfuðborgarsvæðisins, frístundir í sumarhúsum, ferðamenn bæði erlendir og innlendir. Gera má ráð fyrir að „orkuskipti“ verði frekar til að auka umferð vegna lægri aksturskostnaðar.

Valkostir

Nú liggja fyrir tillögur sem VSÓ rágjöf hefur unnið fyrir Vegagerðina. Tillögurnar allar, sem eru fjórar, gera ráð fyrir að vegurinn liggi áfram norðan við Akrafjall og fylgi áfram núveranda vegi upp að Melahverfi. En frá Melahverfi eru tillögur 1a, 1b, 1c sem fylgja núverandi vegi að Borgarfjarðarbrú en með ólíkum lausnum hvað varðar tengibraut. Tillaga 2 gerir ráð fyrir að vegurinn liggi ofar í landinu allt frá Melahverfi og tengist núverandi vegi á Hafnarmelum við Narfastaði. Tillögur 1a, 1b, 1c kalla á lagningu tengibrauta við hlið aðalvegarins sem eru eftir tillögum 6.800 m, 7.800 m, 5.700 m að lengd. Tillaga 2 gerir ráð fyrir að tengibrautir verið 2.300 m að lengd. Tengibrautir kosta peninga og skerða land bænda og eftir atvikum annarra íbúa, auk kostnaðar við nauðsynleg undirgöng fyrir gangandi og akandi (bændur þurfa að komast á og að landi sínu).

Þá er að benda á að vegarkaflinn áfram um Lyngholt, Skipanes og sértakleg Skorholtsmela getur verið erfiður á vetrum vegna skafrennings, norðan áttin er sterk þarna og aðdragandi skafrennings langur. Flutningabílstjórar og aðrir hafa oft lent í vandræðum þar og hafa flutningaaðilar séð ástæðu til að setja upp sína eigin veðurstöð á svæðinu til að hafa upplýsingar um veður og aðstæður.  Tillaga 2 fer ofar/norðar um þetta land og er hætt við að þarna verið ekki skárra veður við vetraraðstæður.

Af hverju ekki Grunnafjörður?

Það vekur athygli að ekki er tekin með í valkostagreininguna lega Vesturlandsvegar um Grunnafjörð! Sérstaklega þegar fyrir liggur skýrsla sem VSÓ vann fyrir Vegagerðina árið 2009; „Þverun Grunnafjarðar – Greinargerð um helstu umhverfisáhrif júní 2009.“ Þar er tekið á helstu umhverfisþáttum þeirrar leiðar og því hæg heimatökin að uppfæra þau atriði ef ástæða er til.

Almennt eru valkostir hafðir fleiri en færri þegar unnið er að valkostagreiningu. Það ætti ekki að vera vandamál að bæta við leiðinni um Grunnafjörð til að sjá samanburð þessara leiða. Sögulega er rétt að nefna að sá valkostur var skoðaður við undirbúning Hvalfjarðarganga, en reyndist ekki arðbær á þeim tíma. Umferðin var of lítil á þeim tíma, 1700 ADU. Og ef farið er lengra aftur í tímann, aftur til 1963, þegar þingmenn okkar voru duglegir að berjast fyrir styttingu vegalengda. Enda er til mikils að vinna ef leiðir eru styttar. Jón Árnason (S), þingmaður Vesturlands og formaður fjárlaganefndar hjá Viðreisnarstjórninni, hreyfði þessu máli fyrst er hann bar upp þingályktunartillögu um veg yfir Grunnafjörð.

Á Alþingi 1996-1997 fluttu tveir þingmenn af Akranesi, þeir Gísli S. Einarsson og Guðjón Guðmundsson „Tillögu til þingsályktunar um brú yfir Grunnafjörð“. Í greinargerðinni eru færð fram rök fyrir tillögunni sem eiga vel við í dag, enda framsýnir menn báðir.

En eins og áður er nefnt þá var valkosturinn felldur á arðsemi sem ekki var ekki nægjanleg á þeim tíma. Staðan er gjörbreytt í dag umferð hefur margfaldast á síðustu 25 árum.

Samlegðaráhrif umferðar

Einn megin kosturinn við Grunnafjarðarleiðina er að Akranes er komin í „þjóðleið“ og samlegðaráhrif umferðar um veginn réttlætir að gera hann strax í 2+2 vegi. Umferð á Akrafjallsvegi Göng – Akranes er í dag 3200 ADU. Umferð á Hringvegi Göng – Borgarnes 4200 ADU.  Samanlagt verður umferð á veginum Göng – Akranes 7400 ADU. Sumarumferð getur verið allt að 10.000 SDU á þessum kafla. Arðsemi ætti að vara góð á þessum valkosti, en þar eru reiknaðir m.a. eftirfarandi þættir:

  • „Kostnaður“ sem er fyrst og fremst byggingarkostnaður, kostnaður vegna landrýmis og svo viðhaldskostnaður á líftíma vegarins.
  • Ávinningur. Eða „tekjur“ felast meðal annars í tímasparnaði, minni slysahættu, minni rekstrarkostnaði ökutækja, umhverfisþáttum (t.d. mengun, hljóðvist og tilvist búsvæða og náttúrulegs umhverfis), bættu umferðarflæði o.fl.

Þá eru aðrir þættir sem skipta máli, eðli umferðar og samsetning:

Atvinnusókn íbúa á Akranesi er mikil til höfuðborgarsvæðisins og er Akrafjallsvegurinn nú þegar slysahár. Umferðin er með háa toppa, á morgnana og seinnipartinn. Áköf umferð og óþols gætir. Þetta þekkja allir sem hafa ekið um Kjalarnesið fram til þessa. Nú styttist í að þar komi vegur með aðskildar akstursstefnur. Krafa um Sundabraut segir líka sína sögu um umferðarmál inn á höfuðborgarsvæðið. Það er því brýnt að Vesturlandsvegur verði færðir upp í 2+2 frá Göngum á Akranes.  Og lagður verði grunnur að því að hægt verði að byggja 2+2 veg upp í Borgarnes eftir því sem umferð eykst.

Vegtæknilega er betra að byggja 2+2 veg frá Göngum á Akranes. Það er hægt að byggja hann í friði og án þess að raska mikið undirstöðu núverandi vegar þar sem „miðdeilir“ eða frísvæði verður á milli gagnstæðra akstursstefna. En vegurinn er að mestu á mýrlendi og þar er „Heynesmýrin“ dýpst. Vegurinn er sagður „fljóta“, því mýrin var ekki ræst fram.

Tvöföldun vegarins frá göngum á Akranes kallar ekki á flókin gatamót eða tengibrautir.  Ávinningurinn af 2+2 vegi er margþættur, hnökralaust umferðarflæði, auðvelt að þjónusta veginn bæði að sumri sem vetri án teljandi umferðartafa, stórbætt öryggi vegfarenda. Slysatíðni á Akrafjallsvegi, kafla 51-1, er nú (0,81).

Vegtæknilega er Grunnafjarðarleiðin betri en núverandi vegstæði Hringvegar, er á flatlendi nánast alla leið og planlega vegarins á engan hátt þvinguð. Melasveitartarvegur verður þveraður einu sinni. Vegurinn tengist núverandi vegi við Fiskilæk, kemur inn á beina kaflann um Hafnarmela.

Helstu kostir

  • Grunnafjarðarleið styður almenningssamgöngur og aðra flutninga á vörum og þjónustu, sem ekki þurfa að leggja lykkju á leið sína til að þjónusta Akranes.
  • Grunnafjarðarleiðin styttir leiðina Borgarness – Akranes um 7 km og styttir leiðina að vestan og norðan til höfuðborgarinnar um 1 km.
  • Vegurinn frá Hvalfjarðargöngum um Grundartanga og norður fyrir Akrafjall og um Laxá og Leirá mun þjóna byggðinni vel um ókomin ár. Gott að vera laus við þunga umferðarstrauma um byggð svæði þar sem aðgengi íbúa að sínu nærumhverfi verður ekki skert.
  • Sameining sveitarfélaga á svæðinu liggur í loftinu, Hvalfjarðarsveit, Akranes, Skorradalur og Borgabyggð. Eitt sveitarfélag frá Hvalfirði og upp á Holtavöruheiði og vestur að Haffjarðará. Það gæfi okkur slagkraft í samkeppni við önnur svæði hér á suðvesturhorninu um fólk og fyrirtæki sem vilja vera með okkur í að byggja upp samfélag sem gott er að búa í og starfa. Þessi vetur hefur sýnt fram á vankanta á búsetu á Suðurlandi, ekki fært á milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins dögum saman. Vesturland stendur vel hvað varðar tengingu við höfuðborgarsvæðið ef við berum gæfu til að velja besta valkostinn, Gunnafjarðarleiðina.
  • Heilbrigðismálin er nokkuð sem við þurfum að huga að. Heilbrigðistofnun Vesturlands með Sjúkrahús Akraness sem kjarna fyrir Vesturland. Vinna þarf að því að efla þá einingu þannig að Vestlendingar þurfi ekki „alltaf“ að fara til Reykjavíkur ef þarf að hitta „sérfræðing“. Sjö km stytting á Akranes fyrir Vestlendinga er liður í að fá betri þjónustu á Akranesi.

 

Ingvi Árnason

Höf. er fyrrverandi svæðisstjóri Vestursvæðis Vegagerðarinnar.