Nóg komið! Enn eitt vandræðamálið?

Guðsteinn Einarsson

Í fréttum á mánudagsmorgun kom fram að ráðuneyti sveitastjórnamála hefði gert alvarlegar athugasemdir við stjórnsýslu Borgarbyggðar á sviði skipulagsmála, þar sem allsherjar óreiða virðist ráða ríkjum.

Bætist þar við enn eitt málið sem lýsir stjórn- og stefnuleysi í stjórnun sveitafélagsins Borgarbyggðar.

Við búum við næst-hæstu fasteignaskatta á landinu, aðeins 38% íbúa eru ánægðir með búsetu í Borgarnesi, framkvæmdir við skóla hafa farið um og yfir 100% fram úr áætlun. Ekki er vitað hver samþykkti eða hvað varð um liðlega 100 milljónir króna við þá framkvæmd, rekstrarkostnaður skólanna er langt umfram landsmeðaltal, fasteignir sveitafélagsins eru í niðurnýðslu vegna skorts á viðhaldi og svo framvegis.

Er ekki rétt fyrir forseta bæjarstjórnar og formann byggðarráðs að fara að skoða stöðu sína? Það er augljóst að núverandi meirihluti, undir þeirra forystu, ræður ekki við að stjórna sveitarfélaginu og betra væri að aðrir kæmu þar að, fyrr en seinna!

 

Borgarnesi, 23. águst 2021

Guðsteinn Einarsson