Niðurstaða skoðanakönnunar á Snæfellsnesi

Guðrún Magnea Magnúsdóttir

Álit og þekking íbúa á umhverfis- og samfélagsmálum er mikilvægur hluti af umbótum í ýmsum málaflokkum og bættri frammistöðu sveitarfélaga. Rafræn skoðanakönnun um umhverfi og samfélag var birt á vefsíðum sveitarfélaganna og umhverfisvottunarverkefnisins 1. desember 2020 og stóð hún til 17. desember 2020. Þetta var önnur skoðanakönnunin á vegum umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness en sú fyrri var send út í árslok 2012.

Í könnuninni var farið yfir bakgrunnsupplýsingar þátttakenda, þeir spurðir út í þekkingu og álit á umhverfisvottunarverkefninu og beðnir um álit á mikilvægi mismunandi þátta í umhverfis- og samfélagsmálum. Að auki voru möguleikar á opnum svörum þar sem íbúum gafst tækifæri til að tjá sig um ýmis mál.

Þau málefni í samfélagsmálum sem þátttakendur töldu mikilvægust í sínu sveitarfélagi voru málefni eldri borgara, lýðheilsa og aukið samráð við íbúa. Á eftir þeim komu aukið samráð við fyrirtæki, málefni fatlaðra, æskulýðsstarf, ferðaþjónusta og málefni nýbúa. Þau málefni í umhverfismálum sem íbúar töldu mikilvægust voru úrgangsmál, orkunotkun og verndun vistkerfa. Á eftir þeim komu matarsóun, aukið umhverfisstarf í skólum, aukið samráð/samvinna við fyrirtæki í umhverfismálum, losun gróðurhúsalofttegunda, aukin sjálfbærni/ náttúruvernd/ umhverfisvernd, fjölgun friðlýstra svæða og kolefnisbinding með endurheimt votlendis, landgræðslu eða skógrækt. Öll þessi málefni tengjast á einn eða annan hátt og er listinn að sjálfsögðu ekki tæmandi. Vert er að taka fram að þau málefni sem íbúum fannst að sín sveitarfélög ættu að leggja mesta áherslu á segir ekki til um að sveitarfélögin standi sig illa í þeim málefnum, heldur sýnir okkur það sem er ofarlega í hugum íbúa. Þátttakendur voru einnig beðnir um að nefna nýleg dæmi um verkefni í sínu sveitarfélagi sem voru í þágu umhverfisins. Þar mátti sjá dæmi um það sem íbúar voru sáttir með að hafi verið gert og vakið athygli, en sömu verkefnin voru nefnd í nokkur skipti í flestum sveitarfélögunum.

Flestir þátttakenda sögðust hafa heyrt af umhverfisvottun Snæfellsness, en minnihluti þeirra hafði heimsótt síður verkefnisins og kynnt sér sjálfbærnistefnu og framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna. Þarna er úrbóta þörf sem umhverfisvottunarverkefnið stefnir á að vinna í. Að lokum voru þátttakendur beðnir um álit á því hverju þeir telja að umhverfisvottunarverkefnið eigi að skila. Meiri umhverfisvitund íbúa, aukinn sýnileiki umhverfisstarfs sveitarfélaganna og meiri þátttaka fyrirtækja í umhverfismálum fengu flest stig þátttakenda, en ekki munaði miklu þar á milli. Þar á eftir var meiri þátttaka íbúa í umhverfismálum, betri ímynd svæðisins út á við og aukin umhverfisvernd/ náttúruvernd/ sjálfbærni. Það vakti athygli að málefnin sem fengu áberandi fæst stig voru öll tengd fræðslu; aukin fræðsla um náttúruvernd, matarsóun og loftslagsmál; þrátt fyrir að fræðsla og kynning séu helstu leiðirnar til að ná þeim markmiðum sem flestir vilja stefna að.

Tölurnar í súlunum eru hlutfall atkvæðafjölda innan hvers sveitarfélags.

Stefnt er leggja könnun sem þessa fyrir íbúa Snæfellsness reglulega næstu ár. Niðurstöðurnar endurspegla að sjálfsögðu ekki álit samfélagsins í heild, en þær gefa stjórnendum sveitarfélaganna hugmynd um hvar úrbóta er þörf. Umhverfisvottunarverkefnið mun á næstu árum nýta þessi gögn við verkefnaval í framkvæmdaáætlun, val á fræðsluefni og við upplýsingagjöf. Þessari könnun fylgir einnig lærdómur sem við tökum með okkur í gerð þeirrar næstu. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér niðurstöðurnar nánar á vefsíðu umhverfisvottunarverkefnis Snæfellsness www.nesvottun.is. Allar ábendingar og spurningar eru vel þegnar á gudrun@nsv.is

 

Guðrún Magnea Magnúsdóttir.

Höf. er verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness