Niðurgreiðum raforku til grænmetisræktar
Eyjólfur Ármannsson
Ísland er eyja í norður Atlantshafi. Sú staðsetning gerir það að verkum að þegar kemur að grænmeti þá höfum við tvo valkosti í boði. Við getum annaðhvort flutt það inn með skipum eða flugi, og borgað mikla álagningu fyrir vöru sem er ekki fersk, eða nýtt okkar grænu orku og hreina vatn til að rækta fyrsta flokks grænmeti á Íslandi.
Í dag eru til staðar samningar um niðurgreiðslu raforkukostnaðar við gróðurhúsarækt, en þeir samningar duga ekki til að niðurgreiða nema hluta af þeim kostnaði sem gróðurhúsabændur verða fyrir vegna lýsingar og hitunar gróðurhúsa.
Við í Flokki fólksins höfum lengi barist fyrir því að gróðurhúsabændur fái raforku-, hita- og flutningskostnað niðurgreiddan, svo að þeirra framleiðsla verði öflugri og neytendum bjóðist fyrsta flokks grænmeti á sanngjörnu verði. Jafnvel mætti hugsa sér að Ísland gæti einn daginn orðið útflutningsþjóð grænmetis ef við styðjum við gróðurhúsarækt með þessum hætti.
Því miður er staðan þannig í dag að gróðurhúsin okkar greiða meira fyrir sína orku en álverin. Þetta teljum við í Flokki fólksins í hrópandi ósamræmi við hagsmuni þjóðarinnar. Nýverið bárust fréttir af því að grænmeti gæti hækkað um 12% næstu áramót þar sem orkukostnaðurinn mun hækka um fjórðung. Þetta er sökum orkuskortsins sem fráfarandi ríkisstjórn algjörlega mistókst að koma í veg fyrir.
Ef Flokkur fólksins kemst í ríkisstjórn þá viljum við tryggja að hér verði hægt að rækta grænmeti í gróðurhúsum með okkar grænni orku og að neytendur fái að kaupa íslenskt grænmeti á góðu verði. Við viljum að gróðurhúsin fái niðurgreidda raforku og við viljum að orkan fari til þeirra en ekki til gagnavera og rafmyntagraftrar.
Forgangsröðum fyrir fólkið fyrst!
Eyjólfur Ármannsson
Höf. er oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi