Net tækifæra – nýsköpun og þróun

Gísli Gíslason og Páll S Brynjarsson

Atvinnulíf er síbreytilegt. Þetta líf sem er undirstaða byggðar og búsetuskilyrða. Hvort heldur eru tækniframfarir á tölvuöld eða breytingar í fjölda atvinnutækifæra þá má sjá víða merki breytileika á Vesturlandi – til sjávar og sveita.  Það vita allir að áföll í atvinnulífi vega að búsetuskilyrðum, en fjölgun starfa er tekið fagnandi og sem merki um framfarir og hagsæld. Á Vesturlandi þekkir fólk báðar hliðar þessara mála. Það er því sameiginlegt verkefni okkar að leita leiða þar sem þróun, hugvit og nýsköpun vinnur með samfélaginu að fjölgun starfa og fjölbreyttu atvinnulífi.

Með bættum samgöngum og ljósleiðurum hafa opnast ný tækifæri sem birtast í samvinnurýmum þar sem störf eru unnin án staðsetningar. Stofnun nýsköpunarsetra laðar að sér hugmyndaríkt fólk og áherslur háskólanna á Hvanneyri og í Bifröst um aukin tengsl við íbúa og atvinnulíf gefa fyrirheit um að spennandi verkefni geti orðið að veruleika. Á þessum vettvangi er pláss fyrir alla – einstaklinga og fyrirtæki af öllum stærðum.

Augljóst er að tækifærin nýtast best í frjóu umhverfi samstarfs og miðlunar upplýsinga. Til þess að styðja við áhuga stofnana, skóla, einstaklinga og fyrirtækja á þróun og nýsköpun er í undirbúningi að stofna Nýsköpunarnet Vesturlands (NýVest). Stefnt að því að þessi vettvangur verði formlega stofnaður á haustmánuðum.

Markmið NýVest verða:

  • Að vera vettvangur samstarfs og upplýsingamiðlunar.
  • Að aðstoða við að þroska og þróa álitlegar hugmyndir og stuðla að lífvænleika áhugaverðra verkefna,
  • Að tengja saman hagaðila sem vinna að nýsköpun á Vesturlandi; skóla, fyrirtæki og einstaklinga,
  • Að auka og efla tengsl fyrirtækja/atvinnulífs við sterkt þekkingarumhverfi á Vesturlandi,
  • Að styðja við frumkvæði í heimabyggð þannig að setur og samvinnurými verði drifkraftur NýVest
  • Og að vera faglegur bakhjarl nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á Vesturlandi.

Á næstunni verður hugmyndin að baki NýVest kynnt á Vesturlandi, en vettvangurinn verður sjálfseignarstofnun, sem verði í tengslum við SSV sem um árabil hefur komið að stuðningi við nýsköpun á Vesturlandi með einum eða öðrum hætti. Allir sem áhuga hafa geta orðið stofnfélagar, þar sem einstaklingar leggi fram 15.000 króna stofnfé, en fyrirtæki 30.000 krónur.  Vettvangurinn verður síðan opinn öllum sem áhuga hafa á. Með öflugu samstarfi og tengingum má ná árangri í þróun nýrra starfa, nýsköpun og fjölgun starfa án staðsetningar.  Nýsköpunarnetinu er ætlað að styðja við þá þróun.

Í þessu greinarkorni viljum við hvetja einstaklinga og fyrirtæki til þess að gerast stofnfélagar vettvangsins, en stofnfundur er áætlaður í októbermánuði og verður auglýstur með góðum fyrirvara. Í þróun og nýsköpun liggur urmull tækifæra, stór og smá og á fjölmörgum sviðum.  Nýting þessara tækifæra er undir íbúunum komin, vilja þeirra og áhuga á að taka með beinum hætti þátt í að efla atvinnulíf á Vesturlandi. Máltækið „Situr sveltandi kráka en fljúgandi fær“ getur átt við um það hvort við látum skeika að sköpuðu í þeirri hröðu þróun sem á sér stað í nýsköpun og breyttu samfélagi eða hvort við leggjum okkar að mörkum á þeim vettvangi með hugvit, samvinnu og viljann að vopni.

 

Páll Snævar Brynjarsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV)

Gísli Gíslason, formaður starfshóps um NýVest.